Fara í innihald

Björn Sv. Björnsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
SS-Standartenoberjunker Björnsson 1943

Björn Sveinsson Björnsson (15. október 190914. apríl 1998) var sonur Sveins Björnssonar, fyrsta forseta Íslands, og konu hans Georgíu Hoff-Hansen.

Björn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1930 en hélt síðan til Þýskalands og hóf störf hjá umboðsskrifstofu Eimskipafélags Íslands í Hamborg. Hann hafði ætlað í tónlistarnám en unnusta hans, María, átti von á barni og hann þurfti því að fara að vinna. Þau giftu sig um haustið, bjuggu í Hamborg næstu árin og eignuðust tvær dætur en skildu um 1937. Björn var því í Þýskalandi á uppgangstíma nasista og hreifst af stefnu þeirra. Á þeim tíma var faðir hans sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn.

Í seinni heimsstyrjöldinni gekk Björn til liðs við Waffen SS-sveitir nasista og fór á austurvígstöðvarnar sem fréttaritari og var í Kákasus um tíma. Hann var síðar sendur í foringjaskóla í Bad Tölz í Þýskalandi og að námi loknu til Danmerkur til að starfa í áróðursdeild Þjóðverja þar, átti að sjá um að koma þýsku fréttaefni í blöð og útvarp og gaf einnig út tímarit sem hét Daggry og var að mestu þýðing á tímariti sem SS gaf út.

Haustið 1944 komst sá kvittur á kreik að danska lögreglan ætlaði að gera uppreisn gegn þýska herliðinu og gripu Þjóðverjar þá til aðgerða, handtóku lögreglumenn og leystu lögregluna upp. Þjóðverjinn Ernst Lohmann hafði stýrt ríkisútvarpinu en hann þótti helst til eftirlátsamur við Danina og var Björn settur yfir útvarpið í tíu daga á meðan aðgerðirnar stóðu yfir. Eftir þetta var nafn hans nokkuð þekkt í Danmörku og hann taldi dönsku andspyrnuhreyfinguna vera á hælum sér.

Þegar Þjóðverjar gáfust upp árið 1945 var Björn tekinn til fanga og var í varðhaldi í Danmörku til 1946. Þá var hann leystur úr haldi án þess að vera leiddur fyrir rétt, sennilega vegna þrýstings frá Íslandi (þótt ráðamenn neituðu að svo hefði verið) en mál hans var óþægilegt bæði fyrir Íslendinga og Dani þar sem faðir hans var þá orðinn forseti Íslands.

Björn fór þá heim til Íslands, byggði hús í Kópavogi og gifti sig að nýju og var seinni kona hans Nanna Egilsdóttir hörpuleikari og söngkona. Þau fluttu til Argentínu 1949 en gekk ekki eins vel fjárhagslega og þau höfðu vonast eftir svo að þau komu aftur heim fáum árum síðar. Björn vann á Keflavíkurflugvelli um tíma en flutti síðan til Þýskalands og vann þar, fyrst hjá Bandaríkjaher og síðan við ýmis verslunarstörf. Árið 1962 varð hann umboðsmaður fyrir alfræðiritið Encyclopaedia Britannica og seldi mjög mikið af bókunum, bæði á Íslandi og í Skandinavíu. Undir lok starfsævinnar stundaði Björn tungumála- og tónlistarkennslu og leiðsögustörf. Hann bjó í Borgarnesi síðustu árin.

Nanna kona Björns lést í bílslysi 22. mars 1979 nálægt Blikastöðum þegar ölvaður ökumaður fór þar yfir á rangan vegarhelming. Þau voru barnlaus en með fyrri eiginkonu sinni átti hann dæturnar Hjördísi og Brynhildi Georgíu.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Ævi mín og sagan sem ekki mátti segja. Endurminningar Björns Sv. Björnssonar. Reykjavík 1989.
  • Steingrímur St. Th. Sigurðsson: Ellefu líf. Saga um lífshlaup Brynhildar Georgíu Björnsson-Borger. Reykjavík 1983.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]