Cyril Genik

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Cyril Genik (1857–1925)

Cyril Genik (f. 1857, d. 12. febrúar, 1925) var umboðsmaður úkraínskra innflytjenda til Kanada undir lok 19. aldar.

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Cyril Genik fæddist 1857 í Bereziv Nyzhnii í Galisíu. Foreldrar hans voru Ivan Genyk, sem var sveitarstjóri, og Ann Pertsovych. Genik stundaði fyrst nám í Kolomyja en flutti sig síðan í skóla sem nú er kenndur við Ivano-Frankivsk til að ljúka kennaranámi. Hann lauk BA-gráðu í Lviv áður en hann var skipaður kennari 1879 í Nadvirna-héraði. Árið 1882 sneri hann til baka í heimaþorpið og stofnaði þar skóla. Á níunda áratug 19. aldar stofnaði Genik fyrirtæki og samlag um kornmölun og kornafurðir sem hann kallaði The Carpathian Store.[1] Árið 1890 var hann kjörinn bæjarstjóri í Kolomyja þar sem hann hafði áður stundað nám.[1]

Á þessum tíma hitti Genik Joseph Oleskiw sem hafði hvatt Úkraínumenn til að flytja til Kanada. Oleskiw spurði Genik hvort hann gæti farið með næsta hópi og verið leiðtogi Úkraínumannanna á ferðalagi þeirra til Kanada og hjálpað þeim að setjast þar að. Fjölskylda Geniks, eiginkona og fjögur börn, fóru með 64 manna hópi sem kom til Québec 22. júní 1896. Genik leiddi hópinn fyrst til Winnipeg en síðan til þess staðar sem varð Stuartburn, Manitoba, og er núna þekktur fyrir að þar hafi orðið til fyrsta samfélag Úkraínumanna í Vestur-Kanada. Í ágúst sótti Genik um að setjast að í Stuartburn, en snerist síðan skyndilega hugur og ákvað að setjast að í Winnipeg. Í sama mánuði mælti Oleskiw með Genik við innanríkisráðuneyti Kanada sem „umboðsmanni innflytjenda“. Í september var Genik orðinn starfsmaður ráðuneytisins og túlkaði og útskýrði fyrir löndum sínum það sem þurfti. Í starfi sínu sem umboðsmaður hitti Genik nýja úkraínska innflytjendur í Québecborg og veitti þeim þjónustu sem opinber starfsmaður hvar sem á þurfti að halda. Hann hvatti alla til að tileinka sér ensku og að fólk hætti að ganga í þjóðbúningum. Starfsvið Genik jókst í hlutfalli við fjölgun innflytjenda frá Úkraínu – svo mikið raunar að árið 1898 var hann kominn í fullt starf á launum hjá stjórninni. Þar með var hann orðinn fyrsti Úkraínumaðurinn til að fá fullt opinbert starf hjá kanadísku ríkisstjórninni.[2]

Árið 1899 stofnaði Genik The Taras Shevchenko Reading Hall[3] á heimili sínu og gaf út fyrsta dagblaðið sem skrifað var á úkraínsku, Kanadyinski farmer („Kanadískur bóndi“) árið 1903. Þrátt fyrir að hann væri ekki trúaður sjálfur trúði Genik að kristnir söfnuðir ættu að vera óháðir reglum grísku og rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar og hann stofnaði óháða „gríska kirkju“[4] í samvinnu við presta öldungakirkjunnar í Winnipeg 1903-1904. Í kjölfar kosninganna 1911 þar sem Genik studdi frjálslynda flokkinn sem missti völdin, missti Genik starfið. Þar með lauk ferli hans sem opinbers starfsmanns. Hann bjó um tíma í Bandaríkjunum en sneri aftur til Winnipeg þegar hann var orðinn nokkuð roskinn og lést þar 12. febrúar 1925.[1]

Þegar Genik lést var hann orðinn svo þekktur í samfélagi Úkraínumanna í Kanada að hann var kallaður „tsarinn af Kanada“.[5]

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 Stella Hryniuk. „Cyril Genik“. Sótt 25. janúar, 2011.
  2. „Forging Our Legacy: Canadian Citizenship and Immigration, 1900–1977“. Citizenship and Immigration Canada. 2000. Sótt 25. janúar, 2011.
  3. Martynowych, Orest T., The Taras Shevchenko Reading Club/Educational Society For ... [1]
  4. Martynowych, Orest T., The Seraphimite, Independent Greek, Presbyterian and United Churches [2]
  5. Family of C. C. T. (Con) Genik (2010). „Obituary for C. C. T. (Con) Genik“. Passages MB. Sótt 25. janúar, 2011.

Ritaskrá[breyta | breyta frumkóða]

  • Dictionary of Ukrainian Canadian biography, pioneer settlers of Manitoba, 1891–1900, V. J. Kaye, editor and compiler (Toronto, 1975).
  • Oleksander Dombrovsky, Outline of the history of the Ukrainian Evangelical-Reformed movement (New York et Toronto, 1979) [á úkraínsku].
  • A heritage in transition : essays in the history of Ukrainians in Canada, M. R. Lupul, editor (Toronto, 1982).
  • J.-P. Himka, Galician villagers and the Ukrainian national movement in the nineteenth century (New York, 1988).
  • V. J. Kaye, Early Ukrainian settlements in Canada, 1895–1900 Dr. Josef Oleskow's role in the settlement of the Canadian northwest (Toronto, 1964).
  • O.T. Martynowych, The Seraphimite, Independent Greek, Presbyterian and United Churches ([3]).
  • O.T. Martynowych, The Taras Shevchenko Reading Club/Educational Society ([4]).
  • O. T. Martynowych, Ukrainians in Canada : the formative period, 1891–1924 (Edmonton, 1991).
  • M. H. Marunchak, Studies in the history of Ukrainians in Canada (5 vol. published, Winnipeg, 1964– ) [á úkraínsku].
  • O. I. Sych, From the « new land » letters of Ukrainian emigrants from Canada (Edmonton, 1991) [á úkraínsku].

Ytri tenglar[breyta | breyta frumkóða]