Fara í innihald

Brian Pilkington

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Brian Charles Pilkington (f. 20. júlí 1950) er ensk-íslenskur myndlistamaður. Hann er þekktur fyrir myndskreytingar á fjölda íslenskra barnabóka sem hann hefur unnið frá því á níunda áratugnum. Hann hefur einnig myndskreytt eigin bók, Dýraríki Íslands, sem kom út árið 1992.[1]

Brian er fæddur og uppalinn í Liverpool í Bretlandi og útskrifaðist með BA-gráðu í teikningum frá Háskólanum í Leicester. Hann flutti til Íslands árið 1974 eftir að hafa hrifist af landinu í fríi þar og hóf störf í auglýsingaiðnaðinum. Undir lok áttunda áratugsins hóf hann feril sem myndskreytari með myndum sínum í barnabókinni Ástarsögu úr fjöllunum eftir Guðrúnu Helgadóttur.[2]

Frá því að Brian flutti til Íslands hefur hann myndskreytt fjölda bóka sem byggja á íslenskum þjóðsögum. Í seinni tíð hefur hann sér í lagi verið þekktur fyrir myndir sínar af jólavættum á borð við jólasveinana, Grýlu, Leppalúða og jólaköttinn. Bókin Allt um tröll eftir Brian hlaut viðurkenningu íslenska ferðamálaráðsins sem besta hugmynd að minjagrip frá Íslandi árið 1999. Brian hefur einnig hlotið Dimmalimm – íslensku myndskreytiverðlaunin fyrir bókina Mánasteina í vasanum og var tilnefndur til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur fyrir myndir sínar í bókinni Jólakötturinn tekinn í gegn.[3]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Kristín Marja Baldursdóttir (24. maí 1992). „Í fuglaheimi“. Morgunblaðið. Sótt 2. ágúst 2019.
  2. Elías Þórsson (22. desember 2017). „Brian Pilkington: The Modern Father Of The Icelandic Yule Lads“ (enska). The Reykjavík Grapevine. Sótt 2. ágúst 2019.
  3. „Brian Pilkington“. Forlagið. Sótt 2. ágúst 2019.