Þorkell Arngrímsson Vídalín
Þorkell Arngrímsson (1629 - 15. desember 1677) er líklega fyrsti Íslendingurinn sem lærði læknisfræði við háskóla. Hann var sonur Arngríms lærða og Sigríðar Bjarnadóttur. Hann lærði í Hólaskóla og síðan guðfræði, náttúrufræði og jarðfræði í Kaupmannahafnarháskóla undir handleiðslu Ole Worm. Var einnig við nám í Leyden og Amsterdam í Hollandi. 1654-56 var hann í Noregi hjá Jørgen Bjelke hirðstjóra í Þrándheimi, bróður Henriks Bjelke höfuðsmanns, og lagði þar stund á lækningar og námarannsóknir.
1658 fékk hann Garða á Álftanesi, tók við þeim 18. desember og hélt til æviloka. Giftist Margréti Þorsteinsdóttur árið 1660 og áttu þau m.a. synina Þórð Þorkelsson Vídalín, rektor og lækni, og Jón Vídalín biskup.
Verk
[breyta | breyta frumkóða]Þorkell hélt nokkuð nákvæmt og afar merkilegt yfirlit yfir læknisverk sín og samdi að auki lækningabók. Hann þýddi bók Thomas à Kempis, Eftirbreytni Krists (De Imitatione Christi) sem prentuð var á Hólum árið 1676. Hann átti í miklum bréfaskriftum við Ole Worm.