Appelsínugula byltingin
Appelsínugula byltingin | |||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|
Hluti af litabyltingunum | |||||||
Mótmælendur veifa appelsínugulum fánum á Sjálfstæðistorginu í Kænugarði þann 22. nóvember 2004. | |||||||
| |||||||
Leiðtogar | |||||||
Víktor Júsjtsjenko Júlía Tymosjenko |
Leoníd Kútsjma Víktor Medvedtsjúk Víktor Janúkovytsj | ||||||
Mannfall og tjón | |||||||
Einn maður lést úr hjartaáfalli[1] |
Appelsínugula byltingin (úkraínska: Помаранчева революція; Pomarantsjeva revoljútsíja) er nafn á hrinu mótmæla sem áttu sér stað í Úkraínu frá nóvember 2004 til janúar 2005. Mótmælin beindust gegn niðurstöðu forsetakosninga Úkraínu árið 2004 þar sem Víktor Janúkovytsj var lýstur sigurvegari eftir aðra umferð þrátt fyrir ásakanir um stórfellt kosningasvindl. Appelsínugula byltingin leiddi til þess að önnur umferð kosninganna var endurtekin og að frambjóðandi stjórnarandstöðunnar, Víktor Júsjtsjenko, var kjörinn forseti.
Appelsínugula byltingin er flokkuð með „litabyltingum“ sem áttu sér stað í nokkrum fyrrverandi sovétlýðveldum og annars staðar á fyrsta áratugi 21. aldar. Í flestum þessum byltingum var valdboðsstjórnum sem þóttu hliðhollar Rússlandi steypt af stóli og stjórnir myndaðar sem aðhylltust nánari samskipti við Vesturlönd. Rússnesk stjórnvöld halda því fram að þessar byltingar hafi verið sviðsettar eða skipulagðar af Bandaríkjunum.[2]
Söguágrip
[breyta | breyta frumkóða]Upptök appelsínugulu byltingarinnar voru í úkraínsku forsetakosningunum árið 2004. Frambjóðandi stjórnvalda í kosningunum var forsætisráðherrann Víktor Janúkovytsj, sem naut stuðnings fráfarandi forsetans Leoníds Kútsjma. Stjórn Kútsjma hafði viðhaldið nánu sambandi Úkraínu við Rússland eftir fall Sovétríkjanna en stjórnin hafði jafnframt sætt ásökunum um valdboðshyggju og spillingu. Frambjóðandi stjórnarandstöðunnar, fyrrum seðlabankastjórinn og forsætisráðherrann Víktor Júsjtsjenko, boðaði umbætur í úkraínskum efnahagi, stjórnsýslu og fjármálum til að leggja grunn að inngöngu þess í Evrópusambandið, auk þess sem Júsjtsjenko vildi leiða Úkraínu inn í Atlantshafsbandalagið. Boðskapur Júsjtsjenkos hlaut mestan hljómgrunn í vesturhluta Úkraínu, þar sem úkraínsk þjóðernishyggja var sterkari og stuðningur meiri við aðlögun Úkraínu að hinum vestræna heimi.[3]
Kosningabaráttan var óvægin og meðal annars var eitrað fyrir Júsjtsjenko með þeim afleiðingum að andlit hans afmyndaðist.[4] Önnur umferð forsetakosninganna fór fram þann 21. nóvember 2004 og samkvæmt opinberum tölum sem gefnar voru út hlaut Janúkovytsj flest atkvæði. Júsjtsjenko neitaði hins vegar að viðurkenna ósigur og sakaði stjórnvöld um að hafa svindlað í þágu Janúkovytsj. Ýmsir eftirlitsaðilar og alþjóðastofnanir, þar á meðal Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, Evrópuþingið og Atlantshafsbandalagið, samsinntu Júsjtsjenko og fóru fram á að ásakanir um kosningasvik yrðu rannsakaðar.[5]
Eftir að tilkynnt var um kosninganiðurstöðurnar þyrptust mörghundruð þúsund stuðningsmenn stjórnarandstöðurnar út á götur til að mótmæla meintum kosningasvikum.[3] Mótmælin hlutu nafnið „appelsínugula byltingin“ þar sem mótmælendur flögguðu borðum og klæddust fötum í appelsínugulum lit, en appelsínugulur hafði verið kosningalitur Júsjtsjenkos.[6]
