Fara í innihald

Endurbyggingartímabilið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Bandaríska endurreisnin)
Svipmyndir frá endurbyggingartímabilinu.

Endurbyggingartímabilið (enska: Reconstruction Era) var tímabil í sögu Bandaríkjanna sem kom í kjölfar þrælastríðsins. Tímabilið einkenndist af lagalegum, þjóðfélagslegum og pólitískum áskorunum í tengslum við afnám þrælahalds og enduraðlögun fyrrum aðildarríkja Suðurríkjasambandsins að Bandaríkjunum. Jafnan er miðað við að þetta tímabil hafi hafist við lok þrælastríðsins árið 1865 og að því hafi lokið þegar hermenn alríkisstjórnarinnar luku hersetu sinni í suðurríkjunum árið 1877.

Á þessum tíma var þremur viðaukum bætt við stjórnarskrá Bandaríkjanna sem veittu svörtum leysingjum jöfn borgaraleg réttindi á við hvítt fólk. Þrátt fyrir þetta beittu stjórnir fyrrum ríkja Suðurríkjasambandsins gjarnan aðferðum á borð við kosningaskatta, lestrarpróf og hótunum til að hafa stjórn á svörtu fólki.[1]

Við upphaf þrælastríðsins urðu Bandaríkin að ákvarða hvernig hernámssvæðum þeirra í suðurríkjunum skyldi stjórnað og hvernig skyldi tekið á móti miklum fjölda strokuþræla sem flúðu yfir víglínurnar til norðurríkjanna. Í mörgum tilvikum lék Bandaríkjaher lykilhlutverk við að stofna til frjáls vinnuhagkerfis í suðurríkjunum, vernda réttindi leysingja og búa til mennta- og trúarstofnanir. Þótt Bandaríkjaþing hafi verið tregt til að hrófla við þrælahaldi samþykkti þingið frumvarp um eignaupptöku, sem heimilaði Abraham Lincoln forseta að gefa út frelsisyfirlýsinguna. Þingið kom síðar á fót sérstakri skrifstofu fyrir leysingja til að sjá nýfrelsuðum þrælum fyrir mat og húsnæði.

Þegar ljóst var orðið að bandaríska sambandið myndi vinna stríðið fór Bandaríkjaþing að deila um það hvernig staðið skyldi að endurinngöngu ríkjanna sem höfðu klofið sig frá alríkinu. Róttækir og hófsamir Repúblikanar voru ósammála um eðli aðskilnaðarins, skilyrði sem setja ætti fyrir endurinngöngu í sambandið og um nauðsyn þessa að koma á samfélagsumbótum í kjölfar ósigurs Suðurríkjasambandsins. Lincoln var hlynntur svokallaðri „tíu prósenta áætlun“ og beitti neitunarvaldi gegn hinu róttæka Wade–Davis-frumvarpi, sem setti ströng skilyrði fyrir endurinngöngu. Lincoln var myrtur þann 14. apríl 1864, á sama tíma og vopnuðum átökum var að ljúka. Andrew Johnson tók við af honum sem forseti. Johnson beitti neitunarvaldi gegn fjölda róttækra frumvarpa, veitti þúsundum leiðtoga Suðurríkjasambandsins sakaruppgjöf og leyfði suðurríkjunum að setja harkaleg lög sem takmörkuðu mjög réttindi leysingja. Þetta reitti marga norðurríkjamenn til reiði og vakti ótta um að hin gamla valdaelíta suðurríkjanna myndi endurheimta pólitísk völd sín. Róttækir Repúblikanar unnu stórsigur í miðkjörtímabilskosningum árið 1866 og náðu afgerandi meirihlutum á báðum deildum Bandaríkjaþings.

