Wikipedia:Grein mánaðarins/09, 2020
Saloth Sar, betur þekktur sem Pol Pot, var fæddur 19. maí 1925 og dó 15. apríl 1998. Hann var leiðtogi Rauðu khmeranna í Kambódíu frá 1963 til 1979 og er þekktastur fyrir dauða óhemjumargs fólks í stjórnartíð sinni, sem var frá 1975 til 1979. Rauðu khmerarnir reyndu að framfylgja sýn sinni um eins konar samyrkjuvæðingu, en meðal þess sem hún átti að fela í sér var að borgarbúar flyttu út í sveitir og ynnu þar við landbúnað eða í betrunarvinnu. Þeir töldu sig geta byrjað siðmenninguna upp á nýtt og tóku því upp tímatal sem átti að hefjast með valdatíð þeirra. Sú valdatíð var ekki löng, en því mannskæðari. Þrælkunarvinna, vannæring, hrun í heilbrigðiskerfinu og beinar aftökur kostuðu á bilinu 750.000 - 1.700.000 manns lífið (sumir segja á bilinu 300.000 til 3.000.000) -- í landi sem hafði 14 milljónir íbúa árið 2006. Meðal þeirra sem voru ofsóttir voru menntamenn og aðrir „borgaralegir óvinir“, sem taldir voru hættulegir og andsnúnir umbreytingunum.
Árið 1979 réðust Víetnamar inn í Kambódíu og komu Rauðu khmerunum frá völdum. Pol Pot slapp undan réttvísinni og flúði inn í frumskóg, þar sem hann bjó, í haldi annarra rauðra khmera sem höfðu steypt honum frá völdum innan hreyfingarinnar, þar til hann bar beinin 72 ára að aldri, af náttúrlegum ástæðum að því er sagt var.