Á meðan á mótmælunum stóð kærði Júsjtsjenko framkvæmd kosninganna til Hæstaréttar Úkraínu. Þann 3. desember 2004 ógilti Hæstirétturinn kosningarnar vegna gruns um kosningamisferli og úrskurðaði að seinni umferðin milli Júsjtsjenkos og Janúkovytsj yrði endurtekin.[7] Úkraínska þingið samþykkti jafnframt málamiðlun um stjórnarskrárbreytingar sem færðu Úkraínu nær því að vera forsetaþingræði en forsetaræði. Störf yfirkjörstjórnar voru uppstokkuð til þess að draga úr líkum á kosningasvindli, meðal annars með því að erfiðara var gert að greiða atkvæði utan kjörstaða. Endurtekning kosninganna var síðan tímasett 26. desember.[4]
Þegar kosningarnar voru endurteknar vann Júsjtsjenko sigur með 51,99 prósentum atkvæða gegn 44,19 prósentum sem Janúkovytsj hlaut.[3] Júsjtsjenko tók við embætti forseta Úkraínu þann 23. janúar 2005 og er það talið marka endi appelsínugulu byltingarinnar.
Eftirmálar
[breyta | breyta frumkóða]Þrátt fyrir sigur Júsjtsjenkos urðu fá fyrirheit hans um nánara samband við Vesturlönd að veruleika á kjörtímabili hans. Júsjtsjenko lenti í ágreiningi við forsætisráðherrann Júlíu Tymosjenko, annan af leiðtogum appelsínugulu byltingarinnar, og deilurnar milli þeirra stuðluðu að því að flokkur Janúkovytsj hlaut afgerandi meirihluta á úkraínska þinginu.[8] Janúkovytsj varð aftur forsætisráðherra Úkraínu í ríkisstjórn Júsjtsjenkos frá 2006 til 2007 og var síðan kjörinn forseti árið 2010 í annarri umferð á móti Júlíu Tymosjenko.[9][10]
Brostin fyrirheit appelsínugulu byltingarinnar leiddu til þess að margir stuðningsmenn hennar fóru að líta á hana sem „svikna byltingu.“ Mörg óútkljáð deiluefni sem leiddu til appelsínugulu byltingarinnar áttu eftir að leiða til úkraínsku byltingarinnar árið 2014 og áframhaldandi stríðs Rússlands og Úkraínu.[11]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ "Savik Shuster: I'm the only thing to remain after 'orange revolution'". Geymt 23 september 2009 í Wayback Machine. Novaja Gazeta, 2. febrúar 2008.
- ↑ „Mikil áhætta fólgin í að leggja undir sig Úkraínu“. mbl.is. 7. febrúar 2022. Sótt 10. mars 2022.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 „Einn af lokaþáttunum í hruni Sovétríkjanna“. Morgunblaðið. 29. desember 2004. bls. 18.
- ↑ 4,0 4,1 „Sátt um málamiðlun á úkraínska þinginu“. Morgunblaðið. 9. desember 2004. bls. 16.
- ↑ „Úkraína nýtt þrætuepli Rússa og Bandaríkjanna“. Morgunblaðið. 25. nóvember 2004. bls. 14.
- ↑ Arna Schram (30. desember 2004). „Appelsínugul jól“. mbl.is. Sótt 10. mars 2022.
- ↑ „Sigur fyrir Jústsjenkó“. Morgunblaðið. 4. desember 2004. bls. 1.
- ↑ Kolbeinn Þorsteinsson (3. mars 2007). „Jútsjenkó hefur leyst upp þingið“. Dagblaðið Vísir. bls. 10.
- ↑ Bogi Þór Arason (9. febrúar 2010). „Sigraði eftir að hafa verið afskrifaður“. Morgunblaðið. bls. 14.
- ↑ Guðsteinn Bjarnason (7. desember 2013). „Veigra sér við að styggja Rússa“. Fréttablaðið. bls. 56.
- ↑ Ægir Þór Eysteinsson (27. febrúar 2014). „Hættulegasti tíminn liðinn“. Kjarninn. bls. 52-56.