Fara í innihald

Anna Ólafsdóttir Björnsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Anna Ólafsdóttir Björnsson (f. 4. júní 1952) er íslenskur sagnfræðingur, tölvunarfræðingur, myndlistakona og fyrrverandi alþingismaður.

Ævi og störf

[breyta | breyta frumkóða]

Hún er fædd í Reykjavík og foreldrar hennar voru Ólafur Sveinsson Björnsson (1919-1968) lögfræðingur, sonur Sveins Björnssonar forseta Íslands, og Þórunn Árnadóttir (1929-2020) mynd- og handmenntakennari. Maður Önnu er Ari Sigurðsson forstjóri og eiga þau tvö börn.

Anna lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1972, BA-prófi í sagnfræði og almennri bókmenntasögu frá Háskóla Íslands árið 1978 og cand. mag. í sagnfræði frá sama skóla árið 1985. Hún stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1972-1974 og við Myndlistaskólann í Reykjavík 1980-1988. Árið 2008 lauk hún meistaragráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands.

Anna kenndi við Garðaskóla í Garðabæ frá 1976-1977, var blaðamaður á Vikunni 1980-1985 og lausráðinn blaðamaður 1985-1989.

Hún var alþingismaður fyrir Kvennalistann í Reykjaneskjördæmi frá 1989-1995. Árin 1995-2001 fékkst hún við sagnfræðirannsóknir og -skrif, blaðamennsku og þáttagerð í útvarpi og frá 2001-2018 og aftur frá ársbyrjun 2022 starfaði hún við hugbúnaðargerð.

Hún var í hreppsnefnd Bessastaðahrepps 1986-1989, var formaður Vímulausrar æsku frá 1998-2006 og frá 1999-2000 var hún formaður Samstöðu um óháð Ísland.

Eftir Önnu liggja nokkrar bækur og fræðirit, t.d. er hún höfundur bókanna Álftaness saga (1996), Tölvuvæðing í hálfa öld (2018)[1] og glæpasögunnar Mannavillt (2021) og Óvissu (2022).

Hún hefur einnig haldið allmargar myndlistasýningar og tekið þátt í samsýningum. Hún fékk 2. verðlaun fyrir verk sitt á alþjóðlegri vatnslitahátíð IWS (International Watercolor Society) í Cordóba á Spáni 2023.

Anna var á meðal stofnenda Vinstri hreyfingarinnar - grænt framboð og var um tíma formaður Félags vinstri grænna á Álftanesi og var ennfremur á meðal frambjóðenda í forvali flokksins í Reykjavík fyrir alþingiskosningarnar árið 2009 og varaþingmaður flokksins 2009-2013. [2]


Vefsíða: http://www.annabjo.myportfolio.com

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Alþingi, Æviágrip - Anna Ólafsdóttir Björnsson (skoðað 16. desember 2020)
  2. Vb.is, „Anna Ólafsdóttir Björnsson gefur kost á sér í 1-3. sæti VG í Reykjavík“ (skoðað 16. desember 2020)