Anna Ólafsdóttir Björnsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Anna Ólafsdóttir Björnsson (f. 4. júní 1952) er íslenskur sagnfræðingur, tölvunarfræðingur, myndlistakona og fyrrverandi alþingismaður.

Ævi og störf[breyta | breyta frumkóða]

Hún er fædd í Reykjavík og foreldrar hennar voru Ólafur Sveinsson Björnsson (1919-1968) lögfræðingur, sonur Sveins Björnssonar forseta Íslands, og Þórunn Árnadóttir (1929-2020) mynd- og handmenntakennari. Maður Önnu er Ari Sigurðsson forstjóri og eiga þau tvö börn.

Anna lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1972, BA-prófi í sagnfræði og almennri bókmenntasögu frá Háskóla Íslands árið 1978 og cand. mag. í sagnfræði frá sama skóla árið 1985. Hún stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1972-1974 og við Myndlistaskólann í Reykjavík 1980-1988. Árið 2008 lauk hún meistaragráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands.

Anna kenndi við Garðaskóla í Garðabæ frá 1976-1977, var blaðamaður á Vikunni 1980-1985 og lausráðinn blaðamaður 1985-1989.

Hún var alþingismaður fyrir Kvennalistann í Reykjaneskjördæmi frá 1989-1995. Árin 1995-2001 fékkst hún við sagnfræðirannsóknir og -skrif, blaðamennsku og þáttagerð í útvarpi og frá 2001-2018 starfaði hún við hugbúnaðargerð.

Hún var í hreppsnefnd Bessastaðahrepps 1986-1989, var formaður Vímulausrar æsku frá 1998-2006 og frá 1999-2000 var hún formaður Samstöðu um óháð Ísland.

Eftir Önnu liggja nokkrar bækur og fræðirit, t.d. er hún höfundur bókanna Álftaness saga (1996), Tölvuvæðing í hálfa öld (2018)[1] og glæpasögunnar Mannavillt (2021). Hún hefur einnig haldið nokkrar myndlistasýningar og tekið þátt í samsýningum.

Anna var á meðal stofnenda Vinstri hreyfingarinnar - grænt framboð og var um tíma formaður Félags vinstri grænna á Álftanesi og var ennfremur á meðal frambjóðenda í forvali flokksins í Reykjavík fyrir alþingiskosningarnar árið 2009 og varaþingmaður flokksins 2009-2013. [2]


Vefsíða: http://www.annabjo.com

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Alþingi, Æviágrip - Anna Ólafsdóttir Björnsson (skoðað 16. desember 2020)
  2. Vb.is, „Anna Ólafsdóttir Björnsson gefur kost á sér í 1-3. sæti VG í Reykjavík“ (skoðað 16. desember 2020)