Ættarnöfn á Íslandi
Útlit
Á Íslandi eru ættarnöfn fátíð og í raun aðeins leyfð með undantekningum í mannanafnalögum.[1] Erlendis eru hins vegar ættarnöfn nær undantekningalaus og notuð í almennum samskiptum, ólíkt Íslandi þar sem eiginnöfn eru notuð í almennum samskiptum.[2] Hægt er að taka upp ættarnafn frá föður eða móður og ömmu eða afa, jafnvel þótt foreldri hafi ekki notað ættarnafnið.[3]
Um 8.900 ættarnöfn eru í notkun á Íslandi, og um 27.000 manns bera ættarnafn[heimild vantar]. Tíu algengustu ættarnöfnin á Íslandi eru: (tölurnar fyrir aftan nöfnin eru fjöldi þeirra sem báru nafnið árið 2025).[4]
- Nguyen (615)
- Blöndal (472)
- Hansen (458)
- Thorarensen (354)
- Rodriguez (351)
- Andersen (329)
- Santos (321)
- Nielsen (317)
- Garcia (291)
- Olsen (289)
Íslensk ættarnöfn og uppruni þeirra
[breyta | breyta frumkóða]- Beck - Saga Becksfjölskyldunnar á Sómastöðum á Reyðarfirði hefst þegar Hans og Steinunn fá ábúð á jörðinni 1870. Komið frá Danmörku
- Blöndal - afbökun á staðarheitinu Blöndudalur í Húnaþingi.
- Briem - afbökun á staðarheitinu Brjánslækur í Barðarstrandarsýslu.
- Claessen - komið af hollenskum/dönskum uppruna, og má rekja ættina til Jean Valgard Claessen.
- Diego - komið af frönsku landnemunum sem voru á meðal fyrstu Evrópumannanna sem settust að í Norður-Ameríku rétt um 1600
- Egilson - Komið frá Þorsteini Egilson, syni Sveinbjarnar Egilssonar, rektors.
- Kemp - flestir, ef ekki allir, sem nafn þetta bera hér á landi rekja það til Ludvig Conrad Frederick Kemp, frá Þýskalandi sem hingað fluttist um aldamótin 1800 og bjó á Húsavík og Eskifirði.
- Ottesen - komið frá Lárusi Ottesen (Oddsyni) langafa Péturs Ottesen alþingismanns.
- Rafnar - afbökun á bæjarheitinu Hrafnagili í Eyjafirði.
- Scheving - íslensku Schevingarnir eru komnir frá Lauritz Hansson Scheving prófasti í Skevinge á Sjálandi sem uppi var um aldamótin 1600.
- Stephensen - komið frá Ólafi Stefánssyni Stephensen stiftamtmanni sem skrifaðist á við danska konunginn undir nafninu Stephensen. Synir hans tóku svo líka upp nafnið, þar með talinn Magnús Stephensen
- Thorlacius - Þórður sonur Þorláks biskups Skúlasonar á Hólum var skrifaður í skrá háskólans í Strassborg árið 1666 sem „Theodorus Thorlacisus Hola Islandus“. Er það upphaf nafnsins.
- Vídalín - afbökun á staðarheitinu Víðidalur í Vestur-Húnavatnssýslu.
- Wiium - af erlendum uppruna.
- Zoëga - mun komið frá Ítalíu upphaflega. Ættfaðir hér á landi Jóhannes Zoega 1747 - 1821, hingað í fyrstu komin til að starfa við hina konunglegu verslun í Vestmannaeyjum, starfaði síðan við tugthúsið og sem bakari
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Halldór Gunnar Haraldsson (23.3.2001). „Hvenær voru lög um bann við ættarnöfnum samþykkt á Alþingi? Hvað yrði gert ef ég byggi til mitt eigið ættarnafn í dag?“. Vísindavefurinn.
- ↑ Guðrún Kvaran (29.10.2004). „Eru Íslendingar einir um að kenna sig við feður sína í stað þess að nota ættarnöfn?“. Vísindavefurinn.
- ↑ Halldór Gunnar Haraldsson (13.9.2002). „Get ég tekið upp ættarnafn afa míns sem foreldrar mínir hafa ekki notað?“. Vísindavefurinn.
- ↑ Kristinn H. Gunnarsson (26. mars 2025). „Þetta eru algengustu ættarnöfnin á Íslandi“. DV.