Fara í innihald

Birtíngur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fyrir útgáfufélagið, sjá Birtíngur útgáfufélag.
Birtíngur
eða bjartsýnin
HöfundurVoltaire
Upprunalegur titillCandide, ou l'Optimisme
ÞýðandiHalldór Laxness (1945)
LandFrakkland Fáni Frakklands
TungumálFranska
StefnaPíkareska skáldsagan
Útgefandi1759: Cramer, Marc-Michel Rey, Jean Nourse, Lambert o.fl.
Útgáfudagur
janúar 1759; fyrir 265 árum (1759-01)
ISBNISBN 9789979663973

Birtíngur (franska: Candide, ou l'Optimisme) er frönsk háðsádeila rituð árið 1759 af Voltaire, kunnum rithöfundi og heimspekingi frá dögum upplýsingarinnar. Voltaire var bæði skáld og fræðimaður og ritaði um allt milli himins og jarðar. Hann barðist ötullega gegn harðstjórn, hjátrú, stjórnarkreddum og bábiljum. Mörg verka hans voru rituð í hugmyndafræðilegum tilgangi. Fá rit hans hafa haldið nafni hans jafnkröftuglega á loft og Birtíngur sem var skrifuð sem andsvar við löghyggju 18. aldar, einkum bjartsýnisheimspeki manna á borð við þýska heimspekinginn Gottfried Wilhelm Leibniz og því hlutleysi sem slík heimspeki fól í sér. Samkvæmt henni er skynsamleg regla á sköpunarverkinu og vel það, því að guð hlýtur að hafa skapað hinn besta mögulega heim allra hugsanlegra heima, jafnvel þótt íbúar þessa heims komi ekki alltaf auga á það. Eins og Altúnga, lærimeistari Birtíngs og ötull fylgismaður þessara kenninga, segir í upphafi verksins: „Maður á að segja að allt sé í allra besta lagi.“ Birtíngur er samfelld ádeila á þessa skoðun, þar sem prófessor Altúnga er látinn þylja heimspeki Leibniz í augljósri skopstælingu, þar á meðal frumsetningu hans um hina einhlítu ástæðu, það er að segja að hver hlutur sé til af skynsamlegri ástæðu þar sem að sérhverjum sannindum hnígi skynsamleg rök.

Halldór Laxness íslenskaði Birtíng og kom þýðing hans fyrst út árið 1945. Hún hefur síðan tvisvar sinnum verið endurútgefin af Hinu íslenska bókmenntafélagi í bókaflokknum Lærdómsrit Bókmenntafélagsins. Hafnarfjarðarleikhúsið setti upp leikgerð byggða á útgáfu Laxness árið 1996, og Herranótt, leikfélag Menntaskólans í Reykjavík, endurtók leikinn árið 2006.

Söguþráður

[breyta | breyta frumkóða]

Sagan um Birtíng er í þrjátíu köflum og ber hver kafli lýsandi yfirskrift. Á undan fyrsta kafla segir til að mynda: „Hér segir frá því, hvernig Birtíngur var uppfóstraður í fögrum kastala, og hvernig útrekinn þaðan.“ Sagan hefst í Vestfalíu, í kastala greifans af Tundertentronk. Þar á Birtíngur heima, ungur, óspilltur sakleysingi „sem náttúran hafði gætt mjúklátu hátterni“. Lærifaðir hans, Altúnga, kennir honum að þeir lifi í hinum besta heimi hugsanlegra heima og að allt sem gerist miði til góðs. Þekkt er ræða Altúngu í upphafi sögu, sem endurspeglar þá skopstælingu sem Voltaire setur fram um bjartsýnisheimspekina. Altúnga segir að sýnt hafi verið fram á að hlutirnir geti ekki verið öðruvísi en þeir eru, því að allt sé miðað við einn endi, sem hljóti þar með að vera hinn allra besti endir. Hann segir: „Athugið hvernig nef manna hafa verið gerð fyrir lonníetturnar; enda höfum við líka lonníettur. Það er bersýnilegt að fætur manna eru til þess gerðir að vera skóaðir, enda höfum við öll eitthvað á fótunum. Grjót hefur orðið til svo að hægt væri að höggva það sundur og byggja úr því kastala; mesti greifinn í landsfjórðungnum verður að hafa best í kringum sig; og til þess eru svínin gerð að maður éti þau, enda erum við étandi svín ár og síð: þar af leiðir að þeir sem segja að alt sé í besta lagi eru hálfvitar, maður á að segja að alt sé í allrabesta lagi.“

