Fara í innihald

Fálkaveiðar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Myndskreyting frá fálkaveiðum á 13. öld

Fálkaveiðar eru veiðar villtra fugla með aðstoð sérþjálfaðra fálka og annara ránfugla. Fálkaveiðar voru áður nær eingöngu stundaðar af konungum og aðalsmönnum. Víða um heim, sérlega í Asíu, hafa margar tegundir ránfugla verið notaðar til veiða, ernir, haukar og margar tegundir fálka.

Vegna mikilvægis fálka í útflutningi Íslands fyrr á öldum var mynd af fálka skjaldarmerki Íslands á árunum 1904-1918.

Þúsundir ára af fálkaveiðum

[breyta | breyta frumkóða]

Fálkaveiðar hafa verið stundaðar í þúsundir ára, en ekki er vitað fyrir víst hvar hún hófst, né á hvaða tímabili, en margar þjóðir í Evrópu, Asíu og Norður-Afríku hafa lagt stund á hana.[1] Þó er talið sennilegt að hún hafi átt uppruna sinn í Asíu, líklega í Mongólíu, þar sem mikið er um víðfeðmar sléttur og eyðimerkur, en opið landslag hentar sérstaklega vel til slíkra veiða, ólíkt þéttu skóglendi og votlendi sem einkennir stóra hluta Evrópu. Hjá flestum fjallaþjóðum Asíu hafa veiðar með fálkum verið stundaðar í árþúsundir. [2] Ì fyrstu ferðasögum Evrópumanna um Kína og Indland er lýst fálkaveiðum, sem voru stundaðar voru af keisurum og konungum. Elstu rituðu heimildir sem til eru um fálkaveiðar eru frá Kína og ná aftur til um 2000 fyrir Krist. Haft er eftir Marco Polo lýsing á veiðiferð Kublai Khan Kínakeisara, sem fór i burðarstóli bornum af 4 fílum og hafði hjá sér i burðarstólnum 12 hina bestu fálka. Hafði keisarinn með sér í ferðinni 5.000 fálkaveiðimenn og 10.000 umsjónarmenn um veiðifálkana.[3] Óvíst er um sannleiksgildi og áreiðanleika þessara frásagna.

Fálkaveiðar í Evrópu

[breyta | breyta frumkóða]
Friðrik 2. keisari með fálka
Friðrik 2. keisari með fálka

Óvíst er hvenær veiðar með fálkum fór að tíðkast í Evrópu en það fyrst þegar Arabar fluttu hana með sér vestur með norðurströndum Afríku og til Suður-Spánar allt frá 8. öld sem þessi veiðiaðferð náði útbreiðslu meðal konunga- og furstahirða í Evrópu. Orðstír fálkaveiða meðal Vesturlandabúa jókst einnig mjög með kkrossferðunum. Arabar og Tyrkir voru miklir fálkaveiðimenn og þegar hinir kristnu krossfarar urðu þess varir, að »hinir vantrúuðu« höfðu stór og vel meðfarin fálkabúr og fálkahús og stunduðu veiðina af þekkingu og list, þá vildu krossfararnir ekki standa þeim að baki. Þjóðhöfðingar um mest alla Evrópu keptust um að eiga sem mest og best fálkabúr, og ritaðar voru bækur um fálkaveiðar, þjálfun fálka og umhirðu. Eitt þekktasta og áhrifamesta rit um fálkaveiðar var skrifað af Friðriki II. keisara í hinu Heilaga rómverska ríki (f. 1190 — d. 1250) og hét De arte venandi cum avibus (Um listina að veiða með fuglum). Hann hafði ferðast víða áður en hann varð keisari og tók meðal annars þátt í 6. krossferðinni og kynntist þar fálkaveiðum Araba. Í bókinni skrifar hann um bættar aðferðir við að veiða með fálkum, hvernig best væri að temja þá og hvernig helst ætti að veiða þá sjálfa. Friðrik getur þess í áðurnefndu riti hans, að islenskir fálkar séu öllum öðrum betri.[4]

A miðöldum þótti veiði með fálkum hin göfugasta skemtun aðals og konungsfólks í Evrópu, konum jafnt sem körlum. Fólki af lægri stéttum var bannaðað stunda þessar veiðar að viðlögðum hörðum refsingum. En það var reyndar ekki öðrum fært en þeim mikil fjárráð að stunda fálkaveiða því að veiðifálkarnir voru mjög dýrir og að halda þá ekki síður kostnaðarsamt, því að þeir þurftu gott fæði og mikið og kunnáttumenn þurftu að sjá um þá.

