Fara í innihald

Þýðing

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Þýða)
Fyrir þýðingu forritunarmála, sjá þýðandi (tölvunarfræði).

Þýðing er túlkun á merkingu talaðs eða ritaðs máls úr einu tungumáli á annað. Alexander Púskin kallaði þýðandann „boðbera mannsandans“ og Vladimir Nabokov sagði að það að þýða úr einu tungumáli á annað væri hægfara næturferðalag frá einu þorpi til þess næsta með aðeins kerti til að lýsa sér leið.[1] Magnús Magnússon þýðandi og ritstjóri, sagði að hin vandrataði vegur þýðandans „væri að vera höfundinum trúr, án þess að láta trúmennskuna bitna á því máli sem þýtt er á]“.[2] Bestu þýðendurnir eru oft sagðir þeir sem kunna tungumálið sem þeir þýða úr mjög vel, en kunna tungumálið sem þeir þýða á fullkomlega og málsögu þess í grunninn.

Frá því tölvur komu fram á sjónarsviðið hafa verið gerðar tilraunir til að þýða texta með gervigreind. Þá er oftast talað um vélþýðingar og er þekktasta forrit sem notað er fyrir vélþýðingar án efa Google Translate.

Þýðandi nefnist sá sem þýðir, t.d. úr ensku á íslensku. Sögnin að þýða er komin af germanskri rót sem þýðir: gera þjóðinni skiljanlegt. Gamalt heiti á þýðanda er útleggjari og gamalt orð á þýðingu er færing.

Þegar þýtt er færa menn úr einu tungumáli í annað, sbr. færa úr latínu í dönsku, einnig leggja menn út, eins og þegar sagt er að Oddur Gottskálksson hafi lagt út Nýja testamentið í fjósinu í Skálholti. Þegar þýtt er í fljótheitum er texta t.d. snarað úr grísku á íslensku eða eins og segir í Birtíngi:

Kakambus snaraði skrýtlum konungs fyrir Birtíng, og þær misstu ekki gildi sitt þó þær væru þýddar.

Halldór Laxness talar á einum stað um að snara upp í eitthvert tungumál, en hann segir í Úngur ég var:

Honum veittist erfitt að finna nokkurt kvæði eftir Einar Benediktsson sem hann treysti sér til að snara uppí þetta heimspekíngamál, þýskuna, orði til orðs.

Einnig hefur verið talað um að snúa á eitthvert tungumál, t.d. snúa á ensku, þ.e. þýða á ensku, eins og segir í tímaritinu Ísafold árið 1877:

Þýðandinn er að góðu kunnur bæði á Íslandi og Englandi fyrir það, hve góðan þátt hann hefir átt í því hin síðari árin, að gjöra kunnar Englendingum fornar bókmenntir vorar og nýjar, með góðum þýðingum á íslenzkum ritum, er hann hefir snúið á ensku, sumum einn, sumum í fjelagi við enska bókmenntavini.

Í gömlu skólamáli var talað um að tafsa, en það var að þýða hratt og lauslega. Sagnirnar að útleggja og útsetja eru einnig hafðar um að þýða, t.d. þegar sagt er að einhver hafi útlagt (útsett) bækur af erlendum tungum. Venda er önnur sögn, sem notuð er í sömu merkingu. Menn venda þá úr einhverju máli í eitthvað annað, eða eins og segir í Viktors sögu og Blávus:

Hann lét venda mörgum riddarasögum í norrænu úr girsku og franseisku máli.

Eitt og annað

[breyta | breyta frumkóða]
  • Fyrsta skáldsaga sem þýdd var á íslensku kom út á Hólum 1756. Hana þýddi séra Þorsteinn Ketilsson, prestur á Hrafnagili. Skáldsagan, sem þýdd var úr dönsku, hét: „Þess Svenska Gustavs Landkrons og þess engelska Bertholds fábreytilegir Robinsons; eður lífs og ævi sögur“.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Vladimir Nabokov metaphorically described the transition from one language to another as the slow journey at night from one village to the next with only a candle for illumination.
  2. Morgunblaðið 1978