Fara í innihald

Þangskála-Lilja

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þangskála-Lilja, réttu nafni Lilja Gottskálksdóttir, f. 25. ágúst 1831, d. 23. nóvember 1890, var íslenskur hagyrðingur og skáldkona. Hún er talin vera meðal hagyrtustu kvenna á 19. öld á Íslandi.

Uppruni og ætt

[breyta | breyta frumkóða]

Gottskálk Eiríksson, faðir Lilju, var bóndi á Ytra-Mallandi í Skagafirði. Móðir hennar hét Valgerður Árnadóttir og var vinnukona þar á bænum, ættuð úr Húnaþingi. Alsystkini Lilju voru Ragnhildur á Syðra-Mallandi, síðar í Kleifargerði, og Jón "Skagamannaskáld" einnig í Kleifargerði og víðar. Lilja átti mörg hálfsystkin sem verða ekki upptalin hér. Ekki er vitað nákvæmlega hvar Lilja dvaldist fyrstu ár ævinnar, því sóknarmannatöl Hvammsprestakalls á Skaga vantar frá þeim árum. Árið 1837 var hún fósturbarn í Neðra-Nesi, talin skörp og efnileg. Læs var hún orðin 1844, þá skráð sem tökubarn í Neðra-Hvalnesi. Hún er þá talin kunna kristin fræði sæmilega vel, og út á hegðun hennar var ekkert að setja. Fermd var hún árið 1846, þá til heimilis í Kleifarseli á Skagaheiði. Í Þangskála, þeim stað sem hún var ætíð kennd við síðar, var hennar fyrst getið árið 1853, þá tuttugu og tveggja ára gömul. Í Þangskála bjuggu þá hjónin Pétur Jónsson og Sigurlaug Guðmundsdóttir. Í kirkjubók frá þessum tíma er hún talin gáfuð, vel kunnandi en nokkuð grófgerð í háttum. Sigurlaug Guðmundsdóttir, húsfreyja í Þangskála, andaðist árið 1857 og gerðist Lilja þá ráðskona á bænum. Þau Pétur og Lilja giftust í október 1860. Þá var Lilja 29 ára en Pétur rúmlega fimmtugur. Lilja eignaðist sitt fyrsta barn í Þangskála 3. mars 1853, og var barnið kennt vinnumanni á staðnum, Benjamín Benjamínssyni, sem tveimur árum seinna giftist annarri konu. Barnið var skírt Margrét, í fyrstu Benjamínsdóttir, en síðar var föðurnafninu breytt í Pétursdóttir. Lilja eignaðist þrjú (önnur) börn með Pétri Jónssyni: Andrés, f. 6. janúar 1860, Jóhönnu, f. 30. mars 1862, og Jón, f. 12. október 1863.[1]

Þangskálamálin fyrri og síðari

[breyta | breyta frumkóða]

Þangskálamálin fyrri og síðari snérust bæði um skiptapa og manntjón þegar skip strönduðu undan landi Þangskála. Pétur og Lilja voru ákærð fyrir hylmingu og að fela strandgóss sem flaut upp í fjörur úr þessum skiptöpum. Urðu réttarhöld og féllu dómar í báðum málunum. Í apríl 1862 hlaut Pétur fjögurra ára Brimarhólmsvist, en það merkir þrælkunarvinnu í tugthúsi í Danmörku, en Lilja var dæmd til að hýðast 27 vandarhöggum. Dómum þessum var þó ekki fullnægt þá. Síðari Þangskálamálin voru í apríl 1864, en þá strandaði hákarlaskipið Haffrúin frá Héðinsfirði undir Hraunsmúla á Skaga. Ellefu menn fórust með skipinu og talsverðu strandgóssi skolaði á fjörur við Þangskála. Meðal þeirra hluta sem Pétur og Lilja voru ásökuð um að hafa tekið þar ófrjálsri hendi var saltkjöt, hangikjöt, selspik og smjör. Þjófaleit var gerð í Þangskála viku eftir strandið, en sú matvara, föt og annað sem rak á fjörurnar hafði verið flutt inn í bæinn til að forða því frá skemmdum. Ekki sannaðist að þau hjónin hefðu ætlað að taka neitt af þessu til eigin nota. Einnig voru misfellur á réttarhaldinu yfir sakborningum og vitnum. Lauk málum þessum svo að Pétur Jónsson andaðist skömmu eftir síðari Þangskálamálin, áður en dóminum yfir honum væri fullnægt, og óvíst er hvort Lilja tók nokkurn tímann út sína refsingu. Hjónin voru sýknuð af síðari þangskálamálunum, en dæmt að þau skyldu greiða áfallinn málskostnað. Það kom fram við réttarhöldin að nágrannar og sveitungar þeirra hjóna höfðu komið sögusögnum af stað um óheiðarleika þeirra og þjófnað af strandstað, jafnvel um að einhverjir skipbrotsmenn hafi verið á lífi eftir strandið, en af kunnugum var hið síðarnefnda talið alveg útilokað.[2] [3]