Birtíngur laðast að hinni ungu og fögru Kúnígúnd, dóttur greifans og greifynjunnar. Dag einn kemur greifinn að unglingunum í ástarleik, skömmu eftir að Kúnígúnd varð uppnumin af því að sjá doktor Altúngu „gefa stofupíunni lexíu í líkamlegri tilraunafræði“. Það fýkur í greifann og hann rekur Birtíng úr kastalanum. Kúnígúnd fellur í öngvit.

Í næsta kafla hittir Birtíngur fyrir Búlgara. Fyrr en varir er hann dubbaður upp í her þeirra til að berjast fyrir Búlgarakóng. Raunir Birtíngs í stríðinu eru miklar og litlu munar að hann týni tórunni. Eftir hrakninga og barning kemst hann undir hendur Jakobs hins óausna, sem græðir sár hans og líknar honum. Skömmu síðar hittir Birtíngur aftur Altúngu, lærimeistara sinn og fyrirmynd. Altúnga er nú orðinn að sjúkum betlara, ægilegri hryggðarmynd í mannslíki. Búlgarskir hermenn gerðu innrás í kastalann og rændu, drápu og rupluðu. Altúnga telur að Kúnígúnd sé dáin (en hefur raunar rangt fyrir sér). Það þyrmir yfir Birtíng. Í kjölfarið rata þeir félagar í ótal ævintýri. Þeir lenda til dæmis í ægilegum jarðskjálfta sem leikur fjölda manns grátt.

Fyrirmyndir Voltaires að þessum stríðsátökum og jarðhræringum eru annars vegar sjö ára stríðið, sem snerti allar helstu áhrifaþjóðir Evrópu á árunum 1756-1763, og jarðskjálftinn mikli sem skók Portúgal árið 1755. Þessir atburðir vöktu hjá Voltaire djúpstæðar spurningar um það hvernig hægt væri að halda því fram af alvöru, eins og kristin forlagatrú gerði, en einkum þó boðberar löghyggju á borð við Leibniz, að allt ætti sér skynsamlega ástæðu og heimurinn yrði eins og best yrði á kosið.

Við sögu koma fjölmargar litríkar persónur, til dæmis yfirdómari rannsóknarréttarins og gyðingur nokkur, sem báðir verða ástfangnir af Kúnígúnd; gömul kerling sem reynist söguhetjunum betri en engin; Kakambus, skrautlegur, spænskur skósveinn, sem verið hefur kórdrengur, hringjari, munkur, landpóstur, soldáti og hermannsþjónn; íbúar paradísarinnar Eldóradó; bölsýnismaðurinn Marteinn; snobbmenni og tildurrófur í Frakklandi; Biskupsfífla og bróðir Lefkoj; og svona mætti lengi telja. Þrátt fyrir nánast óþrjótandi hrinu hörmunga rígheldur Altúnga í hugmyndir sínar um að allt sé eins og best verði á kosið. Ekki er laust við að Birtíngur efist á tíðum örlítið um afstöðu háspekingsins, en þó lætur hann fátt uppi. Undir lokin segir vinur þeirra, bölsýnismaðurinn Marteinn: „Vinnum án þess að brjóta heilann, það eitt gerir lífið bærilegt.“ Og Birtíngur kemst að þessari frægu lokaniðurstöðu: „Maður verður að rækta garðinn sinn.“

Stílbrögð

[breyta | breyta frumkóða]

Að sögn Voltaires, var hlutverk Birtíngs „að skemmta fámennum hópi andríkra manna“. Þessu markmiði sínu nær höfundurinn með því að blanda saman beittri hnyttni og ærslafullri paródíu eða skopstælingu á hinni sígildu ástar- og ævintýrafléttu. Að baki galsanum leynist þó hvöss ádeila á stjórnarfyrirkomulag margra hinna valdameiri Evrópuríkja og hvimleiðu stríðsbrölti þeirra sem bitnaði, líkt og ævinlega gildir um stríð, á saklausum borgurum.

