Fara í innihald

Biblía 20. aldar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Biblía 20. aldar eða Biblían 1908-1914, er níunda heildarútgáfa Biblíunnar á íslensku. Farið var að vinna að henni vegna þeirrar gagnrýni sem Lundúnabiblían hafði fengið.

Biblíufélagið og Haraldur Níelsson

[breyta | breyta frumkóða]

Hið íslenska biblíufélag ákvað árið 1887 að hefja endurskoðun Ritningarinnar, og þá einkum Gamla testamentisins. Þetta dróst þó til 1897, en þá kom frá námi í Kaupmannahöfn hálærður guðfræðingur, Haraldur Níelsson, sem talinn var henta vel til að vinna verkið. Þriggja manna nefnd hafði umsjón með verkinu, Hallgrímur Sveinsson biskup, Þórhallur Bjarnarson lektor við Prestaskólann og Steingrímur Thorsteinsson skáld og yfirkennari við latínuskólann. Hallgrímur var einnig forseti Hins íslenska biblíufélags.

Upphaf þýðingarstarfsins

[breyta | breyta frumkóða]

Vorið 1899 var Haraldur búinn að þýða tvær fyrstu Mósebækurnar og hálfnaður með þá þriðju. Fór hann þá utan og lagði stund á hebresku og Gamla testamentisfræði í Kaupmannahöfn, Cambridge og Þýskalandi. Kom hann heim ári seinna og tók þá þráðinn upp aftur. Árið 1903 fékk hann Gísla Skúlason guðfræðikandídat sér til aðstoðar. Gísli þýddi Króníkubækurnar, megnið af Davíðssálmum og aðstoðaði við þýðingu Konungabókanna og Samúelsbókar. Hinn 22. apríl 1907 var þýðingu Gamla testamentisins lokið, og hafði þýðingarnefndin þá haldið 321 fund.

Að þýðingu Nýja testamentisins starfaði önnur nefnd: Þórhallur Bjarnarson, Jón Helgason síðar biskup og Eiríkur Briem, þá allir kennarar við Prestaskólann. Hófust þeir handa haustið 1899, og þegar Nýja testamentið fór í prentun, 1906, höfðu þeir haldið 183 fundi. Upplagið var 5.000 eintök.

Deilur og útgáfa

[breyta | breyta frumkóða]

Á árunum 1899-1902 voru gefin út nokkur sýnishorn þýðingarinnar, bæði úr Gamla og Nýja testamentinu. Athugasemdir voru fljótlega gerðar, einkum um Nýja testamentið. Spunnust af þessu mikil skrif og þungorð, eins og oft vill verða með nýjar Biblíuþýðingar. Farið var yfir athugasemdirnar og kom Biblían svo út árið 1908.

Á titilblaði stendur:

BIBLÍA, það er Heilög ritning. Ný þýðing úr frummálunum. Reykjavík. Á kostnað Hins brezka og erlenda Biblíufélags. Prentsmiðjan Gutenberg, 1908.

Þetta telst önnur nýþýðing Biblíunnar á íslensku, þar sem textinn er endurþýddur í heild sinni. Er hún sögð hafa þegið mikið frá Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar og Guðbrandsbiblíu. Fyrsta nýþýðingin var Viðeyjarbiblía 1841.

Viðtökur nýju þýðingarinnar

[breyta | breyta frumkóða]

Þegar Biblían kom á markað, 1909, fékk hún blendnar viðtökur. Eiríkur Magnússon í Cambridge gat ekki leynt hrifningu sinni, en aðrir fundu útgáfunni ýmislegt til foráttu. Þótti í þýðingunni gæta áhrifa frjálslyndrar nýguðfræði, sem Haraldur Níelsson tengdist sterkum böndum. Einkum hnutu menn um „Jahve“-heitið í Gamla testamentinu, en Haraldur benti á að Jahve væri sérnafn. Voru kvartanir lagðar fyrir Hið breska og erlenda biblíufélag, sem fór fram á nokkrar breytingar. Á Íslandi var ákveðið að ganga lengra í endurskoðun textans, einkum hvað Nýja testamentið snerti. Endurskoðuð útgáfa var svo prentuð í Lundúnum 1912.

En ennþá var „Jahve“ inni. Það var ekki fyrr en Biblían kom í vasabroti 1914, að „Drottinn“ tók sæti hans. Sú útgáfa var endurprentuð margsinnis, síðast 1978.

Þessi saga hefur vakið spurningar um hvort líta beri á útgáfuna 1908 sem bráðabirgðaútgáfu, og hvort þetta verði að teljast þrjár útgáfur, 1908, 1912 og 1914. En yfirleitt er þó litið á þetta sem eina heild, eða þróun að ákveðnu marki, því að meginhluti textans er hinn sami, þrátt fyrir breytingar hér og þar.

Eitt og annað

[breyta | breyta frumkóða]
  • Við þýðinguna var skipuð sérstök nefnd til að fara yfir þýðinguna jafnharðan og átti Steingrímur Thorsteinson sæti í henni. Segir Haraldur Thorsteinsson svo frá starfi hans: Hann var þá kominn á efri ár. Samt var hann alltaf jafn áhugasamur og ógleyminn á fundina. Aldrei varð vart við þreytu hjá honum eða leiða í starfinu. Og eru þó sum rit gamla testamentisins eigi skemmtileg. Hann var stórhrifinn af sumum skáldritum gamla testamentisins, svo sem Jobsbók, en einkum þó af spámönnunum. Um einn kaflann í Jesaja sagði hann eitt sinn: „Þótt leitað sé í öllum bókmenntum Grikkja og Rómverja, finnum við ekki annað eins háfleygi og þetta.“ [1]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Lesbók Morgunblaðsins 1954
  • Sigurður Ægisson: Greinar í Morgunblaðinu 15. og 22. október 2006.