Command & Conquer

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Command & Conquer (skammstafað ýmist C&C eða C'n'C) er röð rauntíma-herkænskutölvuleikja og eins fyrstu persónu skotleiks frá fyrirtækjunum Westwood Studios og Electronic Arts sem keypti Westwood 1998 og lagði það niður árið 2003. Meðal þess sem leikirnir hafa verið þekktir fyrir eru leikin atriði á milli herferða sem voru í öllum leikjunum fram að Renegade, þar sem atriðin voru ekki leikin heldur tölvugerð. Engin slík atriði voru þó í Generals eða Zero Hour. Einnig eru þeir þekktir fyrir tónlistina, sem var - allt fram að Generals - samin af Frank Klepacki. Rétt er að taka fram að vegna fyrrgreindra atriða sem og allt öðruvísi viðmóti og spilunaraðferðum telja sumir aðdáendur Command & Conquer leikjanna Generals í raun ekki C&C-leik nema að nafninu til.

Leikirnir[breyta | breyta frumkóða]

Leikirnir sem komið hafa út undir merkinu Command & Conquer eru, raðaðir eftir útgáfuári, eftirfarandi (inndregnir eru viðbótarpakkar):

  • Command & Conquer (síðar kallaður Tiberian Dawn til aðgreiningar frá öðrum) - (1995)
    • Covert Operations - (1996)
  • Red Alert - (1996)
    • Counterstrike - (1997)
    • Aftermath - (1997)
  • Sole Survivor - (1997)
  • Tiberian Sun - (1999)
  • Red Alert 2 - (2000)
    • Yuri's Revenge - (2001)
  • Renegade - (2002) - (sá eini sem ekki er herkænskuleikur heldur fyrstupersónu skotleikur)
  • Generals - (2002)
  • Tiberium Wars - (2007)
    • Kane's Wrath - (2008)

Samhengi[breyta | breyta frumkóða]

Fram að tilkomu Red Alert 2 var almennt talað um leikina sem eina heild, og að í tímaröð kæmu þeir svo: Red Alert, Tiberian Dawn og Tiberian Sun. Red Alert var þá einskonar forleikur Tiberian-leikjanna. Með tilkomu Red Alert 2 urðu tengslin óljósari, en þó ekki ómöguleg, svo margir bíða eftir leiknum Red Alert 3 (sem hefur verið tilkynnt að sé í vinnslu) til að skera endanlega úr um það. Generals og viðbótarpakkinn Zero Hour falla hinsvegar alls ekki inn í þann söguþráð. Renegade gerist á svipuðum tíma og Tiberian Dawn en er í fyrstu persónu, ekki þriðju og skotleikur í stað herkænskuleiks.

Söguþræðir[breyta | breyta frumkóða]

Sökum fyrr greindrar óvissu með samhengi söguþráða Red Alert og Tiberian-söguþráðanna verður greint frá þeim í sitt hvoru lagi.

Tiberian[breyta | breyta frumkóða]

Í Tiberian-leikjunum eru tveir aðilar sem berjast, Global Defence Initiative (GDI - má ef til vill þýða sem Alheimsvarnarbandalagið) sem er herarmur Sameinuðu þjóðanna, og Nod bræðralagið. Árið 1995 hófu að birtast kristallar af gerð algjörlega framandi jörðinni í kringum ána Tíber á Ítalíu og urðu kenndir við hana, tíberíum. Þeir eru mjög nytsamlegir, þar sem þeir virka sem hálfgerðar námur, dragandi úr jörðinni öll steinefnin. Það er hinsvegar líka stórhættulegt og stökkbreytir lífverum. Það er talið hafa komið til jarðarinnar með loftsteini Baráttan um þetta efni er ástæða stríðsins. Bæði öflin vilja nota það, en í sitthvorum tilgangi. Í lok Tiberian Dawn er talið að leiðtogi Nod, Kane, hafi verið drepinn, en í Tiberian Sun kemur í ljós að hann er enn á lífi. Á meðan barist er dreifist tíberíum hratt um jörðina og líf margra eru í hættu, margir stökkbreytast og eru þau stökkbreyttu kölluð hinir gleymdu og mynda öflugan hóp sjálf. Í lok þess og í viðbótarpakkanum Firestorm leiks kemur svo enn eitt aflið fram á sjónarsviðið en það er CABAL, sem áður var aðaltölva Nod. Markmið hans (þar sem CABAL er almennt karlkyns) eru óljós, en GDI og Nod verða að berjast saman gegn honum, fyrir tilverurétti beggja.

Red Alert[breyta | breyta frumkóða]

Skjáskot úr Red Alert 2, þar sem sjást Yuri og Romanov í skrifstofu hins síðarnefnda.

