Fara í innihald

Wikipedia:Engar frumrannsóknir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Wikipedia er ekki rétti staðurinn til þess að birta nýjar og frumlegar rannsóknir. Skráning heimilda helst í hendur við það að forðast frumrannsóknir: eina leiðin til að sýna að maður sé ekki að setja fram nýjar og áður óséðar upplýsingar er að vísa í traustar heimildir sem veita upplýsingar sem tengjast með beinum hætti efni greinarinnar og halda sig við það sem heimildirnar segja í umfjölluninni í greininni.

Reglan um engar frumrannsóknir er ein af þremur meginreglum Wikipediu um efni alfræðiritsins. Hinar tvær eru hlutleysisreglan og sannreynanleikareglan. Reglur þessar bæta hver aðra upp og saman sjá þær um að greinar alfræðiritsins séu alfræðilegar í eðli sínu og vel unnar. Varast skal að beita þeim eða túlka þær í einangrun hverja frá annarri; höfundar á Wikipediu ættu að kynna sér allar þrjár reglurnar. Wikipedia byggir á þessum reglum og þær má aldrei afnema eða hundsa. Hins vegar skal hafa í huga að ýmis matsatriði geta komið upp í beitingu reglanna og þær skyldi ávallt túlka með hliðsjón af almennri heilbrigðri skynsemi.

Hvað eru frumrannsóknir?[breyta frumkóða]

Frumrannsóknir er hugtak sem er notað á Wikipediu til að lýsa innihaldi greina sem hefur ekki áður verið gefið út í viðurkenndum og traustum heimildum. Í þessu samhengi þýðir það áður óséðar kenningar, gögn, fullyrðingar, hugtök, rök og hugmyndir; eða ný túlkun, greining eða samfléttun áður útgefinna gagna, fullyrðinga, hugtaka eða raka sem virðast setja fram nýtt sjónarhorn eða, eins og einn af stofnendum Wikipediu, Jimbo Wales, orðaði það, myndu jafngilda „nýrri frásögn eða sögulegri túlkun“.

Frumheimildir og stoðheimildir[breyta frumkóða]

 • Frumheimildir eru upplýsingar eða gögn, svo sem fornminjar, kvikmynd, myndskeið eða ljósmynd (sjá umfjöllun um ljósmyndir að neðan), söguleg skjöl svo sem dagbækur, manntöl, afrit opinberrar vitnaleiðslu, réttarhalda eða viðtals, niðurstöður viðhorfskannana, rannsóknarskýrslur. Rétt er að geta að hvaða texti sem er getur verið frumheimild snúist rannsóknin um textann sjálfan.
 • Stoðheimildir fela í sér alhæfingar, greiningu, samfléttun, túlkun eða mat á upplýsingum eða gögnum úr öðrum heimildum.

Frumrannsóknir sem jafngilda því að búa til frumheimildir eru bannaðar á Wikipediu. Rannsóknir sem eru fólgnar í því að safna og raða saman upplýsingum úr frumheimildum og/eða stoðheimildum sem eru fyrir hendi eru á hinn bóginn vel metnar, en þó með þeim fyrirvara að úrvinnsla efnisins jafngildi ekki því að setja fram áður óþekkt sjónarmið. Allar greinar á Wikipediu ættu að byggja á upplýsingum sem er safnað úr útgefnum frum- og stoðheimildum. Þetta eru ekki „frumrannsóknir“, heldur „úrvinnsla heimilda“ og hún er grundvallaratriði í ritun alfræðirits.

Í sumum tilvikum, þar sem (1) grein felur í sér lýsandi fullyrðingar sem allt skynsamt fullorðið fólk getur auðveldlega staðfest þótt það hafi ekki sérfræðiþekkingu á efninu og (2) greinin felur ekki í sér neinar fullyrðingar sem eru greinandi, samfléttandi, túlkandi eða leggja mat á efnið, getur Wikipedia grein verið alfarið byggð á frumheimildum en það eru undantekningartilvik.