Mongólskur fuglaveiðimaður með veiðiörn
Mongólskur fuglaveiðimaður með veiðiörn

Í bardaganum um Nikopolis í einni af síðustu krossferðunum seint á fjórtándu öld handtók tyrkneski súltáninn Beyezid son Filippusar hins djarfa, konungs Frakklands. Filipus bauð 200.000 gulldúkata sem lausnargjald en Beyezid hafnaði tilboðinu. Þess í stað krafðist Beyezid að fá tólf hvíta fálka sem voru mikil meiri verðmæti.[5]

Magnús lagabætir Hákonarson Noregskonungur sendi árið 1276, átta gráa og þrjá hvíta fálka sem friðargjöf til Játvarðs 1. Englandskonungs. Þetta var vinargjöf sem tákn um samstöðu gegn Noregs og Englandskonunga geng Skotum.[6]

Verslun í Evrópu með veiðifálka var mikil og mjög arðbær og fálkar voru í hávegum hafðar sem gjafir milli þjóðhöfðingja lang fram eftir öldum. Margar heimildir eru um að íslenskir fálkar voru mjög eftirspurðir á 14., 15. og 16. öld um alla Evrópu og í Tyrkjaveldi.

Fálkaveiðar náðu hátindi í Evrópu á 17. öld, en en töpuðu vinsældum, sérstaklega seint á 18. og 19. öld, meðal annars þar sem skotvopn urðu valkostur til veiða.[7]

Franska byltingin í lok 18. aldar og þær stjórnarfarslegu breytingar sem fylgdu í kjölfarið, urðu til þess að lítið var eftir af aðalsfólki til að stunda íþróttina í álfunni.

Ísland og fálkaveiðar

[breyta | breyta frumkóða]
Íslenskur fálki
Íslenskur fálki

Fálkar voru útflutningsafurð frá Íslandi frá miðöldum fram til 1800. Það hefur ekki liðið á löngu frá landnámi þar til fálkar frá Íslandi urðu þekktir meðal þeirra sem stunduðu fálkaveiði, enda eru valir í Grágás taldir meðal verðmætra fugla með álftum og gæsum, sem óheimilt var að veiða í annars manns landi[8]. En hin fyrstu rök þess, að íslenskir fálkar voru dýrmætir gripir, mun í íslenskum ritum vera að finna í ræðu Einars Þveræings [9], þar sem hann telur meðal þeirra hluta, sem senda mætti Ólafi konungi væru haukar, það er að segja fálkar.

Í Flateyjarbók er sagt að árið 985, hafi Hákon Jarl gengist inn á að greiða Haraldi Blátönn 100 gullmörk og 60 veiðifálka sem árlegt gjald fyrir leigu fyrir hluta Noregs.

Á þrettándu öld lét Hákon gamli Noregskonungur fanga fyrir sig íslenska fálka til þess að senda þjóðhöfðingjum að gjöf, en Hinrik III Englandskonungur hélt sérstaklega upp á þá. Taldi hann íslenska fálka „dýrmætari gulli og silfri.“[10]

Danakonungar sem réð yfir bæði Íslandi og Noregi frá 1376 voru þekktir fyrir gjafir fálka til erlendra höfðingja. Á 18. öld voru til dæmis fálkar fimm sinnum sendir til sóldánsins í Marokkó. Heimildir segja að frá 15. til lok 18. aldar hafi Danakonungar sent fálka sem gjöf til fleiri en fimmtíu mismunandi þjóðhöfðingja og ráðamanna, flestir þessara fálka komu frá Íslandi. Samkvæmt heimildum var árið 1774 besta fálkaveiðiár Íslandi, en þá voru 210 fuglar sendir til Danmörku. Af þessum fóru fimmtíu fálkar til Frakklandskonungs, 30 til þýska keisarans, 60 til konungs Portúgals, 20 til landgreifans í Hesse og 2 til franska sendiherrans í Kaupmannahöfn. Fredrik 5. Danakonungur hélt þeim sem eftir voru.[11]

Förufálki í eign konungsins í Marokkó
Förufálki í eign konungsins í Marokkó

Fálkagjafir Danakonungs til Frakklands héldu áfram þar til Lúðvík 16. var tekinn af lífi og fálkaráðið í Versölum var afnumið 1793. Síðasta skiptið sem sóldáninn í Marokkó tók á móti íslenskum fálkum var árið 1798 og portúgalski konungurinn árið 1806.

