Fara í innihald

Veröld – hús Vigdísar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Veröld – hús Vigdísar er ein af byggingum Háskóla Íslands. Húsið stendur við Brynjólfsgötu 1 í Reykjavík og hýsir kennslustofur, skrifstofur kennara í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Vigdísarstofnun sem er alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar og er starfrækt með samkomulagi íslenskra stjórnvalda og UNESCO Menningar- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna.[1]

Húsið er kennt við Vigdísi Finnbogadóttur fyrrverandi forseta Íslands og velgjörðarsendiherra tungumála hjá Sameinuðu þjóðunum en Vigdís var einn helsti hvatamaður að byggingu hússins ásamt Auði Hauksdóttur prófessor í dönsku við Háskóla Íslands og forstöðumanni Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.

Í upphafi árs 2012 var efnt til samkeppni um hönnun hússins og varð tillaga arkitektastofunnar Arkitektur.is hlutskörpust.[2] Vigdís Finnbogadóttir, Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra og Kristín Ingólfsdóttir þáverandi rektor Háskóla Íslands tóku fyrstu skóflustunguna að byggingunni á alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann 8. mars 2015 og í kjölfarið hófust byggingaframkvæmdir.[3] Framkvæmdum miðaði vel og lögðu Vigdís Finnbogadóttir og Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands hornstein að byggingunni þann 19. júní 2016[4] en byggingin var formlega tekin í notkun á sumardaginn fyrsta árið 2017. Heiti hússins, „Veröld – hús Vigdísar“, var valið í kjölfar nafnasamkeppni sem efnt var til í aðdraganda vígslu hússins.[5]

Í nóvember árið 2018 voru arkitektar hússins tilnefndir til Evrópsku byggingarlistaverðlaunanna 2019 - EU Mies Award 2019, fyrir hönnun sína á Veröld. Í hönnunarteymi hússins voru arkitektarnir Kristján Garðarsson, Haraldur Örn Jónsson, Gunnlaugur Magnússon og Hjörtur Hannesson.[6] Fyrir utan húsið er bílastæði merkt Vigdísi Finnbogadóttur.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Hi.is, Veröld – hús Vigdísar (skoðað 7. maí 2019)
  2. Mbl.is, „Arkitektúr.is átti vinningstillöguna“, 16. maí 2012, (skoðað 7. maí 2019)
  3. Mbl.is, „Fyrsta skóflustunga að Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur“, 6. mars 2015, (skoðað 7. maí 2019)
  4. Dv.is, „Hornsteinn lagður að Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur“, 19. júní 2015, (skoðað 7. maí 2019)
  5. Mbl.is, „Byggingin nefnd Veröld – hús Vigdísar“, 18. apríl 2017, (skoðað 7. maí 2019)
  6. Hi.is, „Veröld – hús Vigdísar tilnefnt til Evrópsku byggingarlistaverðlaunanna 2019“, 7. nóvember 2018, (skoðað 7. maí 2019)