Greinar á Wikipediu innihalda upplýsingar á grundvelli sannreynanleika en ekki sannleika. Það er að segja, við greinum frá því sem aðrar traustar heimildir hafa gefið út, hvort sem við teljum að upplýsingarnar séu réttar eða ekki. Til þess að forðast frumrannsóknir og til þess að auka gæði greina á Wikipediu er bráðnauðsynlegt að allar frumheimildir sem og allar alhæfingar, öll greining, samfléttun efnis, allar túlkanir og allt mat sem er lagt á upplýsingar og gögn hafi verið gefið út af þriðja aðila og þyki traust heimild (þ.e. ekki gefið út á eigin vegum þess sem um er fjallað) og að heimildirnar séu lesendum aðgengilegar annaðhvort á netinu (utan Wikipediu) eða í gegnum almenningsbókasafn. Það er afar mikilvægt að styðjast við og vísa í heimildir á viðeigandi hátt, svo að lesendur geti fundið heimildirnar og geti gengið úr skugga um að Wikipedia hafi nýtt heimildirnar réttilega.

Í sumum tilfellum getur verið umdeilanlegt hvað teljist viðurkennd og traust heimild. Þegar ekki er hægt að ná samkomulagi um það ætti greinin að upplýsa lesandann um ágreininginn um heimildirnar. Slík greinargerð hjálpar einnig við að tryggja óhlutdrægni greinarinnar.

Hvað á að forðast?[breyta frumkóða]

Viðbót við grein telst ný rannsókn ef hún leggur til hugmyndir eða rök. Það er að segja, ef hún gerir eitthvað af eftirfarandi:

 • Hún kynnir nýja og áður óþekkta kenningu eða aðferð;
 • Hún kynnir nýja og áður óþekkta hugmynd;
 • Hún skilgreinir ný og áður óþekkt hugtök;
 • Hún kynnir nýjar og áður óþekktar skilgreiningar á hugtökum sem þegar eru til;
 • Hún kynnir rök, án þess að vísa í heimild fyrir rökunum, sem eiga að hrekja eða styðja einhverja hugmynd, kenningu, önnur rök eða sjónarmið;
 • Hún felur í sér greiningu eða samfléttun á áður þekktum staðreyndum, hugmyndum, skoðunum eða rökum sem jafngildir nýju sjónarmiði eða nýjum rökum eða styður sjónarmið höfundar, án þess að vísa í heimild fyrir úrvinnslu efnisins;
 • Hún notar nýyrði, án þess að vísa í heimild fyrir nýyrðinu.

Sú staðreynd að eitthvað á ekki heima í alfræðiritinu þýðir ekki nauðsynlega að það sé slæmt — það þýðir einfaldlega að Wikipedia er ekki rétti staðurinn fyrir það. Við myndum verða að afþakka jafnvel fréttaefni sem verðskuldaði Pulitzer verðlaunin og fræðilegu efni sem verðskuldaði Nóbelsverðlaunin ef höfundar efnisins reyndu að birta það fyrst á Wikipediu. Ef þú hefur hugmynd eða kenningu sem þú telur að ætti að verða hluti af þeirri þekkingu sem er að finna á Wikipediu, þá er best að fá hugmyndina eða kenninguna birta í ritrýndu tímariti eða hjá þekktri fréttastofu og greina svo frá því á óhlutdrægan máta.

Hvers vegna afþökkum við frumrannsóknir?[breyta frumkóða]

Upphaflega átti reglan um engar frumrannsóknir koma í veg fyrir að þursar gætu vaðið uppi á alfræðiritinu með eigin persónulegu kenningar eða að fólk notaði Wikipediu til að vekja athygli á sér og sínum kenningum.

Reglan er þó annað og meira en bara vörn gegn persónulegu framapoti og annarri vitleysu. Hún útilokar einnig persónulegar skoðanir greinarhöfunda, stjórnmálaskoðanir, þeirra eigin mat eða túlkun á útgefnu efni og áður óséða úrvinnslu á útgefnu efni, þar sem úrvinnslan jafngildir framsetningu nýrra sjónarmiða eða rökstuðningi fyrir manns eigin skoðunum. Með öðrum orðum verður allt efni, (staðreyndir, skoðanir, túlkanir, skilgreiningar og rök) á Wikipediu að hafa birst áður í traustum heimildum sem tengjast efni greinarinnar.

