Kvenréttindadagurinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fólk safnast saman á Austurvelli 7. júlí 1915 til þess að fagna kosningarétti kvenna

Kvenréttindadagurinn, einnig nefndur 19. júní, er hátíðis- og baráttudagur kvenna á Íslandi þar sem því er fagnað að 19. júní 1915 fengu konur á Íslandi, 40 ára og eldri, kosningarétt og kjörgengi til Alþingis þegar þáverandi Danakonungur, Kristján X, samþykkti nýja stjórnarskrá fyrir Ísland. Barátta þess efnis hafði staðið frá árinu 1885 þó fyrsta opinbera krafan um kosningarétt kvenna hafi ekki komið fram fyrr en árið 1895.

Alþingi hafði þegar árið 1911 samþykkt lög um kosningarétt kvenna, en þau lög hlutu ekki náð fyrir augum Danakonungs og öðluðust því ekki gildi. Það gerðist ekki fyrr en 1915 og þá með framangreindum aldurskilyrðum en engin önnur þjóð setti sambærileg aldursskilyrði fyrir kosningarétti kvenna.

Með sambandslagasamningi Dana og Íslendinga árið 1918 sem kvað á um jafnan rétt íslenskra og danskra ríkisborgara var þetta 40 ára aldursákvæði numið úr lögum og konur fengu þar með jafnan kosningarétt á við karla. En danskar konur höfðu fengið fullan kosningarétt til jafns á við karla, án aldursskilyrða, sama ár og þær íslensku þann 5. júní 1915.

Hátíðarhöldin 1915[breyta | breyta frumkóða]

Grunnskólastelpur safnast saman í porti Barnaskólans 7. júlí 1915 fyrir skrúðgönguna

Kvenréttindafélagið og Hið íslenska kvenfélag efndu til hátíðar þegar Alþingi var sett þann 7. júlí. Austurvöllur var skreyttur hinum nýja íslenska fána og 200 smámeyjar fóru fyrir skrúðgöngu í gegnum miðbæinn. Alþingi fékk skrautritað ávarp og þingmenn hrópaðu húrra fyrir konum. Kvennakór söng á Austurvelli, Bríet Bjarnhéðinsdóttir og Ingibjörg H. Bjarnason héldu ræður. Ingibjörg tilkynnti í ræðu sinni að næsta baráttumál kvenna muni verða stofnun landsspítala.

Femínistar á Íslandi hafa frá árinu 2003 hvatt til þess að dagsins yrði minnst með því að bera eitthvað bleikt og notað kjörorðið Málum bæinn bleikan. Kvenréttindafélag Íslands gefur út tímaritið 19 júní sem kemur út þennan dag og stendur fyrir hátíðardagskrá á Hallveigarstöðum.

Sjá einnig[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]