Thorstein Veblen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Thorstein Veblen
Fæddur 30. júlí 1857
Wisconsin, Bandaríkin
Dáinn 3. ágúst 1929
Kalífornía, Bandaríkin
Nám Carleton College
John Hopkins
Yale
Fræðigreinar Hagfræði
Heimspeki
Félagsfræði
Stofnanafræði

Thorstein Bunde Veblen (30. júlí 1857 – 3. ágúst 1929) var bandarískur hagfræðingur, félagsfræðingur[1], stofnanafræðingur[2] og heimspekingur[1]. Hann er þekktastur fyrir kenningu sína um makindastéttina (e. the leisure class) og varpaði hann einnig nýju ljósi á áhrif stórfyrirtækja á samfélagið. Hann gagnrýndi kenningar fyrrum hagfræðinga, þar með talið kenningum Marx og Laissez-Faire kenningu búauðgismannanna, auk þess sem hann gagnrýndi kapítalismann og sýnineyslu[1]. Veblen nálgaðist hagfræðina á annan hátt en áður hafði verið gert og lagði þannig grunn að stofnanahagfræði[3]. Þekktustu verk Veblen eru The Theory of the Leisure Class (1899) og The Theory of Business Enterprise (1904)[1].

Ævi og störf[breyta | breyta frumkóða]

Veblen fæddist í Wisconsin, Bandaríkjunum. Foreldrar hans voru norskir innflytjendur og bjuggu þau í saman í litlu samfélagi með öðrum Norðmönnum. Móðurmál Veblen er norska og lærði hann ekki ensku fyrr en hann hóf háskólanám, þá sautján ára[1].

Veblen var einkennilegur maður og skar sig úr hópnum með einkennandi útliti sínu og sérkennilega persónuleika. Hann var gríðarlega sérvitur, allt frá unga aldri; hann las mikið og hélt sig til hlés. Hann var einnig yfirburða gáfaður en lét þó sjaldan skoðanir sínar í ljós. Fræðimenn rökræddu því hvaða stefnu skoðanir hans aðhylltust, þó flestir telja að hann hafi hvað mest aðhyllst sósíalisma. Hann var ólíkur öðrum hagfræðingum; Adam Smith og Karl Marx, sem eru meðal áhrifamestu hagfræðinga sögunnar, tóku báðir virkan þátt í samfélaginu og höfðu skoðanir á mismunandi þáttum þess. Veblen, aftur á móti, tók ekki þátt í samfélaginu, hann virtist fjarlægur og áhugalaus[1].

Veblen hóf akademíska feril sinn við Carleton College, en þar lærði hann hagfræði og heimspeki. Eftir útskriftina, árið 1880, fór hann í framhaldsnám í heimspeki við John Hopkins háskólann og fór í framhaldi þess í doktorsnám við Yale. Árið 1884 fékk hann dokstorsgráðu í heimspeki, með heimspeki sem aðalgrein og félagsfræði sem aukagrein. Eftir námið var hann staðráðinn í því að halda ferlinum áfram innan akademíunnar, en gekk það mjög illa hjá honum. Eftir að hafa verið atvinnulaus í sjö ár bauð James Laurence Laughlin honum starf við hagfræðideild Chicago háskólans. Laughlin var prófessor í hagfræði og deildarstjóri hagfræðideildarinnar, sem var þá nýstofnuð[1]. Þar starfaði Veblen þar til honum var sagt upp vegna lifnaðarhátta sinna, en hann var mjög kvensamur og skipti helgileiki hjónabands hann litlu máli. Árið 1906 hóf Veblen störf við hagfræðideild Stanford háskólans og kenndi hann þar í þrjú ár. Að lokum var honum einnig sagt upp þar af sömu ástæðum og áður[3]. Veblen gekk illa að halda athygli nemenda í fyrirlestrum, og var brottfall úr námskeiðum hans mikið. Einnig höfðu nemendur orð af því hve sérkennilegur hann var. Í framhaldi af því starfaði hann við háskólann í Missouri, við matvælastofnun Bandaríkjanna og í New School of Social Research í New York. Veblen hélst illa í starfi vegna óhefðbundinna skoðanna sinna, framkomu og kvensemi sinnar. Þegar að heilsu hans fór að hraka settist hann að í litlum kofa nálægt Stanford þar sem hann lést árið 1929[1].

