Wikipedia:Gæðagreinar/Saga Ítalíu
Saga Ítalíu er saga þess fólks sem byggt hefur Appennínaskagann sunnan Alpafjalla frá örófi alda, þótt nútímaríkið Ítalía hafi fyrst orðið til þegar flestöll ríkin á skaganum sameinuðust í eitt konungsríki árið 1861. Saga Ítalíu er því saga þess svæðis sem kallað hefur verið Ítalía frá því í fornöld og sem byggt hefur verið ýmsum þjóðum með ólíka menningu og tungumál, þótt saga þeirra sé að meira eða minna leyti samtvinnuð. Lengst af skiptist þetta svæði milli nokkurra ríkja sem ýmist voru sjálfstæð eða undir yfirráðum stærri ríkja.
Á ýmsum tímum hefur saga Ítalíu haft mikil áhrif á sögu Evrópu og heimsins alls. Þar var miðja Rómaveldis sem þandist langt út fyrir Appennínaskagann á síðustu öldunum fyrir Krists burð, allt þar til Vestrómverska ríkið leystist upp vegna árása Germana á 5. öld, og þar hefur miðstöð kristinnar kirkju og síðar kaþólskrar trúar verið frá því á 2. öld til dagsins í dag. Á Ítalíu kom ítalska endurreisnin upp á 14. öld sem markar skil milli miðalda og nýaldar í sögu Evrópu.