Fara í innihald

Svörtu hlébarðarnir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Black Panther Party)
Vopnaðir meðlimir Svörtu hlébarðanna á mótmælasamkomu.

Svörtu hlébarðarnir (e: Black Panther Party (BPP), upphaflega Black Panther Party for Self-Defense) voru samtök sem voru stofnuð 15. október árið 1966 í Oakland, Kaliforníu. Stofnendur samtakanna voru Bobby Seale og Huey P. Newton. Hugmyndafræði samtakanna og baráttuaðferðir voru sóttar til Black Power-hreyfingarinnar, hugsuða og aðgerðarsinna á borð við Malcolm X og Stokely Charmichael. Svortu hlébarðarnir voru ein mikilvægasta hreyfingin sem spratt úr hinu Nýja vinstri í Bandaríkjunum á sjöunda og áttunda áratugnum.

Upphaflegur tilgangur samtakanna var að vakta hverfi blökkumanna til þess að vernda þá gegn lögregluofbeldi í Oakland. Samtökin þróuðust hins vegar í marxískan byltingarhóp og börðust fyrir réttindum allra minnihlutahópa Bandaríkjanna.[1][2][3] Samtökin dreifðust síðar til annarra landa, þar á meðal til Bretlands og Alsír. Ágreiningur á milli Huey P. Newton og Eldridge Cleaver, „upplýsingaráðherra“ samtakanna (e. Minister of Information) BPP, um stjórnskipulag samtakanna leiddi til skiptingu meðlima BPP í tvær fylkingar. Í kjölfar klofningsins fór að halla undan fæti samtakanna og liðu þau formlega undir lok árið 1982.[4]

Bandaríska alríkislögreglan gegn BPP

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1969 lýsti J. Edgar Hoover, yfirmaður Bandarísku alríkislögreglunnar, BPP sem stærstu ógninni sem stafaði að þjóðaröryggi Bandaríkjanna.[5] Á næstu árum voru samtökin undir stöðugu eftirliti alríkislögreglunnar. Þetta eftirlit fór fram í gegnum COINTELPRO (dregið af skammstöfun fyrir Counter Intelligence Program) aðgerðina sem beindist að ýmsum hópum mótmælenda og aðgerðarsinna. Aðgerðin fól í sér eftirliti og njósnum, en einnig sálfræðilegum hernaði flugumanna sem dreifðu ósætti og úlfúð í röðum róttæklinga, t.d. með því að falsa bréf og skjöl.

Svörtu hlébarðarnir voru eitt helsta skotmark COINTELPRO aðgerðarinnar. Meðal annars voru varaformaður BPP, Fred Hampton, og lífvörður hans voru drepnir í húsleit lögreglu á heimili Hampton 4 desember 1969. Húsleitin var hluti af aðgerð alríkislögreglunnar. Sjálfstæð rannsókn á atburðunum sýndi að lögreglan hafði hleypt af 80 skotum meðan Hampton eða lífvörður hans höfðu aðeins hleypt af einu skoti. Atburðinum var því lýst sem lögregluaftöku án dóms og laga.[6]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Þegar hógværðin reynist gagnlaus: Svörtu hlébarðarnir“. Tíminn. 28. september 1969.
  2. Sigurður Ragnarsson (1. ágúst 1971). „Réttindabarátta blökkumanna í Bandaríkjunum“. Réttur.
  3. „Átta menn hand­tekn­ir í tengsl­um við 36 ára gam­alt morð á lög­reglu­manni“. mbl.is. 23. janúar 2007. Sótt 20. nóvember 2020.
  4. „Black Panther Party | History, Ideology, & Facts“. Encyclopedia Britannica (enska). Sótt 16. nóvember 2020.
  5. „Desert Sun 16 July 1969 — California Digital Newspaper Collection“. cdnc.ucr.edu. Sótt 16. nóvember 2020.
  6. Mitchell, Robert. „The police raid that killed two Black Panthers, shook Chicago and changed the nation“. Washington Post (bandarísk enska). ISSN 0190-8286. Sótt 16. nóvember 2020.