Stofnanahagfræði[breyta | breyta frumkóða]

Veblen lagði grunninn að stofnanahagfræði með gagnrýni sinni á nýklassíska hagfræði[4]. Veblen, og aðrir stofnanafræðingar, reyndu að útskýra hvernig smekkur, tækni og hagrænar ákvarðanir mótuðust af stofnunum, auk þess sem þeir reyndu að útskýra hvernig stofnanirnar mótuðu samfélagsskipan[3]. Veblen hafði mikla trú á því að hagkerfið væri að miklu leyti innbyggt í félagslegar stofnanir. Hann var þeirrar skoðunar að ekki ætti að aðskilja hagfræði og aðrar félagsgreinar, heldur ætti að skoða samband þessara greina nánar. Þessi hugmyndafræði gerði hagfræðingum kleift að skoða hagræn vandamál frá félagslegu- og menningarlegu sjónarhorni, en það hafði ekki verið gert áður[1].

Helstu verk[breyta | breyta frumkóða]

The theory of the leisure class[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1899 gaf Veblen út bókina The theory of the leisure class. Hún var umdeild og töldu margir hana vera árás á efri stéttir samfélagsins, eða makindastéttir eins og Veblen kallaði þær. Bókin fjallar um margvíslega þætti hvað varðar hagfræði og mannlega hegðun og undirstrikar hún hugmyndina um breytingu samfélagsins frá framleiðsluhagkerfi yfir í neysluhagkerfi. Hugmyndin var sú að leiðtogar samfélagsins sýndu ekki vald sitt og stöðu með því að stýra eða skapa heldur með sýnineyslu og sýndariðjuleysi[5].

Sýnineysla vísar til eyðslu peninga í munaðarvörur og þjónustu eingöngu til að sýna öðrum efnahagslegan kraft sinn eða uppsafnaðan auð. Fyrir neytendur er slík opinber sýning á neyslu leið til að ná eða viðhalda tiltekinni félagslegri stöðu[5]. Eiginkonur viðskiptajöfra á 19. öld veita okkur dæmi um sýnineyslu þegar að þær voru klæddar demöntum einungis til sönnunar um auð og velgengni eiginmanna sinna[6]. Í dag sjáum við þetta skýrt í hip-hop menningu Bandaríkjanna, þar sem rapparar klæðast demantshálsmenum og öðru skarti sem þjónar engum tilgangi öðrum en að sýna auð þeirra.

Sýndariðjuleysi er þegar fólk sýnir fram á iðjuleysi til sönnunar um auð sinn[7]. Til að mynda fer fólk í löng frí til framandi landa og koma heim með minjagripi til sönnunar um ágæti ferðarinnar. Einnig lærir fólk dauð tungumál, eins og latínu, aðeins til þess að sýna öðrum að þau höfðu frítíma til að læra það. Þessi hegðun er í samræmi við öflugustu stéttirnar og leiðir hún lægri stéttir þannig til að dást að, frekar en að gera lítið úr, makindastéttinni[8].

Með bókinni veitti Veblen ákveðið svar við því hvers vegna byltingin, sem Marx hafði spáð fyrir um í kenningum sínum um arðrán verkalýðsins, hafi ekki brotist út. Veblen vildi meina að verkalýðurinn hefði ekki áhuga á að kollvarpa kapítalistunum, heldur vildi hann líkjast þeim. Verkalýðurinn sjálfur sannfærir sig um að vinna þeirra sé einhvern veginn minna virðuleg en vinna kapítalistanna og markmið þeirra er því ekki að losa sig við þessa æðri stétt heldur að klifra upp til hennar og líkjast henni[9].

