Veðkall
Veðkall (enska: margin call) er það kallað þegar sá sem veitir lán til verðbréfakaupa með veði í verðbréfunum sjálfum, þarf að kalla eftir auknum tryggingum fyrir láninu vegna þess að hin undirliggjandi eign, þe. verðbréfin, hafa fallið í verði. Í svona samningum er gjarnan gert ráð fyrir því að veðhlutfallið sé allt að 150% af upphæð lánsins og ef það fer niður fyrir 125% þurfi lántaki að afla aukinna trygginga.
Ef lántaki getur ekki aflað aukinna trygginga getur lánveitandi gripið til þvingaðrar sölu, þ.e. selt hina undirliggjandi eign og gert upp lánssamninginn með söluandvirðinu.
Veðsetningar og kaup á verðbréfum af þessu tagi eru oft kallaðir framvirkir samningar.
Dæmi
[breyta | breyta frumkóða]Jón á hlutabréf í fyrirtækinu A hf að markaðsvirði 1 milljón. Hann vill gjarnan ,,gíra upp" þessa eign sína með framvirkum samning um kaup á hlutabréfum í fyrirtækinu B hf uppá 2 milljónir. Hann setur hlutabréfin í A hf. að veði svo og hlutina í B hf. Veðið er því uppá 3 milljónir fyrir láni uppá 2 milljónir, þ.e. veðhlutfallið er 150%. Nú fellur verð hlutabréfa í A og B hf. um 30%, þ.e. markaðsvirðið er orðið 2,1 milljónir. Veðhlutfallið er aðeins 105% og Jón má fara að eiga von á veðkalli fá lánveitanda sínum.
Á Íslandi
[breyta | breyta frumkóða]Frá 10. október 2007 og framtil 27. nóvember 2007 féll verð hlutabréfa í íslensku kauphöllinni um næstum 21%. Talið er að íslensku bankarnir hafi í kjölfarið þurft að eiga u.þ.b. 600 veðköll og að á þeim tíma hafi allt að þriðjungur hlutabréfa verið veðsettur.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- mbl.is, 28.11.2007, Sex hundruð veðköll í nóvember - skoðað 30. nóvember 2007