Fara í innihald

Brúará

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Brúará
Brúarárfoss (1889)
Staðsetning
LandÍsland
Einkenni
UppsprettaLaugardalsfjöll
Hnit64°11′43″N 20°34′13″V / 64.195272°N 20.570406°V / 64.195272; -20.570406
Árós 
 • staðsetning
Hvítá (Árnessýslu)
Lengd38 km
Rennsli 
 • miðlungs50-80 m3/sec
breyta upplýsingum

Brúará er næst-stærsta lindá Íslands, og rennur um mörk Biskupstungna og Grímsness. Upptök sín hefur áin í Laugardalsfjöllum, Rótarsandi, Úthlíðarhrauni og á hálendinu þar fyrir innan, í svokölluðum Brúarskörðum. Skörðin eru í raun gil þar sem vatnið seytlar úr berginu beggja megin og myndar litla fossa ofan í ána, sem þó telst bara lækur á þessum stað. Þann 20. júlí árið 1433 var Jón Gerreksson biskup settur í poka og drekkt í Brúará.

Brúará dregur nafn sitt af steinboga sem lá yfir hana. Fólk gat gengið yfir bogann, sem myndaði þannig eins konar náttúrulega brú. Sögusagnir segja þó að vinnumaður í Skálholti hafi brotið bogann niður svo umrenningar ættu ekki eins auðvelda leið að höfuðbólinu. Í Biskupasögum Jóns Halldórssonar segir svo frá þessu;

Á þeim stóru harðindaárum til lands og sjávar hér um anno 1602 var af fátæku
umferðar og uppflosnuðu fólki úr öllum áttum mikil aðsókn að Skálholtsstað. En bryti
staðarins meinti henni mundi réna, ef sú sjálfgerða brú eður steinbogi á Brúará (hvar
að hún hafði það nafn) væri af brotinn. Fór því til og braut hana með mannafla —
með vitund, ef ei með ráði biskupshústrúr Helgu Jónsdóttur, en án vitundar herra
Odds, því það tiltæki féll honum stórilla, þá hann fékk það að vita, ávítandi brytann
mjög, og kvað hvorki sér né homum nokkurt happ þar af standa mundi.
Skömmu síðar drukknaði þessi bryti í Brúará. 

Ágætis fiskgegnd er í ánni og vinsælt er að veiða í henni rétt fyrir ofan Spóastaði.

Brúará rennur loks í Hvítá milli Skálholts og Sólheima, á móts við Vörðufell á Skeiðum.