Brautin (vikublað)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Brautin var íslenskt vikublað sem hóf göngu sína árið 1928 og kom út í rúmlega eitt og hálft ár. Í haus blaðsins sagði að það væri gefið út af „nokkrum konum í Reykjavík“. Efni Brautarinnar tengdist einkum stjórnmálum og jafnréttisbaráttu kvenna.

Útgáfusaga og stefnumál[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta tölublað Brautarinnar kom út þann 29. júní árið 1928. Voru ritstjórar blaðsins þær Sigurbjörg Þorláksdóttir kennari og Marta Einarsdóttir verslunarkona. Í ávarpsorðum kom fram að útgáfunni væri ætlað að bæta úr bágum blaðakosti íslenskra kvenna, sem einungis héldu úti ársritinu Hlín, 19.júní sem kæmi út á mánaðarfresti og Ljósmæðrablaðinu með sex útgáfudaga á ári.[1] Þótt konur væru helsti markhópur blaðsins og greinar um kvenfrelsismál og heimilishald fyrirferðarmiklar birti blaðið þó fjölda greina eftir karla.

Brautin tók virkan þátt í umræðum um þau málefni sem hæst bar í stjórnmálum hverju sinni. Ríkisstjórn Framsóknarmanna var oft harðlega gagnrýnd, einkum þó dómsmálaráðherrann Jónas frá Hriflu. Blaðið hafði ríka samúð með þeim sem höllum fæti stóðu í samfélaginu, svo sem stúlkum sem eignuðust óskilgetin börn og láglaunakonum. Engu að síður gætti mikillar tortryggni blaðsins í garð jafnaðarmanna, sem taldir voru ala á sundrung og óeiningu. Hafði Brautin til að mynda þungar áhyggjur af verkfallsátökum og kallaði eftir því að sett yrðu lög um gerðardóma til að útkljá vinnudeilur. Umbætur á kosningakerfinu voru meðal hugðarefna blaðsins, sem kallaði eftir jöfnun atkvæðaréttar þar sem landinu yrði skipt upp í jafnfjölmenn tvímenningskjördæmi, þar sem bundið yrði í lög að annar þingmaður hvers kjördæmis skyldi vera kvenkyns.[2]

Samúð blaðsins með málstað Íhaldsflokksins var augljós, en Sigurbjörg Þorláksdóttir var systir formannsins Jóns Þorlákssonar og hafði sjálf verið í framboði fyrir flokkinn. Brautin var þó fjarri því hreint flokksmálgagn og gagnrýndi hiklaust alla stjórnmálastéttina fyrir skilningsleysi á kvenfrelsi.

Sérstakt áhugamál ritstjórnarinnar var að koma upp járnbrautarlestum á Íslandi. Fjölmargar greinar birtust um kosti járnbrauta í blaðinu, þar sem sérstaklega var útskýrt hvílíkt hagsmunamál kvenna slík framkvæmd yrði, einkum þar sem þá gæfist reykvískum húsmæðrum kost á hollri og ódýrri mjólk frá Suðurlandsundirlendinu. Var í því samhengi oft vísað til þess hverju stuðningur kvenna við byggingu Landspítalans hefði skilað og hvatt til þess að íslenskar konur myndu nú snúa sér að baráttu fyrir framgangi járnbrautarmálsins.

Sigurbjörg Þorláksdóttir lét af störfum ritstjóra sumarið 1929 vegna vanheilsu og sá Marta Einarsdóttir ein um útgáfuna upp frá því. Síðasta tölublaðið kom út í febrúar 1930 og má af því ráða að reksturinn hafi verið orðinn þungur. Fáeinum vikum fyrr hafði útgáfu hins kvennablaðsins, 19. júní, verið hætt af sömu ástæðum. Brautin og 19. júní voru um margt svipuð blöð, þótt pólitískar áherslur þeirra væru mismunandi. Lítil vinátta virðist hafa verið milli aðstandenda blaðanna tveggja, sem virtust forðast að nefna samkeppnisaðilann á nafn.

Tengill[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. https://timarit.is/page/5055945?iabr=on, Brautin, 1. tbl. 1. árg. 1928.
  2. https://timarit.is/page/5055998?iabr=on, Brautin, 14. tbl. 1. árg. 1928.