Fara í innihald

City Ground

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
City Ground séð handan árinnar Trent

City Ground er knattspyrnuvöllur í ensku borginni Nottingham og heimavöllur Nottingham Forest. Völlurinn var tekinn í notkun 1898 og tekur 30 þúsund manns í sæti.

Saga vallarins

[breyta | breyta frumkóða]
City Ground 1898

Völlurinn í City Ground var lagður síðla á 19. öld. Nottingham Forest átti kost á að flytja á völlinn 1898 við greiðslu þrjú þúsund punda. Flutningurinn átti sér stað 3. september sama ár, 33 árum eftir stofnun félagsins. Völlurinn hlaut heitið City Ground, enda hafði Nottingham hlotið borgarréttindi árið á undan og mátti kalla sig City. Nýi völlurinn liggur við ána Trent, gegnt Meadow Lane, heimavöll Notts County. Í upphafi var City Ground opin í þrjár hliðar og var aðeins með eina stúku. 1957 var stúkan East Stand reist og tekin í notkun, en hún bauð upp á 2.500 sæti. 1965 var stúkan Main Stand reist. Tveimur árum síðar, í október 1967, var aðsóknarmet sett er 49.946 áhorfendur mættu til að sjá Nottingham Forest leika gegn Manchester United og sigruðu heimamenn 3-1.

Bruninn mikli

[breyta | breyta frumkóða]

24. ágúst 1968 léku heimamenn deildarleik við Leeds United. Rétt fyrir hálfleik braust út eldur, nálægt búningsherbergjum að talið er, sem breiddist hratt út. Í eldinum brann Main Stand til kaldra kola. Einnig brunnu bikarar og önnur verðlaun sem félagið hafði unnið í gegnum tíðina. 31 þús manns voru á leikvanginum og komust allir lífs af. Meðan stúkan var endurreist varð Nottingham Forest að leika heimaleiki sína á Meadow Lane. Leikirnir urðu 6 talsins og vannst enginn þeirra. Stúkan var endurbyggð og tók þá 5.708 manns í sæti.

Nýrri saga

[breyta | breyta frumkóða]
City Ground (nær), Meadow Lane (fjær)

1980 var stúkan Executive Stand reist. Fjármagnið kom að mestu úr velgengninni sem Nottingham Forest átti við að fagna á þessu tímabili. Framkvæmdastjórinn Brian Clough hafði gert félagið að enskum meisturum og unnið Evrópukeppnina tvisvar í röð. Stúkan gat tekið tíu þúsund manns í sæti. Hún var endurbætt á 10. áratugnum og nefnd Brian Clough Stand við opnunina. Í stúkunni eru einnig 36 klefar fyrir sérstaka gesti og matsalur. Á hliðinni sem snýr inn að leikvanginum er stafræn markatafla. Þar er einnig aðstaða fyrir 70 hjólastóla. 1992-93 var stúkan Bridgford Stand reist. Hún hlaut óvenjulegt þak þar sem tekið þurfti tillit til þess að skyggja ekki fyrir sólina í götunni (Colwick Road). Nýjasta stúkan er Trent End og snýr hún að ánni Trent. Hún var reist 1996 og tekinn í notkun rétt mátulega fyrir leiki í EM 1996 sem fram fóru á vellinum. Stúkan tekur sjö þúsund manns í sæti, þannig að allt í allt rúmast 30.576 manns á vellinum í dag. Stúkan var byggð þannig að auðvelt er að bæta við einni hæð og auka þannig áhorfendafjöldann.

Landsleikir

[breyta | breyta frumkóða]

Þrír landsleikir hafa farið fram á City Ground, allir í tengslum við EM 1996.

Dags. Landsleikur Úrslit
11. júní Tyrkland - Króatía 0-1
14. júní Portúgal - Tyrkland 1-0
19. júní Króatía - Portúgal 0-3

Enska landsliðið hefur aldrei leikið landsleik á City Ground.

Framtíðarhorfur

[breyta | breyta frumkóða]

Í júní 2007 tilkynnti stjórn Nottingham Forest að áætlanir væru uppi um að reisa nýjan leikvang sem tæki 50 þúsund áhorfendur. Sá völlur yrði þá tilbúinn fyrir HM 2018 sem England hafði sótt um að fá að halda, enda var City Ground ekki heppilegur keppnisstaður. Fjármagn myndi koma frá styrktaraðilum og frá borginni. Hugmyndir að heiti á nýja leikvanginum voru ýmsar. Þar á meðal Brian Clough Arena, New City Ground, City of Nottingham Stadium og Robin Hood Arena. En illa gekk að finna heppilega lóð og dróst málið í nokkur ár. Síðan gerðist það að England fékk ekki HM 2018, heldur var keppninni úthlutuð Rússlandi. Þar með voru allar áætlanir um nýjan leikvang lagðar á ís. Í staðinn gera menn ráð fyrir stækkun á Main Stand stúkunni ef Nottingham Forest ynni sér rétt til að leika í úrvalsdeildinni í náinni framtíð.

Aðrir viðburðir

[breyta | breyta frumkóða]

Kvennaboltinn

[breyta | breyta frumkóða]

City Ground hefur fjórum sinnum verið notaður fyrir kvennaúrslitaleik bikarkeppninnar: 1987, 2007, 2008 og 2010.

  • 1987 sigraði Doncaster Belles lið St Helens 2-0.
  • 2007 sigraði kvennalið Arsenal lið Charlton Athletic 4-1. Áhorfendur voru 24.529 sem var met í keppninni frá upphafi.
  • 2008 sigraði Arsenal kvennalið Leeds United 4-1. Aftur var áhorfendamet slegið, en þá mættu 24.582 manns.
  • 2010 sigraði Arsenal á ný, að þessu sinni kvennalið Everton 3-2 í framlengdum leik. Áhorfendur voru 17 þús.

Rúgbý og tónleikar

[breyta | breyta frumkóða]

Auk knattspyrnu hafa tveir aðrir viðburðir farið fram á City Ground.

  • 28. apríl 2002 fór fram undanúrslitaleikur í bikarkeppninni í rúgbý. Í honum sigruðu Leicester Tigers liðið Llanelli Scarlets frá Wales.
  • 6. júlí 2005 fóru fram stórtónleikar hljómsveitarinnar R.E.M. á vellinum. Aðsóknin var 20 þúsund manns.