Wilfrid Sellars
Vestræn heimspeki Heimspeki 20. aldar | |
---|---|
Nafn: | Wilfrid Stalker Sellars |
Fæddur: | 20. maí 1912 |
Látinn: | 2. júlí 1989 (77 ára) |
Skóli/hefð: | Rökgreiningarheimspeki |
Helstu viðfangsefni: | hugspeki, þekkingarfræði, málspeki, merkingarfræði, heimspekisaga |
Markverðar hugmyndir: | gagnhyggja, goðsögnin um hið gefna, atferlishyggja, nafnhyggja, sálfræðileg nafnhyggja |
Áhrifavaldar: | Gilbert Ryle, Charles Sanders Peirce, Vínarhringurinn, Rudolf Carnap, Immanuel Kant |
Hafði áhrif á: | Robert Brandom, Paul Churchland, James Conant, John McDowell, Richard Rorty |
Wilfrid Stalker Sellars (20. maí 1912 – 2. júlí 1989) var bandarískur heimspekingur.[1] Faðir hans var kanadíski-bandaríski heimspekingurinn Roy Wood Sellars. Wilfrid Sellars hlaut menntun sína í Michigan, við University of Buffalo, og síðar við háskólann í Oxford, þar sem hann var Rhodes-fræðimaður og brautskráðist með MA-gráðu árið 1940. Í seinni heimsstyrjöldinni gegndi hann herþjónustu í leyniþjónustu bandaríska hersins. Síðar kenndi hann við University of Iowa, University of Minnesota, Yale University og frá árinu 1963 til æviloka við University of Pittsburgh, þar sem hann átti snaran þátt í að koma heimspekideild skólans á heimsmælikvarða.
Sellars er einkum þekktur fyrir gagnrýni sína á bjarghyggju í þekkingarfræði, en heimspeki hans miðaði þó almennt að því að sætta heimsmynd heilbrigðrar skynsemi og heimspekinnar annars vegar og strangvísindalega náttúruhyggju um raunveruleikann hins vegar. Hann er víða í miklum metum bæði vegna fágaðra raka sinna og víðfeðsm lærdóms síns. Sellars var ef til vill fyrsti heimspekingurinn sem sameinaði á árangursríkan hátt bandarísku gagnhyggjuna og rökgreiningarheimspekina og austurríska og þýska rökfræðilega raunhyggju. Hann vann að margvíslegum viðfangsefnum bæði í heimspeki og heimspekisögu. Rit hans eru af mörgum talin býsna torlesin.
Robert Brandom kvað Sellars og Willard van Orman Quine vera merkustu heimspekinga sinnar kynslóðar. Heimspeki Sellars er grunnur og fyrirmynd þess sem stundum er nefnt „Pittsburghar-skólinn“, en meðal heimspekinga sem teljast til hans má nefna Brandom, John McDowell og John Haugeland. Meðal annarra heimspekinga sem urðu fyrir miklum áhrifum frá Sellars má nefna nýgagnhyggjumenn á borð við Richard Rorty og útrýmingarefnishyggjumenn á borð við Paul Churchland.[2]
Neðanmálsgreinar
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Um Sellars má lesa hjá DeVries (2005). Sjá einnig „Wilfrid Sellars“ í Stanford Encyclopedia of Philosophy
- ↑ Um hugspeki Sellars sjálfs, sjá „Sellars' Philosophy of Mind“ í The Internet Encyclopedia of Philosophy.
Heimildir og ítarefni
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Wilfrid Sellars“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 30. desember 2006.
- DeVries, Willem A., Wilfrid Sellars (McGill-Queen's University Press, 2005). ISBN 0-7735-3051-7
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Dictionary of Philosophy of Mind: „Wilfrid Sellars“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Wilfrid Sellars“
- The Internet Encyclopedia of Philosophy: „Sellars' Philosophy of Mind“