Wikipedia:Grein mánaðarins/08, 2022
Loujain al-Hathloul (f. 31. júlí 1989) er sádi-arabísk kvenréttindakona, áhrifavaldur á samfélagsmiðlum og fyrrum pólitískur fangi. Hún er útskrifuð úr Háskólanum í Bresku Kólumbíu.
Al-Hathloul hefur nokkrum sinnum verið handtekin og síðan sleppt fyrir að óhlýðnast banni gegn því að konur aki bílum í Sádi-Arabíu. Hún var handtekin í maí árið 2018 ásamt fleiri kunnum kvenréttindakonum fyrir að „reyna að grafa undan stöðugleika konungsríkisins“. Í október árið 2018 var eiginmaður hennar, uppistandarinn Fahad Albutairi, einnig framseldur til sádi-arabískra stjórnvalda frá Jórdaníu og var settur í fangelsi. Hathloul var sleppt úr fangelsi þann 10. febrúar 2021.
Al-Hathloul var í þriðja sæti á lista yfir 100 áhrifamestu Arabakonur heims árið 2015. Þann 14. mars 2019 tilkynnti PEN America að Hathloul myndi hljóta PEN/Barbey-ritfrelsisverðlaunin ásamt Nouf Abdulaziz og Eman Al-Nafjan. Verðlaunin voru afhent þann 21. maí á bandarískri bókmenntahátíð PEN.
Árið 2019 taldi tímaritið Time Hathloul meðal 100 áhrifamestu einstaklinga ársins.