Þaralátursfjörður
Þaralátursfjörður er stuttur og lítill fjörður á austanverðum Hornströndum, milli Furufjarðar og Reykjafjarðar. Þaralátursnes skilur fjörðinn frá Reykjafirði og Furufjarðarnúpur fjörðinn frá Furufirði. Einn bær var í dalnum og er í eyði. Botn fjarðarins er að mestu ógróinn sandur og þar rennur til sjávar frá Drangajökli jökulsáin Þaralátursós. Eyrarrós vex þar á stórum svæðum.
Utarlega í Þaralátursfirði er sérkennilegt kennileiti sem hefur nafnið Kanna. Ofarlega í Þaralátursós er stór klettahöfði, Óspakshöfði sem kenndur er við Óspak Glúmsson sem sagt er frá í Eyrbyggju og Óspakseyri í Bitrufirði er kennd við.
Reykjafjörður sem er austan við Þaralátursfjörð er vinsæll upphafs og áningastaður þeirra er ganga um Hornstrandir. Gönguleið er yfir Þaralátursnes til Reykjafjarðar.