Fara í innihald

Craig Ferguson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ferguson, 2013

Craig Ferguson (f. 1962) er þáttastjórnandi, leikari og uppistandari. Ferguson fæddist í Glasgow Skotlandi og ólst upp í borginni Cumbernauld. Hann hætti í skóla 16 ára gamall. Fyrstu spor hans í skemmtanabransanum voru sem trommari í pönk-hljómsveitum, meðal annars í hljómsveitinni Dreamboys með Peter Capaldi á bilinu 1980-82.

Eftir hvatningu frá Capaldi reyndi Ferguson fyrir sér í uppistandi. Þar skapaði hann persónuna Bing Hitler sem varð nokkuð fræg í Skotlandi.

Á seinni hluta níunda áratugarins og byrjun þess tíunda reyndi Ferguson fyrir sér sem leikari og þáttastjórnandi meðfram uppistandi. Takmarkaður árangur hans var að mörgu leyti tengdur áfengis- og vímuefnaneyslu. Árið 1992 sneri hann við blaðinu og hætti að drekka og dópa.

Árið 1994 flutti Ferguson til Bandaríkjanna og reyndi fyrir sér sem leikari. Hann lék í prufuþáttum og sjónvarpsseríum sem entust stutt. En frá 1996 til 2003 lék hann uppskrúfaðan breskan yfirmann í The Drew Carey Show og öðlaðist þannig nokkra frægð í Bandaríkjunum.

Þar sem Ferguson var í aukahlutverki í sjónvarpsþættinum hafði hann töluverðan frítíma sem hann nýtti meðal annars til þess að skrifa handrit að kvikmyndunum The Big Tease og Saving Grace sem hann síðan lék aðalhlutverk í. Síðarnefnda myndin kynnti til sögunnar lækninn Martin Clunes sem varð síðar grunnurinn að sjónvarpsþáttunum Doc Martin.

Eftir að The Drew Carey Show hafði lokið göngu sinni árið 2004 fékk Ferguson hlutverk þáttastjórnanda Late Late Show og gengdi því til ársins 2014 þegar James Corden tók við. Á þessum tíma varð þátturinn hálfgerð ádeila á þessa tegund síðkvöldsspjallþátta. Ferguson hafði hvorki fyndinn hjálparkokk eða hljómsveit með sér og árið 2010 fékk hann vélmennabeinagrind (sem Josh Robert Thompson stjórnaði og raddaði) sér til aðstoðar. Á svipuðum tíma bættist hesturinn (leikarar í gervilegum búningi) Secretariat við sem fastur liður í þættinum.

Þó þessi ærsl og undarlegheit hafi leikið stórt hlutverk í þættinum vakti Ferguson einnig athygli fyrir alvarlegri dagskrárliði. Hann talaði opinskátt um fíkn sína og áföll svo sem dauða foreldra sinna. Þegar Britney Spears var í fréttum fyrir undarlega framgöngu lét hann var að gera grín að henni eins og aðrir grínistar og reyndi að beina athyglinni að hér væri á ferðinni manneskja sem þyrfti hjálp. Hápunktur Late Late Show var þó án efa þegar hann ræddi við Desmond Tutu erkibiskup. Ferguson talaði oft um Ísland í þættinum og fékk Jón Gnarr sem gest.

Á meðan Ferguson stjórnaði Late Late Show gerðist hann bandarískur ríkisborgari, án þess þó að afsala sér þeim breska. Það leiddi síðan til þess að honum sá um uppistand á blaðamannakvöldverði Hvíta hússins árið 2008.

Þar sem Late Late Show var framleiddur af David Letterman og sýndur í kjölfar Late Show með Letterman var alltaf talið nokkuð líklegt að Ferguson gæti tekið við þeim þætti. Fljótlega eftir að Letterman tilkynnti að hann ætlaði að hætta árið 2014 tilkynnti Ferguson að hann ætlaði sjálfur að hætta og lýsti um leið yfir að hann myndi ekki taka við Late Show.

Árin eftir Late Late Show hefur Ferguson unnið við ýmis smærri verkefni til skemmri tíma og þar má helst nefna skammlífan útvarpsþátt.