Fara í innihald

Aðalritari sovéska kommúnistaflokksins

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Aðalritari miðstjórnar Kommúnistaflokks Sovétríkjanna var embætti í sovéska kommúnistaflokknum sem varð valdamesta embætti miðstjórnar hans á síðustu árum þriðja áratugarins. Frá árinu 1929 var handhafi embættisins jafnan einnig hinn eiginlegi leiðtogi Sovétríkjanna í ljósi þess að embættið stýrði bæði Kommúnistaflokknum og ríkisstjórn Sovétríkjanna. Það var Jósef Stalín, sem varð aðalritari árið 1922, sem gerði embættið að þeirri valdastöðu sem það varð. Eftirmaður hans, Níkíta Khrústsjov, breytti nafni embættisins árið 1953 og kallaði sig fyrsta ritara flokksins en nafnbreytingin var dregin til baka árið 1966.

Embættið þróaðist út frá valdaminni stöðum innan flokksins. Þau embætti voru: Tæknilegur ritari (1917–1918), formaður ritararáðsins (1918–1919) og ábyrgðarritari (1919–1922). Á tíma þessara embætta var Vladímír Lenín leiðtogi flokksins en hann gegndi engu þessara embætta.

Saga embættisins

[breyta | breyta frumkóða]

Í upphafi gegndi handhafi embættisins aðallega ritarastörfum. Embætti „ábyrgðarritara“ var síðan stofnað árið 1919 til þess að gegna stjórnar- og skipulagsstörfum. Árið 1922 var aðalritara Kommúnistaflokksins eingöngu ætlað að sjá um skipulags- og agamál innan flokksins og hafa yfirlit með flokksmeðlimum. Þegar Stalín tók við embættinu notfærði hann sér reglur flokksins til þess að breyta embættinu í embætti flokksleiðtoga og síðar leiðtoga Sovétríkjanna allra.

Á 17. flokksþingi Kommúnistaflokksins árið 1934 forðuðust flokksmenn að kjósa Stalín formlega til annars kjörtímabils sem aðalritara. Stalín var þó endurkjörinn í öll önnur embætti sín og var áfram óumdeildur leiðtogi flokksins.

Á sjötta áratugnum hætti Stalín smám saman afskiptum af störfum ritararáðsins og lét Georgíj Malenkov að mestu um að stýra hópnum. Á 19. flokksþingi Kommúnistaflokksins árið 1952 endurskipulagði Stalín stjórn flokksins. Með milligöngu Malenkovs bað hann flokkinn um að létta af sér skyldum gagnvart ritararáðinu sökum aldurs. Flokksþingið hafnaði kröfu hans þar sem meðlimirnir voru ekki vissir um hvað Stalín gekk til. Að endingu leysti flokksþingið þó upp embætti aðalritarans, en Stalín var áfram einn af flokksriturunum og viðhélt æðstu stjórn flokksins.

Þegar Stalín lést þann 5. mars 1953 var Malenkov valdamesti meðlimur ritararáðsins. Hann stofnaði þremenningabandalag ásamt Vjatsjeslav Molotov og Lavrentíj Bería og var þannig kjörinn forsætisráðherra Sovétríkjanna. Aðeins níu dögum síðar neyddist Malenkov hins vegar til að segja upp sæti sínu í ritararáðinu og varð því einungis ríkisstjórnarleiðtogi en ekki flokksleiðtogi. Níkíta Khrústsjov varð valdamesti meðlimur ritararáðsins og var þann 14. september kjörinn í embætti „fyrsta ritara“ Kommúnistaflokksins. Á næstu árum ruddi Khrústsjov keppinautum sínum úr vegi og ritaraembættið varð aftur valdamesta embætti Sovétríkjanna.

Árið 1964 leiddi andstaða stjórnmálanefndarinnar og miðstjórnarinnar til þess að Khrústsjov var bolað úr embætti. Leoníd Brezhnev tók við Khrústsjov sem fyrsti ritarinn og kom á sameiginlegri stjórn flokksforystunnar ásamt Aleksej Kosygín forsætisráðherra. Embættið var aftur kallað aðalritari frá árinu 1966. Á stjórnartíð Brezhnevs voru völd aðalritarans verulega skert vegna aukinna valda sameiginlegrar flokksforystu. Brezhnev hélt stuðningi flokksforystunnar með því að forðast allar róttækar umbætur. Eftirmenn hans, Júríj Andropov og Konstantín Tsjernenko, gegndu embættinu á svipaðan hátt og Brezhnev. Míkhaíl Gorbatsjov réð Sovétríkjunum sem aðalritari flokksins til ársins 1990, en þá glataði Kommúnistaflokkurinn einokunarstöðu sinni í sovéskum stjórnmálum og sérstakt forsetaembætti var stofnað svo Gorbatsjov gæti áfram verið leiðtogi Sovétríkjanna. Eftir misheppnaða valdaránstilraun árið 1991 sagði Gorbatsjov af sér sem aðalritari og varamaður hans, Vladímír Ívashko, tók við embættinu til bráðabirgða. Ívashko var aðeins aðalritari í fimm daga áður en Borís Jeltsín, nýr forseti Rússlands, leysti upp Kommúnistaflokkinn.

Listi yfir aðalritara sovéska kommúnistaflokksins

[breyta | breyta frumkóða]

Tæknilegir ritarar (1917–1918)

[breyta | breyta frumkóða]

Formenn ritararáðsins (1918–1919)

[breyta | breyta frumkóða]

Ábyrgðarritarar (1919–1922)

[breyta | breyta frumkóða]

Aðalritarar (1922–1952)

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrstu ritarar (1953–1966)

[breyta | breyta frumkóða]

Aðalritarar (1966–1991)

[breyta | breyta frumkóða]