Fara í innihald

Haukur Clausen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Haukur Clausen (8. nóvember 19281. maí 2003) var íslenskur tannlæknir sem var á sínum tíma í hópi bestu frjálsíþróttamanna Evrópu ásamt Erni bróður sínum og átti allmörg Íslandsmet í frjálsum íþróttum.

Haukur og Örn, eineggja tvíburabróðir hans, voru fæddir í Reykjavík, synir Arreboe Clausen verslunarmanns og bifreiðarstjóra, sem tók þátt í stofnun Fram á sínum tíma, og konu hans Sesselju Þorsteinsdóttur Clausen. Haukur lauk stúdentsprófi frá MR 1948 og prófi í tannlækningum frá Háskóla Íslands 1952. Hann stundaði framhaldsnám við Minnesotaháskóla í Minneapolis í Bandaríkjunum 1952-1953. Hann starfaði við tannlækningar í Reykjavík 1953-1994 og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Tannlæknafélag Íslands.

Haukur lagði ungur stund á íþróttir ásamt bróður sínum og voru þeir einna fremstir íslenskra íþóttamanna á gullöld íslenskra frjálsíþrótta fyrir og um 1950. Hann varð Norðurlandameistari í 200 metra hlaupi 9. september 1947, þá aðeins 18 ára, og hljóp á nýju Íslandsmeti, 21,9 sek. Sumarið 1950 setti hann Norðurlandamet í 200 metra hlaupi, 21,3 sekúndur. Það var besti tími ársins 1950 í Evrópu og stóð Norðurlandametið í mörg ár.

Haukur keppti á Ólympíuleikunum í London 1948 og varð þar þrettándi í 100 metra hlaupi og i um tuttugasta sæti í 200 metra hlaupi. Á Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Brussel 1950 komst hann í úrslit í 100 metra hlaupi og varð í fimmta sæti. Hann átti allmörg Íslandsmet í ýmsum frjálsíþróttagreinum. Haukur tók ekki þátt í Ólympíuleikunum í Helsinki 1952, enda þá nýfarinn til náms í Bandaríkjunum, en á leikunum lenti Örn í útistöðum við forystumenn Frjálsíþróttasambandsins, var dæmdur í keppnisbann og í framhaldi af því hættu þeir bræður báðir keppni.

Haukur var fjórkvæntur. Fyrsta kona hans var Þóra Hallgrímsson, sem síðar giftist George Lincoln Rockwell og enn síðar Björgólfi Guðmundssyni. Þau áttu einn son. Önnur kona Hauks var Lillian Sveinsdóttir Johnsson og áttu þau eina dóttur. Þriðja eiginkonan var Halldóra Filippusdóttir og áttu þau einn son. Fjórða kona Hauks var Elín Hrefna Stefánsdóttir Thorarensen og áttu þau tvær dætur.

  • „Æviágrip á síðu Tannæknafélags Íslands, skoðað 20. apríl 2011“.
  • „Haukur Clausen. Gagnasafn Morgunblaðsins, skoðað 20. apríl 2011“.