Fara í innihald

Orrustan í Þjóðborgarskógi

Hnit: 52°24′29″N 8°07′44″A / 52.408°N 8.129°A / 52.408; 8.129
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Varusarbardaginn)
Orrustan í Þjóðborgarskógi
Hluti af herförum Rómverja í Germaníu (12 f.Kr. – 16 e.Kr.)

Málverk af orrustunni í Þjóðborgarskógi eftir Otto Albert Koch (1909)
Dagsetning8.11. september 9
Staðsetning
Líklega nálægt Kalkriese í Neðra-Saxlandi[1]
52°24′29″N 8°07′44″A / 52.408°N 8.129°A / 52.408; 8.129
Niðurstaða Sigur Germana
Stríðsaðilar
Bandalag ýmissa þjóðflokka Germana Rómverska keisaradæmið
Leiðtogar
Arminíus Publius Varus 
Fjöldi hermanna

18.000–30.000:[2]

  • Angrivarii: 5,000[3]
  • Bructeri: 8,000[3]
  • Cherusci: 8,000[3]
Líklega frekari mannafli frá öðrum ættbálkum[3]
Mat er á reiki: 14.000–22.752[4][5]
Mannfall og tjón
5.000 16.000–20.000 drepnir[6][7][a]

Orrustan í Þjóðborgarskógi eða orrustan í Teftóborgarskógi, einnig kölluð Varusarbardaginn, var orrusta sem háð var á milli hersveita Rómaveldis undir forystu herforingjans Publiusar Varusar og bandalags Germana undir forystu Arminíusar árið 9. Orrustan, sem háð var í Þjóðborgarskógi í Þýskalandi nútímans, fór þannig að Germanir gersigruðu Rómverja og tortímdu nánast öllum her þeirra. Þessi ósigur markaði þáttaskil í sögu Evrópu þar sem hann stöðvaði varanlega útþenslu Rómaveldis inn í Germaníu og kom í veg fyrir frekari landvinninga þeirra í norðurhluta álfunnar.

Á valdatíma Ágústusar keisara á fyrstu áratugunum eftir stofnun rómverska keisaradæmisins lágu austanverð landamæri yfirráðasvæðis Rómverja í Gallíu við Rínarfljót. Austan fljótsins bjuggu þjóðflokkar Germana, sem gerðu gjarnan árásir yfir landamærin til að herja á og ræna rómverk yfirráðasvæði. Ágústus vildi binda enda á þetta ástand með því að leggja Germaníu undir Rómaveldi og færa landamærin frá Rín til Saxelfar.[8] Þannig hugðist Ágústus stytta landamæralínuna og gera varnir hennar auðveldari.[9]

Ágústus fól því stjúpsyni sínum, Drúsusi, sem var þá landstjóri í Gallíu, að friða Germani og leggja lönd þeirra undir Rómaveldi. Ættbálkar Germana áttu í stöðugum deilum sín á milli, sem Rómverjar notfærðu sér með því að deila og drottna milli þeirra. Drúsus náði til Saxelfar árið 9 f.Kr. og lét reisa rómverskt sigurminnismerki, en á leið aftur til Gallíu féll hann af hesti sínum og lést. Eftir dauða Drúsusar var bróðir hans, Tíberíus, sendur til að brjóta Germaníu til hlýðni við Rómaveldi. Tíberíus gerði gerði út mikla hernaðarleiðangra til Germaníu á árunum 8. f.Kr. til 4. e.Kr. og tókst svo vel upp að ljóst þótti að Germanía hefði verið friðþægð og hægt væri að flytja landamærin varanlega til Saxelfar.[10]

Árið 7 e.Kr. var maður að nafni Publius Quinctilius Varus skipaður landstjóri Rómverja í Germaníu. Hann hafði áður verið skattlandsstjóri í Sýrlandi og þótti harður í horn að taka. Varus lagði þunga skatta og ýmsar kvaðir á Germani og uppskar því töluverðar óvinsældir.[10] Hann tók við stjórn rómverska Rínarhersins, sem skipaður var fimm hersveitum. Sumir ættbálkar Germana höfðu þegar gengið til liðs við Rómverja. Einn þeirra var Arminíus, höfðingi Kerúska, sem var yfirmaður germanskra aðstoðarsveita og hafði rómverskan borgararétt.[11]

Þegar Arminíus sneri heim úr þjónustu Rómverja leist honum illa á hvernig rómversk yfirráð höfðu leikið heimaland hans. Hann fór því að leggja á ráðin ásamt vinum sínum og öðrum germönskum höfðingjum um það hvernig mætti hrekja Rómverja frá Germaníu. Árið 9 e.Kr. bárust Varusi landstjóra fregnir af því að Germanir hefðu hafið uppreisn. Hann lagði af stað frá vetrarbúðum sínum við Rínarfljót og skipaði Arminíusi að fylgja sér ásamt nokkrum öðrum germönskum höfðingjum í þjónustu Rómaveldis. Arminíus og hinir germönsku fylgdarmennirnir fylgdu her Varusar til Þjóðborgarskógar, en létu sig þá hverfa. Arminíus hafði þannig lagt á ráðin um að rómverski herinn yrði innlyksa í skóginum og umkringdur germönskum ættbálkum.[10]