Síðari hluti ævi Þangskála-Lilju

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að Pétur Jónsson dó í febrúar 1865 hélt Lilja áfram að búa á Þangskála. Árið eftir, í október 1866, giftist hún í annað sinn, Sveini Pálssyni úr Akrahreppi. Þeim búnaðist illa á Þangskála, og eftir tvö ár þar hættu þau búskap, og skildu um 1870. Þau Lilja og Sveinn eignuðust tvær dætur, en þær dóu báðar fljótlega, fyrir 1870. Að Syðri-Brekkum í Blönduhlíð réðst Lilja sem vinnukona árið 1871, og næsta ár, 1872-3, var hún á Hvalnesi, en fór eftir það af Skaganum og dvaldist á nokkrum bæjum í Fremri-Lýtingsstaðahreppi, allt til ársins 1888. Andrés, sonur Lilju og Péturs, bjó að Gilsbakka í Austurdal 1888-89, en flutti að Tyrfingsstöðum í sömu sveit næsta ár á eftir. Þaðan fór hann að Þorbjargarstöðum í Ytri-Laxárdal, og þar andaðist Lilja tæplega sextug úr brjóstveiki fyrrhluta vetrar. Lilja var talin "snotur" og ákaflega vel greind, og skemmtileg í viðræðum, sem reyndar átti við Svein mann hennar líka. Hún átti létt með að kasta fram stökum, og eru margar vísur hennar vel þekktar enn í dag meðal þeirra sem kveðskap unna.

Sýnishorn úr kveðskap Þangskála-Lilju

[breyta | breyta frumkóða]

Hafsteinn Skúlason var formaður á báti og var tekið fast og hraustlega í árarnar í róðrinum. Lilja kvað;

Hafsteinn er að fara á flot
fiskjar til sem aðrir,
eru sveigðar undir brot
ála-súlu fjaðrir.

Kona að nafni Sæunn kom í heimsókn til Lilju eitt sinn. Þá kvað Lilja:

Hér í bæinn okkar inn
— upp á slæ ég gaman —
vertu, Sæunn, velkomin,
við skulum hlæja saman.

Lilja var eitt sinn á ferð um vetur í miklum snjó og ófærð. Þegar heim kom kastaði hún fram þessari vísu:

Færðin bjó mér þunga þraut,
þrótt úr dró til muna.
Hreppti ég snjó í hverri laut,
hreint í ónefnuna.

Eftir skilnað þeirra Sveins og Lilju orti hún þetta:

Sú var tíð ég syrgði mann,
svikahýði réttnefndan.
Tryggð og blíðu bana vann,
bölvað níðið! Svo fór hann.

Þessa vísu orti Lilja á efri árum. Þar yrkir hún um erfiða ævi á fyrrihluta lífsins, sem skánaði að vísu seinna.

Hungurs feta fékk ég braut,
firnin grét og stundi,
má nú éta mjólkurgraut,
muninn get ég fundið.[4]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Hannes Pétursson. „Stökur eftir Þangskála-Lilju“.
  2. Ludvig R. Kemp. Sagnir um slysfarir Skefilsstaðahreppi 1800-1950.
  3. „Haffrúarstrandið“.
  4. Stökur eftir Þangskála-Lilju. Hannes Pétursson. Skagfirðingabók 1982, bls. 127 m.m.