Róttækir Repúblikanar áttu frumkvæði að svokölluðum endurbyggingarfrumvörpum (e. Reconstruction Acts) árið 1867, sem voru samþykkt þrátt fyrir að Johnson beitti neitunarvaldi sínu. Með þeim voru sett skilyrði sem fyrrum aðildarríki Suðurríkjasambandsins urðu að uppfylla til að hljóta fulla aðild að Bandaríkjunum á ný. Stjórnlagaráð sem haldin voru um allt suðrið veittu svörtum karlmönnum kosningarétt. Nýjar stjórnir voru myndaðar í suðurríkjunum af bandalögum svartra leysingja, hvítra bandamanna þeirra og innflytjenda frá norðurríkjunum (e. carpetbaggers). Andstæðingar þeirra voru svokallaðir „endurlausnarar“ (e. Redeemers), sem vildu endurheimta yfirburði hvíta mannsins og stjórn Demókrataflokksins í ríkisstjórn og þjóðfélagi suðurríkjanna. Á þessum tíma hófu ofbeldishópar á borð við Ku Klux Klan, Hvíta bandalagið og Rauðstakka uppreisnir og hryðjuverkastarfsemi til að berjast gegn endurbyggingarstjórnunum og hrella Repúblikana.[2] Reiði þingmanna yfir ítrekuðum tilraunum Johnsons forseta til að beita neitunarvaldi gegn róttækum lagafrumvörpum leiddi til þess að hann var kærður til embættismissis en var þó ekki sviptur embætti.

Í valdatíð eftirmanns Johnsons, Ulysses S. Grant forseta, samþykktu róttæklingar fleiri lagafrumvörp til að vernda borgaraleg réttindi, meðal annars löggjöf gegn Ku Klux Klan og réttindafrumvarpið 1875. Áframhaldandi andspyrna hvítra suðurríkjamanna og hár kostnaður við endurbygginguna leiddi til þess að endurbyggingarstefnan glataði fljótt stuðningi í norðurríkjunum í forsetatíð Grants. Forsetakosningarnar árið 1876 einkenndust af tálmum gegn því að svartir kjósendur gætu greitt atkvæði í suðurríkjunum. Því varð mjög jafnt á munum milli frambjóðenda Repúblikana og Demókrata í kosningunum. Þar sem enginn var með skýran meirihluta í kjörmannaráðinu leiddi það til málamiðlunarinnar 1877, sem fól í sér að Repúblikaninn Rutherford B. Hayes var lýstur sigurvegari kosninganna í skiptum fyrir vilyrði um að bundinn yrði endi á hersetu alríkishersins í suðurríkjunum. Jafnan er miðað við að þannig hafi endurbyggingartímabilinu lokið. Tilraunum alríkisstjórnarinnar til að verja borgaraleg réttindi í suðurríkjunum lauk eftir að Lodge-frumvarpið var fellt á þingi árið 1890.

Sögulegt mat

[breyta | breyta frumkóða]

Sagnfræðingar deila enn þann dag í dag um arfleifð endurbyggingartímabilsins. Gagnrýnendur þessa tímabils benda gjarnan á að ekki hafi tekist að koma í veg fyrir ofbeldi snemma eftir þrælastríðið og að hernámsstjórn norðurríkjanna á tímabilinu hafi einkennst af spillingu, hallæri og sjúkdómum. Stefna alríkisins er gjarnan gagnrýnd fyrir að hafa verið of harkaleg gangnvart nýfrelsuðum þrælum og of mild gagnvart fyrrum þrælahöldurum.[3] Engu að síður hefur verið bent á að á endurbyggingartímabilinu hafi alríkisbandalagið verið endurreist, komið hafi verið í veg fyrir hefndaraðgerðir gegn suðurríkjunum og lagaleg drög hafi verið lögð að kynþáttajafnrétti með stjórnarskrárvörðum réttindum til ríkisborgararéttar, réttlátrar málsmeðferðar, jafnrar verndar að lögum og kosningaréttar allra karlmanna óháð kynþætti.[4]

  • Foner, Eric (2019). The Second Founding: How The Civil War And Reconstruction Remade The Constitution. New York: W.W. Norton & Company, Inc. ISBN 978-0-393-35852-0.
  • Guelzo, Allen C. (2018). Reconstruction A Concise History. Oxford University Press. ISBN 978-0190865696. Afrit af uppruna á 7. apríl 2023. Sótt 19. mars 2023.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „History & Culture - Reconstruction Era National Historical Park“. U.S. National Park Service (enska). www.nps.gov. 24. febrúar 2023.
  2. Rodrigue, John C. (2001). Reconstruction in the Cane Fields: From Slavery to Free Labor in Louisiana's Sugar Parishes, 1862–1880. Baton Rouge, Louisiana: Louisiana State University Press. bls. 168. ISBN 978-0-8071-5263-8.
  3. Lynn, Samara; Thorbecke, Catherine (27. september 2020). „What America owes: How reparations would look and who would pay“. ABC News. Afrit af uppruna á 25. febrúar 2021. Sótt 24. febrúar 2021.
  4. Guelzo (2018), bls. 11–12; Foner (2019), bls. 198.