Reglan gildir jafnt um alla greinarhöfunda og stendur vörð um orðspor okkar á margan hátt:

 1. Wikipedia ber skyldu til lesenda sinna að veita aðgang að traustum upplýsingum og því reiðum við okkur einungis á trúverðugar og viðurkenndar útgefnar heimildir. Sjá „Traustar heimildir“ um nánari upplýsingar um hvernig meta skal hvort heimild sé traust.
 2. Trúverðugar heimildir veita lesendum aðgang að efni sem hann getur stuðst við í eigin rannsóknum. Þegar öllu er á botninn hvolft leitar fólk fyrst í alfræðirit til að lesa sér til um eitthvað, það leitar ekki þangað síðast.
 3. Þegar stuðst er við heimildir sem vísað er í er auðsjáanlegra hvaða sjónarmið búa að baki greininni og þannig hjálpar það okkur að standa vörð um hlutleysisregluna.
 4. Heimildanotkun gæti einnig hvatt nýja notendur til að leggja sitt af mörkum. Til dæmis gæti einhver viljað bæta við efni greinar ef viðkomandi veit um mikilvæga heimild sem greinin hefur ekki stuðst við.

Framlag sérfræðinga[breyta frumkóða]

Reglan um engar frumrannsóknir þýðir ekki að sérfræðingur um tiltekið efni geti ekki lagt sitt af mörkum til Wikipediu. Þvert á móti býður Wikipedia sérfræðinga velkomna. Við gerum hins vegar ráð fyrir að einhver sé sérfræðingur ekki aðeins vegna beinnar þekkingar á viðfangsefninu, heldur einnig vegna þess að viðkomandi býr yfir mikilli þekkingu á útgefnum heimildum um efnið. Reglan meinar sérfræðingum að byggja á eigin reynslu af efninu og uppgötvunum ef slík þekking er ekki sannreynanleg. Hafi sérfróður greinarhöfundur gefið niðurstöður sínar út annars staðar, í traustri heimild, þá getur viðkomandi vísað í heimild fyrir efninu en skrifað greinina í þriðju persónu og þar með uppfyllt skilyrðin um hlutleysi. Það verður að vísa í áreiðanlegar heimildir sem þriðji aðili gefur út og ekki er tækt að greinarhöfundur, þótt sérfróður sé, leggi til óútgefnar niðurstöður sem byggja á hans eigin þekkingu og sem ómögulegt er að sannreyna. Við vonumst til að sérfróðir greinarhöfundar komi til með að byggja á þekkingu sinni á útgefnum heimildum til þess að bæta greinarnar og hafi í huga að sérfræðingar njóta ekki sérréttinda á Wikipediu.

Hvernig á að skrifa um kenningar á Wikipediu[breyta frumkóða]

Um kenningar:

 1. Setjið fram lykilhugtökin;
 2. Setjið fram þekktar og vinsælar hugmyndir og greinið frá almennu „samkomulagi“ eða almennt viðurkenndu og útbreiddu sjónarmiði og gætið þess að það komi skýrt fram hvaða sjónarmið eru viðurkennd eða útbeiddust og hver eru minnihlutasjónarmið; ekki er nauðsynlegt að gera mjög lítt þekktum minnihlutasjónarmiðum skil.

Lítt þekkt nýyrði og hugmyndir einnar manneskju sem er ekki vel kunnur sérfræðingur eða hugmyndir lítilla hópa slíks fólks eiga ekki heima á Wikipediu.

Hvað er traust og viðurkennd heimild?[breyta frumkóða]

Traust og viðurkennd heimild getur meðal annars verið ritrýnt tímarit, bækur gefnar út af þekktu háskólaforlagi eða öðru þekktu forlagi sem gefur út fræðilegt efni og ritraðir gefnar út af almennu forlagi sem hefur gott orðspor fyrir útgáfu á vönduðu efni.

Ef ekki er um fræðilegt viðfangsefni að ræða er ómögulegt að gera nákvæma grein fyrir því hvað teljist „góð“ eða „viðurkennd“ heimild. Almennt höfum við flest góða hugmynd um hvað átt er við. Í mörgum tilfellum væri tímarit eða fréttayfirlýsing gefin út á vegum öfgaafla í stjórnmálum eða trúmálum ekki „viðurkennd“ eða „góð“ heimild. Til dæmis myndi Wikipedia ekki styðjast eingöngu við grein í dagblaði sem sósíalískur verkamannaflokkur gæfi út um að Bandaríkjaforseti væri samkynhneigður. Ef sama fullyrðing væri hins vegar birt í The New York Times, þá gæti Wikipedia vísað í blaðagreinina (en ef til vill ekki í heimildina fyrir blaðagreininni). Dagblað sem er málgagn stjórnmálaafls mætti hins vegar nota sem heimild um stjórnmálaaflið sjálft.