The theory of business enterprise[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1904 gaf Veblen út bókina The theory of business enterprise og fjallaði hún um áhrif stórfyrirtækja á samfélagið. Sú bók hlaut mikla gagnrýni þar sem innihald hennar virtist stangast á við almenna þekkingu þess tíma. Allt frá tímum Adam Smith hafði kapítalistinn verið talinn drifkraftur hagkerfisins og ein helsta ástæðan fyrir efnahagslegum framförum. Í þessum skrifum tók Veblen aðra nálgun á kapítalistann og lýsti honum ekki lengur sem drifkrafti hagkerfisins, heldur frekar sem eins konar skemmdarvargi[10]. Hann gagnrýndi kapítalísk markaðshagkerfi þar sem hann taldi þau ala af sér sóun og beindu fjármagni sínu með óhagkvæmum hætti í óarðbærar fjárfestingar.

Á þessum tímum stjórnuðu fyrirtækjaskipstjórar (e. captains of industry) stórfyrirtækjum, greiddu laun og högnuðust af rekstrinum á meðan verkamennirnir framleiddu vöruna og sköpuðu þannig nytjar fyrir samfélagið. Veblen taldi stórfyrirtæki því ekki vera skilvirk þar sem þau voru einungis drifin áfram af hagnaðar hámarkandi aðgerðum sem mættu ekki þörfum neytenda með hagkvæmum hætti. Þessar aðgerðir komu oft niður á framleiðslunni, sköpuðu atvinnuleysi og mynduðu fyrirtækin þannig óstöðugleika í samfélaginu. Veblen færði því rök fyrir því hvers vegna verkfræðingar ættu að stýra fyrirtækjunum þar sem þeir þekktu vel framleiðsluferlið auk þess sem þeir höfðu hag samfélagsins að leiðarljósi. Þannig gætu verkfræðingarnir stuðlað að jafnvægi sem vegur á móti markaðstruflandi aðgerðum kapítalistanna, en kapítalistarnir hlaða ofvaxna yfirbyggingu skuldsetninga og yfirfjárfestinga ofan á framleiðsluna sem veldur óstöðugleika og krísum. Veblen taldi því að það þyrfti að endurhugsa efnahagslegt hlutverk fyrirtækjanna þar sem hann áleit verkfræðinga vera sönnu hetjurnar, en ekki kapítalista[11].

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 1,7 1,8 Robert L. Heilbroner (1999). The worldly philosophers - The lives, times, and ideas of the great economic thinkers. Simon & Schuster.
 2. Bo Sandelin, Hans-Michael Trautwein, Richard Wundrak (2014). A short history of economic though. Routledge. bls. 73.
 3. 3,0 3,1 3,2 Bo Sandelin, Hans-Michael Trautwein, Richard Wundrak (2014). A short history of economic though. Routledge. bls. 74.
 4. Hodgson, Geoffrey M. (2004). The Evolution of Institutional Economics: Agency, Structure, and Darwinism in American Institutionalism. Routledge.
 5. 5,0 5,1 Robert L. Heilbroner (1999). The worldly philosophers - The lives, times, and ideas of the great economic thinkers. Simon & Schuster. bls. 229.
 6. Thorstein Veblen (2009). The Theory of the Leisure Class (Oxford World's Classics). OUP Oxford. bls. 18.
 7. Thorstein Veblen (2009). The Theory of the Leisure Class (Oxford World's Classics). OUP Oxford. bls. 19.
 8. Robert L. Heilbroner (1999). The worldly philosophers - The lives, times, and ideas og the great economic thinkers. Simon & Schuster. bls. 231.
 9. Robert L. Heilbroner (1999). The worldly philosophers - The lives, times, and ideas og the great economic thinkers. Simon & Schuster. bls. 233.
 10. Robert L. Heilbroner (1999). The worldly philosophers - The lives, times, and ideas og the great economic thinkers. Simon & Schuster. bls. 234.
 11. Thorstein Veblen (2004). The theory of business enterprise. OUP Oxford.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.