Arminíus var vel kunnugur hernaðaraðferðum Rómverja og vissi því að til þess að sigra þá yrði að forðast að gera beina árás. Þess vegna hafði hann lokkað rómverska herinn eftir hliðarvegum og stýrt skæruhernaði úr runnum og kjörrum til að veikja hann.[11] Germanir lágu í launsátri og gerðu árás á Rómverja þegar þeir voru komnir inn í mitt myrkviðið í Þjóðborgarskógi. Germönsku stríðsmennirnir gerðu árás á her Verusar úr öllum áttum á sama tíma og mikið óveður skall á svo rómverski herinn átti erfitt með viðnám. Bardaginn hélt áfram með hléum í um þrjá daga og var mótspyrnu Rómverja þá að mestu lokið. Germanir drápu mikinn meirihluta rómverska hersins, eða um þrjár legíónir (um 12.000 menn) í heild sinni. Aðrir liðsmenn Rómverja voru reknir á flótta eða handsamaðir, hnepptir í þrældóm eða þeim fórnað.[10]

Varus sjálfur særðist í bardaganum. Þegar hann sá að orrustan var töpuð og her hans að tortímast batt hann enda á eigið líf með því að falla á sverð sitt. Mönnum hans tókst ekki að grafa líkið, heldur hjuggu Kerúskar höfuðið af búknum og höfðu með sér.[12]

Fréttirnar af ósigrinum í Þjóðborgarskógi og gereyðingu rómversku hersveitanna vöktu mikla sorg og ótta í Rómarborg. Sagt er að Ágústus keisari hafi verið svo yfirkominn af harmi að hann hafi ekki látið raka skegg sitt eða skera hár sitt í marga mánuði. Hann hafi stundum slegið höfðinu í hurð salar síns í örvinlan og hrópað: „Varus! Varus! Skilaðu aftur hersveitunum mínum!“[10]

Eftirmálar og síðari áhrif

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir ósigurinn í Þjóðborgarskógi var Tíberíus fyrst sendur til aftur til Germaníu til að stöðva sókn Germana vestur og koma á friði. Að endingu varð niðurstaðan þó sú að Ágústus ákvað að færa landamærin aftur að Rín og hætta við fyrirætlanir um að gera Germaníu að rómversku skattlandi. Orrustan í Þjóðborgarskógi tryggði því að Germanir urðu aldrei innlimaðir í Rómaveldi.[10]

Á 19. öld varð minningin um Arminíus og orrustuna í Þjóðborgarskógi mikilvægur hluti af þýskri þjóðernishyggju. Hermannssúlan í Þýskalandi var vígð árið 1875 til að heiðra Arminíus sem þýska þjóðhetju.[13]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Fergus M. Bordewich, "The Ambush that Changed History", Smithsonian september 2005, bls. 34.
  2. McNally 2011, bls. 23.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 McNally 2011, bls. 26.
  4. Powell 2014, bls. 28.
  5. McNally 2011, bls. 21.
  6. Wells 2003, bls. 187.
  7. Kevin Sweeney, Scholars look at factors surrounding Hermann’s victory Geymt 14 júlí 2011 í Wayback Machine
  8. Jón R. Hjálmarsson (1. febrúar 2007). „Orrustan í Teftóborgarskógi“. Heima er bezt. bls. 84–85.
  9. Jón R. Hjálmarsson (9. mars 1958). „Orrustan í Teftóborgarskógi“. Lesbók Morgunblaðsins. bls. 125–126.
  10. 10,0 10,1 10,2 10,3 10,4 10,5 Jón Hjálmarsson (5. febrúar 1967). „Orrustan í Teftóborgarskógi“. Tíminn. bls. 100–103.
  11. 11,0 11,1 „Germanir gersigruðu rómverskan her árið 9“. Tíminn. 21. nóvember 1991. bls. 8–9.
  12. Siglaugur Brynleifsson (23. ágúst 1997). „Germanía og Germanir: Friðarspillar úr þokulandinu“. Lesbók Morgunblaðsins. bls. 8–10.
  13. Þorsteinn Thorarensen (1982). Veraldarsaga Fjölva 7. Fjölvi. bls. 160.

Neðanmálsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Næstum gervöllum hernum var tortímt, sumir kunna að hafa verið hnepptir í þrældóm, fáeinir rómverskir dátar komu sér undan inn á rómverskt yfirráðasvæði