Til þess að Danakonungur gæti haft stjórn og eftirlit með fálkaveiði á Íslandi var landinu skift í fálkaveiðaumdæmi og fálkafangari skipaður fyrir hvert umdæmi, og mátti enginn veiða í annars umdæmi. Var það virðingarheiti að vera fálkafangari. Um miðja 18. öld voru greiddir 5-15 ríkisdalir fyrir hvern fálka eftir lit og gæðum. Hvítir fálkar voru verðmestir. Umdæmin voru lengstum 10 að tölu, en stærð þeirra var þó ekki ávalt hin sama, öðrum skift en hin stækkuð eftir því sem tímar liðu. Fangaðir fálkar þurftu mikla umönnun og mikið fóður. Mikið magn af nauta- og kindakjöti var keypt árlega til þess að fóðra fálkana.[12] Það var líka ljóst að það þurfti að hafa þá í sérútbúnu húsnæði.

Fyrsta fálkahúsið var reist á Bessastöðum 1750 til þess að hýsa fálkana meðan beðið væri þess að þeir væru fluttir út til Danmerkur. Fimmtán árum síðar var það tekið niður, flutt til Reykjavíkur og endursmíðað á lóðinni við Hafnarstræti 1 – 3 og var það kallað Fálkahúsið. Talið var að húsið hafi getað geymt rúmlega 200 fálka.[13] Á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi var einnig fálkahús en óvíst er hvenær það var byggt og notað. [14]

Drottning Sophie Amalie með Hvítfálka
Drottning Sophie Amalie með Hvítfálka

Að undilagi Sophie Amalie drottningu voru mikil fálkahús byggð í Kaupmannahöfn um 1650. Þegar Kristján 5. var enn krónprins lét hann byggja enn þá stærri fálkhús 1670. Þar var mikið starfsfólk, tamningamönnum, veiðimeisturum og Yfirmeistari fálkaveiða. Síðast talda embætti var eitt hið virðulegasta embætti danska ríkisins. Þegar fálkaveiði stórminkaði og nánast hvarf í lok 18. aldar hætti útfluttningur fálka frá Íslandi. Þegar Englendingar skutu á borgina ár 1807 dóu síðustu 2 fálkarnir úr hungri í fálkahúsinu í Kaupmannahöfn.[15]

Þjálfun og veiði

[breyta | breyta frumkóða]
Veiðifálki skilar bráðinni
Veiðifálki skilar bráðinni

Fálkarnir voru annað hvort teknir úr hreiðrum sem ungar, eða veiddir í netagildrur þar sem rjúpa var notuð sem agn. Fuglar som voru fangaðir fullorðnir þóttu bestir til veiða. Þegar fuglinn hafði verið fangaður þurfti að venja hann við umgengni manna og hið nýja umhverfi og eins hunda sem gætu verið notaðir við veiðarnar. Til þess var meðal annars sett sérstök hetta á höfðuð fuglsins sem náði yfir augu meðan hann var að venjast. Af klónum var einnig klippt lítið eitt og vængirnir bundnir, svo að fuglinn gat ekki flogið. Eftir því sem fuglinn vandist meðferðinni var honum gefið meira frelsi og tekið að venja hann smátt og smátt að hlýða skipunum til veiðanna, fyrst innanhúss í stórum skálum og svo úti. Í byrjun er fuglinn bundinn í langa línu þegar hann ræðst á tálbeitu og er honum gefið góðgæti þegar hann snýr aftur til þjálfaranns. Þegar fuglinn er orðinn vel þjálfaður þarf ekki lengur að hafa hann bundinn.

