Christine Jorgensen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Christine Jorgensen
Jorgensen árið 1954.
Fædd30. maí 1926
Dáin3. maí 1989 (62 ára)
ÞjóðerniBandarísk
StörfLeikkona, söngkona

Christine Jorgensen (30. maí 1926 – 3. maí 1989) var bandarísk trans kona. Hún var fyrsta manneskjan í Bandaríkjunum sem varð þekkt fyrir að hafa gengið í gegn um kynleiðréttingaraðgerð. Jorgensen ólst upp í New York borg og var kvödd til herþjónustu í seinni heimsstyrjöldinni. Eftir að herþjónustu hennar var lokið ferðaðist hún til Kaupmannahafnar, þar sem hún gekkst undir röð aðgerða frá og með árinu 1951.[1]

Christine sneri aftur til Bandaríkjanna og rataði kynleiðrétting hennar á forsíðu dagblaðsins The New York Daily News. Hún nýtti skyndilega frægð sína til að berjast fyrir réttindum trans fólks, auk þess að vinna sem leikkona og skemmtikraftur.

Uppeldi og menntun[breyta | breyta frumkóða]

Jorgensen ólst upp í Bronx hverfi New York borgar. Hún var annað barn trésmiðsins George William Jorgensen, Sr., og Florence Davis Hansen, eiginkonu hans. Í viðtölum lýsti Jorgensen æsku sinni svo að hún hafi verið "veikburða, ljóshærður, ómannblendinn lítill strákur sem hljóp frá slagsmálum og áflogum."[2]

Jorgensen útskrifaðist frá Christopher Columbus High School árið 1945 og var kvödd til herþjónustu í Bandaríkjaher þegar hún var 19 ára. Eftir að hún lauk herþjónustu sinni gekk Jorgensen í Mohawk Valley Community Collage í Utica, New York, the Progressive School of Photography í New Haven, Connecticut og í Manhattan Medical and Dental Assistant School í New York.

Kynleiðréttingaraðgerðir[breyta | breyta frumkóða]

Eftir herþjónustu sneri Jorgensen aftur til New York borgar, þar sem hún fór í auknum mæli að velta fyrir sér kyni sínu. Hún leitaði aðstoðar lækna og byrjaði sjálf að taka inn estrógen. Þar sem hún gat ekki fengið þá læknishjálp sem hún þurfti í Bandaríkjunum lagði hún leið sína til Svíþjóðar, þar sem hún taldi sig geta fengið þá hjálp. Hún kom við í Danmörku þar sem hún dvaldi um stund hjá ættingjum. Þar komst hún í samband við Christian Hamburger, lækni sem stundaði þar hormónarannsóknir. Christian féllst á að veita henni meðferð án endurgjalds og valdi Jorgensen sitt nýja nafn, Christine, til heiðurs honum.[3]

Jorgensen fékk sérstakt leyfi frá danska dómsmálaráðherranum til að gangast undir aðgerðir í landinu. Árið 1951 gekkst hún undir eistanám við Gentofte sjúkrahúsið í Kaupmannahöfn og 1952 undir limnám við Rigshospitalet.[3]

Þegar leggangalögun varð aðgengileg í Bandaríkjunum gekkst Jorgensen einnig undir þá aðgerð. Var sú aðgerð framkvæmd af Joseph Angelo, sem hafði ráðlagt henni að leita til Evrópu þegar hún sóttist fyrst eftir kynleiðréttingu.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „11 Remarkable Transgender People from History“. HistoryCollection.co (bandarísk enska). 8. október 2017. Sótt 11. mars 2020.
  2. Jorgensen, Christine (1968). Christine Jorgensen; a personal autobiography. Internet Archive. New York, Bantam Books.
  3. 3,0 3,1 „Jorgensen, Christine (30 May 1926-3 May 1989), who achieved fame by undergoing a surgical sex change, was born George William Jorgensen, Jr“. web.archive.org. 22. febrúar 2009. Afritað af uppruna á 22. febrúar 2009. Sótt 11. mars 2020.