Fálki
Fálki | ||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Íslenskur fálki (Falco rusticolus islandicus)
| ||||||||||||||
Ástand stofns | ||||||||||||||
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||
| ||||||||||||||
Tvínefni | ||||||||||||||
Falco rusticolus Linnaeus, 1758 |
Fálki (eða valur) (fræðiheiti: Falco rusticolus) er stór ránfugl í fálkaættkvíslinni sem heldur til í freðmýrum og fjalllendi sem og við strendur og eyjur á Norðurslóðum. Fálkar geta náð 60 cm lengd og vænghaf þeirra getur orðið 130 cm. Lögun og gerð vængja fálka gerir þeim kleift að fljúga óhemju hratt. Á miðöldum voru fálkar taldir fuglar konunga. Þeir eru notaðir í sérstaka íþrótt, fálkaveiðar, sem var áður fyrr nánast eingöngu stunduð af konungum og aðli og voru slíkir fálkar nefndir slagfálkar.
Íslenski fálkinn (fræðiheiti: Falco rusticolus islandicus) er ein deilitegund fálka. Önnur deilitegund er hvítfálkinn (Falco rusticolus candicans) sem verpir meðal annars á Grænlandi.
Fálkar á Íslandi
[breyta | breyta frumkóða]Hann er staðfugl á Íslandi. Talið er að 300 - 400 pör af fálkum verpi á Íslandi. Aðalfæða fálka er rjúpur en hann veiðir einnig endur, svartfugla og vaðfugla. Erlendis lifa fálkar einnig á litlum nagdýrum svo sem læmingjum. Í árum sem lítið er um rjúpur fækkar fálkum. Kjörsvæði fálka eru opin svæði. Þeir gera ekki hreiður heldur verpa beint á klettasyllur og nota oft gamla hrafnslaupa. Fálkar verpa oftast 3–4 eggjum. Eggin eru 5 vikur að klekjast út og ungarnir eru 7 vikur í hreiðrinu. Eftir það annast foreldrarnir þá í 3 vikur í viðbót en svo verða þeir að bjarga sér sjálfir. Ungarnir flakka um landið þangað til þeir verða tveggja til fjögurra ára en þá setjast þeir að á eigin varpstað. Fullorðnir fálkar dveljast allt árið á óðali sínu. Talið er að allt að fjórðungur af Evrópustofni fálka verpi á Íslandi. Fálkar eru alfriðaðir á Íslandi. Náttúrufræðistofnun fylgist með stofnbreytingum fálka. Mælingar frá 2021 til 2024 sýndu að mikil fækkun var í stofninum. [1]
Annað nafn íslenska fálkans er valur. Mögulega kemur það nafn af upprunalegri merkingu þess orðs sem er vopndauði (sbr. að „liggja í valnum“, enda fálkinn mikið veiðidýr og liggur veiðibráð fálkans oftast í valnum.
Valur kemur líka fyrir í norrænni goðafræði, þar sem Freyja, vanadís og frjósemisgyðja, átti valsham, sem hún lánaði Loka þegar endurheimta þurfti Hamar Þórs, Mjölni, frá Þursum.
Samheiti
[breyta | breyta frumkóða]Fálkinn á sér mörg samheiti. Hann hefur t.d. verið nefndur fjörsungur, forseti, geirfálki (sem er gamalt heiti á fálkanum) og gollungur.
Sjá einnig
[breyta | breyta frumkóða]Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- „Náttúrufræðistofnun - Fálkarannsóknir“. Sótt 4.mars 2006.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Gyrfalcon“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 4. mars 2006.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Veiðihaukar; 1. grein í Lesbók Morgunblaðsins 1932
- Veiðihaukar; 2. grein í Lesbók Morgunblaðsins 1932
- Veiðihaukar; 3. grein í Lesbók Morgunblaðsins 1932
- Veiðihaukar; 4. grein í Lesbók Morgunblaðsins 1932
- Veiðihaukar; 5. grein í Lesbók Morgunblaðsins 1932
- Fálkahúsið og fálkaverslun konungs; 1. grein í Lesbók Morgunblaðsins 1967
- Fálkahúsið og fálkaverslun konungs; 2. grein í Lesbók Morgunblaðsins 1967
- Stórpólitísk fuglaveiði; grein í Tímanum 1987
- ↑ Mikil fækkun fálka Ni.is