Red Alert leikirnir snúast um hálfgert kalt stríð án síðari heimsstyrjaldar. Öflin sem berjast eru Sovétríkin og Bandamenn. Það sem gerist er að Albert Einstein fer aftur í tíman til að stöðva Hitler frá því að komast til valda og fara í stríð. Það sem ekki var gert ráð fyrir, hins vegar, er að þá komu Sovétríkin einfaldlega í staðin og Stalín réðst inn í Evrópu. Síðari heimsstyrjöldin gerist þess vegna í Red Alert, en með öðrum aðilum að berjast, og Þjóðverjum meðal Bandamanna. Stalín nær að taka yfir meirihlutan af Evrópu án þess að Bandaríkin geri í raun nokkuð, en þau eru að nafninu til hlutlaus framanaf, en þar með líka aukandi samstöðu Evrópuþjóða, meðal annars þannig að þær taka upp Evruna. Bandamenn náðu þó að ýta undir óánægju í Sovétríkjunum sjálfum, og þar með byrjaði veldi Stalíns að molna innan frá. Rétt eins og í síðari heimsstyrjöldinni raunverulegu neyðast Bandaríkjamenn svo á endanum að fara beint í stríð þegar árás er gerð á Pearl Harbor á Hawaii. Þá fara þeir að senda vopn og birgðir til Evrópu, og upp úr því snýst stríðið við og Sovétmenn eru hraktir til baka. Bandamenn ná á endanum til Moskvu en á meðan árás þeirra á borgina stendur er Stalín drepinn og utanríkisráðherrann sem tekur strax við af honum semur um algjöra uppgjöf. Þá setja Bandamenn Alexander Romanov í stöðu æðsta yfirmanns Sovétríkjanna. Það er árið 1954 en þá helst friður í næstum tuttugu ár, eða til 1971. Öllum að óvörum ráðast Sovétmenn þá skyndilega á Bandaríkin. Með aðstoð hins dularfulla Yuris ná Sovétmenn að eyðileggja allar kjarnavopnabirgðir Bandaríkjamanna. Einnig hafa þeir á milli stríða byggt upp hóp dyggra bandamanna um heim allan, ríki svo sem Kúba og Lýbía. Notandi meðal annars hugstjórnunartækni Yuris ná Sovétmenn meirihluta Bandaríkjanna fljótt og örugglega undir sitt vald, þar á meðal stjórna þeir forestanum Dungan og herforingjanum Carville. Evrópumenn eru tregir við að láta dragast inn í stríðið, sérstaklega þar sem samskipti þeirra og bandaríkjamanna hafa versnað mjög milli stríða. Stuttu eftir að forsetinn og æðstu hersöfðingjar eru frelsaðir ná þeir þó að tala Evrópuþjóðirnar til eftir að kjarnavopnum Sovétmanna í Póllandi hefur verið eytt. Þá snýst stríðið loks Bandamönnum í hag, en ekki þó eftir að Sovétmenn hafa náð stórum hlutum Evrópu á sitt vald. Sigur Bandamanna má að stóru leyti segja Albert Einstein og hans tækni að þakka, en hann finnur upp ýmsa nýa varnartækni sem og Chronosphere, sem er tæki sem flutt getur hluti á engum tíma milli staða (það sem á ensku kallast teleport). Þegar Bandamenn ráðast inn í Moskvu ná þeir Romanov. Aðstoðarmaðurinn Yuri sleppur hins vegar og í ljós kemur að hann hefur verið að stjórna á bak við tjöldin, haft Romanov á valdi sínu með hugstjórnun. Yuri kemur þó stuttu síðar fram í dagsljósið og kemur í ljós að hann hefur verið að byggja hugstjórnunar tæki víða um heiminn og ætlar að taka yfir allan heiminn. Þá þurfa Bandamenn að fara til baka í tímann og sannfæra Sovétmenn um að vinna með sér gegn honum. Það gerist í Yuris Revenge.

Generals/Zero Hour[breyta | breyta frumkóða]

Eins og áður segir eru engin tengsl á milli söguþráða fyrri C&C leikja og Generals og aukapakkans Zero Hour. Generals gerist í nálægri framtíð og söguþráður hans á að vera nokkuð raunsærri en fyrri C&C leikja. Hann lýsir stríði sem brýst út á milli Bandaríkjanna og Kína annarsvegar og alþjóðlegra hryðjuverkasamtaka sem kallast Global Liberation Army (GLA) hinsvegar. Hugmyndafræði GLA er ekki mjög skýr enda er lögð minni áhersla á söguþráð í þessum Generals en þeim öðrum leikjum seríunnar enda er leikurinn einkum hugsaður fyrir netspilun.

Vefsamfélag[breyta | breyta frumkóða]

Margir aðdáenda Command & Conquer eru mjög dyggir og í kringum leikina hefur alltaf verið mjög virkt vefsamfélag. Þegar Westwood Studios voru til voru sérstakir veffulltrúar fyrir alla leikina sem sáu um að eiga samskipti við samfélagið og láta það vita af því sem var að gerast. Þessi staða sérstaklega fyrir Command & Conquer er ekki til staðar hjá Electronic Arts (þar sem þó eru starfandi veffulltrúar, bara ekki fyrir staka leiki), og stuðningur við spilendur með hlutum eins og uppfærslupökkum hefur minnkað niður í næstum ekki neitt. Samfélagið hefur að ákveðnu leyti tekið það að sér með fyrirbærum eins og XWIS sem er kerfi til netspilunnar rekið af aðdáendum, og Blackhand Studios sem sjá um uppfærslur á Renegade. Þar að auki hefur alltaf verið mjög virkt samfélag breytara (enska: modder) og þeirra sem búa til óopinber borð fyrir leikina og það samfélag hefur haldið velli þrátt fyrir minnkandi stuðning frá framleiðendum.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Wikipedia
Wikipedia