Bidhya Devi Bhandari
Bidhya Devi Bhandari विद्या देवी भण्डारी | |
---|---|
Forseti Nepals | |
Í embætti 29. október 2015 – 13. mars 2023 | |
Forsætisráðherra | KP Sharma Oli Sher Bahadur Deuba Pushpa Kamal Dahal |
Varaforseti | Nanda Kishor Pun |
Forveri | Ram Baran Yadav |
Eftirmaður | Ram Chandra Poudel |
Persónulegar upplýsingar | |
Fædd | 19. júní 1961 Mane Bhanjyang, Bhojpur, Nepal |
Stjórnmálaflokkur | Kommúnistaflokkur Nepals (sameinaðir marx-lenínistar) |
Maki | Madan Bhandari (g. 1982; d. 1993) |
Börn | 2 |
Starf | Stjórnmálamaður |
Bidhya Devi Bhandari (nepalska: विद्या देवी भण्डारी; f. 19. júní 1961) er nepalskur stjórnmálamaður sem er fyrrverandi forseti Nepals. Hún er fyrsti kvenkyns forseti landsins.[1][2] Hún var varaformaður[3] Kommúnistaflokks Nepals[4] og formaður Nepalska kvennasambandsins áður en hún vann kosningu til forseta landsins þann 28. október 2015.[5] Hún var kjörin forseti af nepalska þinginu með 327 atkvæðum af 549 á móti Kul Bahadur Gurung. Árið 2016 setti Forbes hana í 52. sæti á lista yfir 100 voldugustu konur í heimi.[4] Bhandari hafði áður verið varnarmálaráðherra Nepals og var sömuleiðis fyrsta konan til að gegna því embætti.[6][7][8] Hún var einnig umhverfis- og félagsmálaráðherra á tíunda áratugnum og hefur lengi talað bæði fyrir aukinni umhverfisvitund og fyrir kvenréttindum.[9] Í júní árið 2017 heimsótti hún höfuðstöðvar Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna og ræddi við framkvæmdastjórann Inger Andersen um tækifæri til aukinnar samvinnu um náttúruvernd og sjálfbæra þróun.[10]
Bakgrunnur
[breyta | breyta frumkóða]Bidhya Devi Bhandari fæddist hjónunum Ram Bahadur Pandey og Mithila Pandey þann 19. júní árið 1961 í Mane Bhanjyang í Bhojpur-sýslu í Nepal.[11] Hún hóf stjórnmálaferil sinn sem meðlimur í sambandi vinstrisinnaðra stúdenta og gekk í Marx-lenínskan væng Kommúnistaflokks Nepals árið 1980.[12]
Bhandari var kjörin á nepalska þingið árin 1994 og 1999.[13] Hún náði hins vegar ekki kjöri á stjórnlagaþing Nepals árið 2008. Hún var varnarmálaráðherra í ríkisstjórn Madhav Kumar Nepal forsætisráðherra frá 2009 til 2011. Flokkur hennar kaus hana í hlutfallskosningum á annað stjórnlagaþing Nepals sem haldið var árið 2013.
Stjórnmálaferill
[breyta | breyta frumkóða]Bhandari hóf snemma þátttöku í stjórnmálum. Samkvæmt upplýsingum Kommúnistaflokksins hóf hún afskipti af stjórnmálum sem aðgerðasinni í ungliðahreyfingu flokksins árið 1978 í Bhojpur.[14] Hún varð meðlimur í Kommúnistaflokknum árið 1980. Eftir að hafa lokið grunnskólanámi gekk hún í Mahendra Morang Adarsha-fjölháskólann og varð gjaldkeri stúdentasambandsins í skólanum. Hún var kjörin formaður kvennaarms Sambands nepalskra stéttarfélaga árið 1993 og var kjörin í miðstjórn Kommúnistaflokksins árið 1997. Hún naut æ meiri áhrifa innan flokksins þar til hún var kjörin varaformaður hans á áttunda flokksþingi hans í Butwal.[15] Sem varaformaður var hún einn nánasti bandamaður flokksformannsins og forsætisráðherrans Khadga Prasad Sharma Oli.
Deilumál
[breyta | breyta frumkóða]Bhandari hefur verið sökuð um hlutdrægni í embætti sem forseti Nepals. Hún seinkaði myndun ríkisstjórnar eftir þingkosningar árið 2017. Hún seinkaði einnig þremur tilnefningum á nepalska þjóðþingið sem ríkisstjórn Sher Bahadur Deuba forsætisráðherra úr Kongressflokknum bar fyrir hana en samþykkti hins vegar umsvifalaust sams konar tilefningar eftir að Khadga Prasad Oli úr Kommúnistaflokknum varð forsætisráðherra.[16]
Einkahagir
[breyta | breyta frumkóða]Bhandari var gift Madan Bhandari, vinsælum nepölskum kommúnistaleiðtoga, sem lést í bílslysi nálægt Dasdhunga í Chitwan-sýslu árið 1993. Hjónin áttu tvær dætur, Usha Kiran Bhandari og Nisha Kusum Bhandari. Grunur leikur á um að Madan hafi verið myrtur en málið hefur aldrei verið fyllilega leyst.
Bhandari er skyld leiðtoga nepalska Kongressflokksins, Gyanendra Bahadur Karki.[17]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Nepal gets first woman President“. The Hindu. 28. október 2015. Sótt 14. júní 2019.
- ↑ „Bidya Devi Bhandari elected first woman President of Nepal“. Kantipur News. Sótt 14. júní 2019.
- ↑ „Who is Bidya Devi Bhandari?“. Himalayan News. 28. október 2015. Sótt 14. júní 2019.
- ↑ 4,0 4,1 „World's Most Powerful Women“. Forbes. Sótt 14. júní 2019.
- ↑ „The Himalayan Times: Oli elected UML chairman mixed results in other posts – Detail News: Nepal News Portal“. The Himalayan Times. 15. júlí 2014. Sótt 14. júní 2019.
- ↑ „Nepali Times | The Brief » Blog Archive » Enemies within“. nepalitimes.com. Sótt 14. júní 2019.
- ↑ „Women of Nepal“. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. mars 2014. Sótt 14. júní 2019.
- ↑ „Related News | Bidya Bhandari“. ekantipur.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. mars 2014. Sótt 14. júní 2019.
- ↑ „Who is Bidya Devi Bhandari? What are the 10 things you need to know about her?“.
- ↑ „President of Nepal visits IUCN to strengthen future collaboration“. Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin. 16. júní 2017. Sótt 14. júní 2019.
- ↑ „Nepal gets first female head of state“. Setopati. Sótt 14. júní 2019.
- ↑ „Who is Bidya Devi Bhandari? What are the 10 things you need to know about her?“. Sótt 14. júní 2019.
- ↑ „Bidhya Bhandari- probable first female President of Nepal“. One Click Nepal. 26. október 2015. Sótt 14. júní 2019.
- ↑ „Who is Bidya Devi Bhandari? What are the 10 things you need to know about her?“. Indiatoday.in. Sótt 14. júní 2019.
- ↑ „Bidhya Devi Bhandari elected first female president“. My Republica News. Sótt 14. júní 2019.
- ↑ Om Astha Rai. „President Bhandari again“. Nepali Times. Sótt 14. júní 2019.
- ↑ „First female president of Nepal-Biography of Bidhya Bhandari“. 26. október 2015.
Fyrirrennari: Ram Baran Yadav |
|
Eftirmaður: Ram Chandra Poudel |