Fara í innihald

Wikipedia:Gæðagrein

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Gæðagrein er grein sem hefur eftirfarandi einkenni:

 1. Hún er dæmi um vandaða grein.
 2. Hún er vel skrifuð, rétt og laus við staðreyndarvillur, skrifuð út frá hlutlausu sjónarmiði og stöðug. Lesa má nánar um kröfurnar sem gerðar eru til gæðagreina í greininni Hvernig á að skrifa góða grein. Sjá einnig fullkomnu greinina og handbókina. Í grófum dráttum eru kröfurnar þessar:
  • (a) „vel skrifuð“ þýðir að greinin er skrifuð á góðri íslensku og er laus við stafsetningar- og málfræðivillur;
  • (b) „rétt og laus við staðreyndarvillur“ felur m.a. í sér að fullyrðingar greinarinnar eru sannreynanlegar
  • (c) „skrifuð frá hlutlausu sjónarmiði“ þýðir að hlutleysi greinarinnar er óumdeilt og fullyrðingar greinarinnar eru réttar (sjá hlutleysisregluna); og
  • (d) „stöðug“ þýðir að greinin tekur ekki miklum breytingum frá degi til dags og ekki er barist um hana í breytingastríði.
 3. Framsetning gæðagreina er í samræmi við það sem fram kemur í Handbókinni, t.d. hefur gæðagrein:
  • (a) stuttan inngang, sem lýsir öllum meginatriðum viðfangsefnisins og undirbýr lesandann fyrir nánari umfjöllun í köflunum sem fylgja, og
  • (b) viðeigandi skiptingu efnis í kafla og undirkafla.
 4. Myndir eru ekki skilyrði þess að grein komist í flokk gæðagreina. Á hinn bóginn verður meðferð mynda í gæðagreinum að vera til sóma, hafi þær myndir á annað borð. Í gæðagreinum eru myndir þar sem við á, með viðeigandi og lýsandi skýringartexta. Myndir mega ekki vera of margar miðað við lengd greinar og verða að vera lausar undan höfundarrétti.
 5. Gæðagreinar þurfa ekki að vera mjög langar og eru alla jafnan styttri en úrvalsgreinar, þær fjalla um efnið á hnitmiðaðan hátt og eru án ónauðsynlegra útúrdúra. Gæðagrein má þó ekki vera stubbur.

Munurinn á gæðagrein og úrvalsgrein[breyta frumkóða]

Meginmunurinn á gæðagrein og úrvalsgrein er sá að gæðagrein er góð grein en úrvalsgrein er framúrskarandi. Þá gerir gæðagrein efni sínu góð skil en úrvalsgrein gerir efninu tæmandi skil. Gera má ráð fyrir að síðarnefndi munurinn endurspeglist að einhverju leyti í lengd greina og að gæðagreinar séu alla jafnan styttri en úrvalsgreinar. Þó er vert að benda á að engin nauðsynleg tengsl eru milli lengdar greinar og þess hve vel hún gerir efninu skil.

Gæðalistar[breyta frumkóða]

Gæðalistar eru listar sem hafa mörg sömu einkenni og gæðagreinar. Gæðalisti ætti t.d. að vera vel skrifaður, laus við staðreyndarvillur og stöðugur auk þess sem frágangur þarf að vera góður rétt eins og í gæðagreinum. Listinn ætti að vera gagnlegur lesendum, annaðhvort tæmandi eða skýrt afmarkaður. Sum viðfangsefni henta betur til samantektar á listum en önnur.

Dæmi um lista sem eru ekki gagnlegir gæti verið „listi yfir örvhent fólk“ (sem yrði að öllum líkindum ekki tæmandi). Aftur á móti getur listi yfir forseta Bandaríkjanna verið tæmandi listi og mun gagnlegri. Listar yfir hvaðeina eftir stærð, fjölda eða magni geta einnig verið gagnlegir ef þeir eru skýrt afmarkaðir þótt þeir séu ekki tæmandi. Til dæmis „listi yfir 100 lengstu fljót heims“; þótt listinn væri ekki tæmandi í þeim skilningi að hann veiti yfirlit yfir öll fljót heims eftir lengd þeirra væri hann skýrt afmarkaður og ekki handahófskennt hvað kæmist á listann.

Líkt og í gæðagrein ætti að vera stuttur inngangur að listanum sem útskýrir samantektina. Listar geta einnig innihaldið ýmsar upplýsingar um efnið sem er á listanum sem gera listana gagnlegri fyrir lesendur en ella (t.d. embættisár forseta, upptök og lengd fljóta, íbúafjölda borga og mannfjöldaþróun o.s.frv.)