Fara í innihald

Tannhvalir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Tannhvalir
Tímabil steingervinga: Snemma á eósen - okkar daga
Stökkull
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Undirfylking: Hryggdýr (Vertebrata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Hvalir (Cetacea)
Undirættbálkur: Odontoceti
Flower, 1869

Tannhvalir (fræðiheiti: Odontoceti) er annar tveggja undirættbálka hvala, hinn flokkurinn er Skíðishvalir (Mysticeti). Flokkunarfræðingar telja tæplega 80 tegundir tannhvala, en nákvæmur fjöldi tegunda er umdeildur. Tannhvalir finnast í öllum heimshöfum og í mörgum stórfljótum.

Tannhvalir eru tenntir eins og nafnið bendir til. Tennurnar eru þó ekki eins í öllum tannhvölum. Hjá sumum hvalategundum eru tennurnar allar af sömu gerð (það er þær greinast ekki í framtennur, vígtennur og jaxla) og eru keilulaga með einfalda rót. Fjöldi tanna er einnig misjöfn eftir tegundum, sumar tegundir vatnahöfrunga (Platanistidae) eru með allt að tvö hundruð tennur, en náhvalir (Monodon monoceros) hafa aðeins eina tönn sem skagar fram úr höfðinu.

búrhval (Physeter catodon) undanskildum eru flestar tegundir tannhvala talsvert minni en skíðishvalir. Tannhvalir hafa eitt öndunarop en skíðishvalir tvö. Hægri og vinstri hauskúpuhelmingar tannhvala er ekki eins og er það vegna þess að þeir nota bergmálsmiðun við fæðuleit og hefur aðlögun að slíkri skynjun gert það að verkum að hauskúpa þeirra er ósamhverf.

Tannhvalir eru nær undantekningalaust hópdýr og fjölkvænisdýr með flókið félagsatferli. Fullvaxnir tannhvalstarfar eru oft verulega stærri en kýrnar. Hóparnir eru afar misstórir, allt frá nokkrum dýrum upp í tugi einstaklinga og jafnvel allt að þúsund dýr eins og þekkist meðal höfrunga. Samskipti einstaklinga innan hópsins eru mjög flókin og nota þeir meðal annars mismunandi hljóð til samskipta.

Helsta fæða tannhvala er fiskur, smokkfiskur og kolkrabbar. Sumir háhyrningsstofnar lifa á öðrum hvölum, hreifadýrum og mörgæsum.

Ættir tannhvala

[breyta | breyta frumkóða]

Vísindamenn eru ekki sammála um hvernig flokka beri tannhvali í ættir en algengt er að skipta núlifandi tannhvölum í sjö ættir.

Fimm tegundir teljast til vatnahöfrunga og lifa þær í fljótum í Suður-Ameríku og Asíu.

Ætt hvíthvela telur einungis tvær tegundir, mjaldur (Delphinapterus leucas) og náhvalur (Monodon monoceros).

Sex tegundir teljast til hnísuættarinnar og eru þær minnstar núlifandi hvala, stærstu tegundirnar verða aðeins um 2,5 metrar á lengd. Minnsta tegundin, Vaquinta (Phocoena sinus) sem lifir við strendur Norður-Ameríku, er aðeins 1,2 -1,5 m á lengd og 30-55 kg að þyngd.

Tegundaríkusta ætt tannhvala eru höfrungar en það eru taldar rúmlega 30 tegundir. Að undanskildum háhyrningum (Orchinus orca) eru höfrungar tiltölulega litlir samanborið við aðra hvali.

Svínshvelaætt er talin tegundaríkasta ætt hvala á eftir höfrungum og eru í henni 21 tegundur í 6 ættkvíslum. Svínshvalir eru meðalstórir hvalir, á bilinu 3,5 – 13 metrar á lengd og vega á bilinu 1-15 tonn.

Búrhveli er stærstur tannhvala en fullorðnir tarfar geta orðið um 20 metra langir. Höfuðið er einn þriðji af heildarlengdinni kjafturinn sérstakur, neðri kjálkinn er með fjölda hvassra tanna en efri kjálkinn er því sem næst tannlaus.

Dvergbúrraætt skiptist í tvær ættir, litli búrhvalurinn (Kogia breviceps) og dvergbúrhvalurinn (Kogia sima). Báðar tegundirnar lifa í heitum eða heittempruðum sjó umhverfis jörðina.

  • „Eru allir tannhvalir rándýr?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvað getið þið sagt mér um tannhvali?“. Vísindavefurinn.