Spurðu þig nokkurra spurninga þegar þú metur útgefið efni. Er blaðið málgagn einhvers? Er lesendahópurinn stór eða lítill? Er þetta slúðurrit? Er það gefið út af einni manneskju eða eru fastráðnir starfsmenn margir? Virðist það styðjast við einhvers konar ritrýni eða færðu á tilfinninguna að það leyfi ýmsu að flakka? Ef þú kæmist á snoðir um að blaðið hygðist birta neikvæða grein um þig, myndirðu þá (a) verða skelfingu lostinn af því að þig grunar að þeir séu kærulausir og ábyrgðarlausir og gangi ekki úr skugga um að staðreyndir séu réttar; eða (b) halda ró þinni vegna þess að hjá blaðinu starfa allnokkrir ritstjórar, lögfræðingar og fólk sem rannsakar málið og að yfirritstjóri eða útgefandi leiðrétti venjulega villur? Ef (a), ekki styðjast við heimildina. Ef (b), þá er þetta það sem Wikipedia kallar „góða“ heimild.

Þegar upp kemur ágreiningur um hvort heimild sé góð geturðu reynt að fá fleiri notendur Wikipediu í umræðuna og reynt að ná samkomulagi. Það er engin skýr skilgreining en ekki hundsa innsæi þitt.

Nýjar ljósmyndir[breyta frumkóða]

Ljósmyndir hafa verið almenn undantekning frá reglunni um engar frumrannsóknir. Höfundar Wikipediu hafa ætíð verið hvattir til að taka myndir eða teikna, hlaða þær inn og gefa þær lausar undan höfundarrétti (GFDL), til að myndprýða greinar. Þetta er vel séð af nokkrum ástæðum:

 • Myndir eru almennt notaðar til skýringar og jafngilda ekki áður óþekktum hugmyndum eða rökum; en það er meginástæðan fyrir reglunni um engar frumrannsóknir.
 • Vegna höfundarréttarlaga í mörgum löndum og afleiðingar þeirra fyrir uppbyggingu nýs frjáls alfræðirits eru tiltölulega fáar myndir sem hægt er að nýta. Myndir frá notendum Wikipediu fylla í þetta skarð.

Skyldar reglur og leiðbeiningar[breyta frumkóða]

Sannreynanleikareglan[breyta frumkóða]

Sannreynanleikareglan og reglan um engar frumrannsóknir styrkja hver aðra með því að fara fram á að einungis staðreyndir, fullyrðingar, kenningar, hugmyndir, skoðanir og rök sem hafa áður birst í traustri heimild megi birta á Wikipediu. Þröskuldurinn fyrir efni á Wikipediu sannreynanleiki, ekki sannleikur.

Sjá sannreynanleikaregluna og heimildanotkun.

Hlutleysisreglan[breyta frumkóða]

Bannið við nýjum rannsóknum takmarkar möguleika greinarhöfunda á að setja fram eigin sjónarmið í greinum. Því styrkir reglan um engar frumrannsóknir hlutleysisregluna.

Á spjallsíðum og öðrum síðum Wikipediu[breyta frumkóða]

Líkt og flestar reglur Wikipediu gildir reglan um engar frumrannsóknir um greinar en ekki spjallsíður eða aðrar síður verkefnisins, enda þótt það þyki slæm latína og smekklaust að vera að ræða eigin kenningar á spjallsíðum.

Tengt efni[breyta frumkóða]


Wikipedia samfélagið
Potturinn | Samfélagsgátt | Gátlistinn | Handbókin
Reglur: Hlutleysisreglan | Sannreynanleikareglan | Engar frumrannsóknir |

Æviágrip lifandi fólks | Máttarstólpar Wikipedia | Markvert efni

Önnur stefnumál: Nafnavenjur | Flokkakerfið | Viðhald | Deilumál | Framkoma á Wikipediu
Notendur: Möppudýr | Vélmenni | Hver erum við? | Notendur eftir breytingafjölda | Notendakassar
Annað: Samvinna mánaðarins | Tillögur að úrvalsgreinum | Tillögur að gæðagreinum | Merkisáfangar | Hugtakaskrá