Reykjarfjörður (nyrðri)
Reykjarfjörður er fjörður á Ströndum. Hann er stundum kallaður Reykjarfjörður nyrðri til aðgreiningar frá öðrum firði sem heitir Reykjafjörður og er einnig á Ströndum, en töluvert sunnar. Fjörðurinn fór í eyði árið 1959, en húsin standa enn og er vel við haldið. Það er sumarbyggð í Reykjarfirði en þangað koma afkomendur gömlu ábúendanna hvert vor og nýta hlunnindin langt fram á haust.
Í Reykjarfirði er hverasvæði og heitasta laugin er um 64 gráður. Þar er sundlaug sem byggð var árið 1938. Önnur hlunnindi sem fylgja jörðinni eru mikill rekaviður og seltaka. Mikla sögunarverksmiðju er að finna niðri við ströndina.
Í Reykjarfjörð gengur lengsti skriðjökullinn fram úr norðanverðum Drangajökli og frá honum kemur Reykjarfjarðarós sem er heitið á jökulánni sem fellur niður dalinn fram í Reykjarfjörð.
Ótal örnefni eru kunn í Reykjarfirði sem gefa til kynna að fleiri býli hafi verið þar á öldum áður, en lagst af vegna framskriðs jökulsins eða rennslisbreytinga óssins.
Vinsæl gönguleið er frá Reykjarfirði og suður Strandir í Ófeigsfjörð og einnig yfir Reykjarfjarðarháls norður til Þaralátursfjarðar og þaðan yfir Svartaskarð til Furufjarðar. Þar er komið inn á hinar eiginlegu Hornstrandir.
Í firðinum sunnanverðum er sæmileg flugbraut sem ábúendur halda við yfir sumarið.