Háðsádeila

[breyta | breyta frumkóða]

Lykillinn að háðsádeilu Birtíngs felst í kaldhæðnislegri samtvinnun á harmleik og gamansemi. Sagan hvorki ýkir né skreytir hörmungar heimsins, heldur dregur upp myndir af ógnum hans á raunsæjan en þó ævintýralegan hátt. Með þessu móti tekst Voltaire að einfalda flóknar heimspekikenningar og samfélagshefðir og draga þannig fram galla þeirra. Hann skopast að bjartsýni, svo að dæmi sé nefnt, með því að demba fram flaumi af skelfilegum, sögulegum (eða að minnsta kosti trúlegum) atburðum, án þess að þeim virðist fylgja nokkur syndaaflausn eða annað í þeim dúr.

Garðaminni

[breyta | breyta frumkóða]

Margir telja að garðar gegni lykilhlutverki í Birtíngi Voltaires. Í upphafi eru söguhetjur staddar í kastala greifans af Tundertentronk, sem margir hafa litið á sem garð. Þar leikur allt í lyndi og lífið er með besta hugsanlega móti. Þegar Birtíngur er síðan hrakinn þaðan verður samlíkingin við Adam og Evu í sköpunarsögu Biblíunnar nærtæk. Þá kemst Birtíngur undir lok sögunnar að þeirri niðurstöðu að maður verði að rækta garðinn sinn. Söguhetjur hafa þá sjálfar skapað sér sinn eigin garð, hugsanlega sína eigin guðdómlegu paradís.

Loks má telja til nautnaríkið Eldóradó, sem Birtíngur og félagar hans eiga leið um. Eflaust er þar um einhvers konar gerviparadís að ræða, þar sem íbúar líða um í áhyggjulausum draumi, ef til vill einhvers konar sljóleika.

Birtíngur var mjög umdeilt verk og Voltaire gekkst ekki við því að hafa ritað það fyrr en árið 1768. Hann hafði áður átt í tíðum útistöðum við yfirvöld og valdamenn kirkjunnar. Þau átök höfðu meðal annars leitt af sér fangelsisvist og útlegð frá Frakklandi. Enda þótt Voltaire ritaði í fyrstu undir Birtíng með skáldanafni („Doktor Ralph“) duldist fáum hver höfundurinn var. Stjórnvöldum og kirkjunnar mönnum þóknaðist illa sú opinskáa gagnrýni sem sett var fram í verkinu. Ekki leið á löngu uns stjórnarþingið í Genf og yfirvöld í París höfðu bannað bókina. Engu að síður ruku eintök út og töldu sumir að sölumet hefði verið slegið. Einnig má nefna að bókin var víða bönnuð í Bandaríkjunum allt fram á tuttugustu öld.

Birtíngur er í senn mest lesna og víðlesnasta verk Voltaires, og almennt álitið einn hápunkta í sögu vestrænna bókmennta. Sumir telja þó ekki rétt að jafna Birtíngi við þekktustu verk klassískra bókmennta, og byggja þá skoðun sína meðal annars á léttvægri afstöðu Voltaires til skáldverka sinna, og skorti á tilfinningalegum þunga í verkinu, sem fyrst og fremst sé ritað í heimspekilegum tilgangi. Hvað sem því líður er ljóst að Birtíngur er afar áhrifamikið verk og hefur orðið listamönnum vítt og breitt um veröldina innblástur.