Fara í innihald

Vilhjálmur þögli

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Willem van Oranje)
Vilhjálmur þögli um 1580.

Vilhjálmur I af Óraníu-Nassá, einnig nefndur Vilhjálmur þögli (24. apríl 153310. júlí 1584) var af Nassá-ættinni og varð Óraníufursti 1544. Hann var helsti leiðtogi uppreisnar Hollendinga gegn Spánverjum sem hrinti af stað Áttatíu ára stríðinu sem lauk með formlegu sjálfstæði Hollands árið 1648.

Hann var upphaflega stjórnmálamaður við hirð spænska landstjórans en varð brátt óánægður með áhrifaleysi innfæddra aðalsmanna og ofsóknir á hendur mótmælendum. Hann gerðist því þátttakandi í uppreisn Hollendinga og þegar hertoginn af Alba kom til að kveða niður uppreisnarmenn 1567 gerði hann Vilhjálm útlægan og lét gera eigur hans upptækar.

Vilhjálmur kom sér þá upp her, aðallega með þýskum málaliðum, og réðist, ásamt bræðrum sínum Lúðvík af Nassá og Adolf af Nassá, inn í norðurhluta Spænsku Niðurlanda. Þar unnu þeir flestar borgir á sitt band (utan Amsterdam og Middelburg) sem síðan kölluðu saman hollenska ríkisráðið (sem þær höfðu raunar ekki rétt til að gera) og lýstu Vilhjálm ríkisstjóra yfir Hollandi og Sjálandi.

Stríðið hélt áfram og uppreisnarmenn náðu brátt á sitt vald mörgum borgum um allt landið. Nýja landstjóranum hertoganum af Parma, tókst þó að ná suðurhlutanum aftur á sitt vald.

22. júlí 1581 sóru meðlimir ríkisráðsins afneitunareiðinn þar sem þeir lýstu því yfir að Filippus II Spánarkonungur væri ekki lengur konungur þeirra. Frans, hertogi af Anjou átti að verða nýr konungur norðurhluta Niðurlanda, meðal annars til að tryggja stuðning Frakkakonungs. Hertoginn var gríðarlega óvinsæll og héruðin Holland og Sjáland neituðu að viðurkenna hann sem þjóðhöfðingja. Eftir að hafa reynt og mistekist að taka Antwerpen með valdi 18. janúar 1583 hélt hann burt. Staða Vilhjálms hafði veikst mikið við þetta en hann var samt áfram ríkisstjóri.

Vilhjálmur var myrtur af Balthasar Gérard, sem var stuðningsmaður Spánarkonungs og sóttist eftir lausnargjaldinu sem sá hafði sett Vilhjálmi til höfuðs.


Fyrirrennari:
René frá Châlon
Fursti af Óraníu
(15441584)
Eftirmaður:
Filippus Vilhjálmur
Fyrirrennari:
Maximilian af Búrgund
Ríkisstjóri Hollands, Sjálands og Utrecht
(1559 og 15721567 og 1584)
Eftirmaður:
Mórits af Nassá