Veiðimaðurinn lætur fálkann sitja á vinstra armi sínum, þegar farið er í veiðar en mjúkar og grannar leðurreimar voru festar í hringjum um annan fót fuglsins, en i hinn enda reimarinnar heldur veiðimaðurinn. Enginn veiðimaður bar nema einn fálka. Þegar bráðin er sýnileg var hettan þrifin í snatri af höfði fálkans, reimin losuð og honum kastað í skyndingu í áttina að bráðinni. En til þess að kasta fálkanum þarft bæði afl og leikni. Ef allt gengur að óskum drepur fuglinn bráðina og snýr aftur til veiðimannsins með hana.

Nútíma fálkaveiði

[breyta | breyta frumkóða]

Vinsældir fálkaveiða í Mið-Austurlöndum minkuðu aldrei eins og gerðist í Evrópu. Þjóðhöfðingjar og þeir sem hafa mikil fjárráð leggja enn mikið fé í að kaupa, þjálfa og veiða með fálkum og öðrum ránfuglum.[16]

Í fjölmörgum öðrum löndum eru félög áhugamanna um fálkaveiðar starfandi.[17]

Sjá einnig

[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Hans J. Epstein, “The Origin and Earliest History of Falconry.” Isis 34, nr. 6 (1943): 497.
  2. Bodio, Stephen J. Eagle Dreams: Searching for Legends in Wild Mongolia 2003 The Lyons Press ISBN 10: 1592282075
  3. John W. Haeger MARCO POLO IN CHINA? PROBLEMS WITH INTERNAL EVIDENCE 1978 Bulletin of Sung and Yüan Studies No. 14 (1978), pp. 22-30 (9 pages) Published By: The Johns Hopkins University Press https://www.jstor.org/stable/23497510
  4. Haskins, C. H. (July 1927). "The Latin Literature of Sport". Speculum. 2 (3): 244. doi:10.2307/2847715. JSTOR 2847715. S2CID 162301922.
  5. Richard Vaughan (1962). Philip the Bold: The Formation of the Burgundian State. Boydell Press. ISBN 0582490480.
  6. Ragnar Orten Lie (2018). Raptor and human – falconry and bird symbolism throughout the millennia on a global scale. Centre for Baltic and Scandinavian Archaeology in the Foundation of the Schleswig-Holstein State Museums. bls. 738. ISBN 978-3-529-01490-1.
  7. Sigurður Ægisson. Icelandic Trade With Gyrfalcons: From Medieval Times to the Modern Era. Siglufjörður: Sigurður Ægisson, 2015.
  8. Gunnar Karlsson, Kristján Sveinsson, Mörður Árnason. (2001). Grágás Lagasafn íslenska þjóðveldisins. Bls. bls. 436
  9. Heimskringla, Ólafs saga Helga. https://www.snerpa.is/net/snorri/ol-helg.htm
  10. Björn Þórðarson, Íslenskir fálkar og fálkaveiðar fyrrum, 276
  11. Ragnar Orten Lie Falconry, falcon-catching and the role of birds of prey in trade and as alliance gifts in Norway (800–1800 AD) with an emphasis on Norwegian and later foreign participants in falcon-catching IN Raptor and human – falconry and bird symbolism throughout the millennia on a global scale Foundation of the Schleswig-Holstein State Museums ISBN 978-3-529-01490-1 bls 752
  12. Sigurður Ægisson, Icelandic Trade With Gyrfalcons: From Medieval Times to the Modern ErA (Siglufjörður: Sigurður Ægisson, 2015), 69.
  13. Árni Óla, „Fálkahúsið og fálkaverzlun konungs,“ Lesbók Morgunblaðsins, 19. nóvember 1967, sótt 14. október 2021. https://timarit.is/page/3291160
  14. Svavar Sigmundsson Hvernig er nafnið á Valhúsahæð til komið? ÚTGÁFUDAGUR 21.2.2006 https://www.visindavefur.is/svar.php?id=5659
  15. Thomas Munch-Petersen, København i flammer : hvordan England bombarderede København og ranede den danske flåde i 1807, Gyldendal, 2007. ISBN 978-87-02-05901-4.
  16. ULRIKE LEMMIN-WOOLFREY Everything to Know About Falconry in the Middle East. 2023 https://www.insidehook.com/travel/falconry-middle-east
  17. International Association of Falconry https://iaf.org