Þjórsárdalsför

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þjórsárdalsför var mótmælaaðgerð þann 20. apríl árið 1969 gegn æfingum breska hersins í Þjórsárdal. Þetta reyndust síðustu aðgerðir Samtaka hernámsandstæðinga.

Aðdragandi og skipulag[breyta | breyta frumkóða]

Breskir hermenn voru við æfingar í Þjórsárdal vorin 1968 og 1969 ásamt bandarískum starfsbræðrum þeirra af Keflavíkurflugvelli. Að sögn Þjóðviljans gekk æfingin út á ímyndaðan björgunarleiðangur, þar sem hinn torkennilegi ættbálkur Grandóníumanna hafði rænt íslenskum vísindamanni og íturvaxinni dóttur hans. Skyldi breski herflokkurinn ganga yfir Gnúpverjaafrétt og Dagmálaháls til að frelsa feðginin.[1]

Um sjötíu manna hópur frá Samtökum hernámsandstæðinga hélt inn á æfingasvæðið og sló þar upp fundi. Alþingismaðurinn Jónas Árnason flutti ávarp á ensku. Skúli Thoroddsen læknir notaði tækifærið og afhenti John Dymoke ofursta og stjórnanda breska hópsins bréf þar sem hann skoraði Bretadrottningu formlega á hólm, en ofurstinn bar titil einvígisridda drottningar.

Mótmælin voru síðasta aðgerð sem haldin var undir merkjum Samtaka hernámsandstæðinga. Samtökin voru stofnuð árið 1960 en starfsemi þeirra dofnaði mjög á seinni hluta sjöunda áratugarins.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Þjóðviljinn 22. apríl 1969“.