Fara í innihald

Karamella

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Tagga)
Karamellur.

Karamella (borið fram sem [karamel-la]) er sælgæti sem unnið með því að sjóða matarsykur og melassa með smjöri og annað veifið er hveiti líka bætt út í. Blandan er svo hituð uns hitinn nær 150 til 160°C (eða um 302–310 °F).

Saga orðsins

[breyta | breyta frumkóða]

Orðið „karamella“ er íslenskt tökuorð frá 19. öld sem kemur af danska orðinu karamel. Talið er að danska orðið sé komið úr franska orðinu caramel en það barst til Frakklands úr spænska orðinu caramelo („sælgæti“, „karamella“).

Spænska orðið er að öllum líkindum ummyndun úr miðaldarlatneska orðinu cannamella eða canna mellis („reyrsykur“) sem kemur af latnesku orðunum canna („lítill reyr“) og mel („hunang“). Það eru hins vegar aðrir sem telja orðið komið af calamellus („lítill hálmur“, „lítill penni notaður til skrifta“) sem er smækkunarmynd latneska orðsins calamus („hálmur“, „reyr“) frá gríska orðinu kalamos.[1][2]

Notkun orðsins

[breyta | breyta frumkóða]

Orðið karamella hefur verið í notkun á Íslandi að minnsta kosti frá upphafi 20. aldari en í Morgunblaðið var skrifað:

„Karamellur.“ Þetta ótætis orð, sem fyrir nokkrum árum var að eins þekt af örfáum reykvískum sætindabelgjum sem ill danska, gjörir nú kröfu til þess að smeygja sér inn í orðabók Jóns Ólafssonar, sem hefðhelguð íslenzka.[1]
 

Orðið kom ekki fram í orðabók Sigfúsar Blöndals, þótt karamellur væru oft auglýstar á þeim árum; en árið 1924 var auglýsing birt í Ægi þar sem sælgæti var talið upp; „Lakkrís, síróp, hunang, brjóstsykur, karamellur, konfekt, marsipan.“ Í orðabók Menningarsjóðs er orðinu karamella fylgt með spurningarmerki (?), og merkir það að orðið hafi flokkast undir vont mál sem forðast skyldi. Ekki kom samt fram betra samheiti.[1]

Í bókinni Hljýjum hjartarótum eftir Gísla Ástþórsson sem kom út árið 1958 stendur:

...ofstopamenn óðu um landið og reyndu að þröngva almenningi til að kalla karamellur töggur.
 

Orðið „töggur“ er að finna í orðabók Menningarsjóðs og er það skráð sem samheiti við orðið „karamella“. Orðið náði hins vegar aldrei fótfestu í íslensku þótt reynt hafi verið að festa það í málinu. Nýyrði þetta hefur þó fengið vissan sess á Íslandi, því frægar karamellur frá Nóa Síríus nefnast Töggur.

Neðanmálsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 Orðapistlar um orðið „karamella“[óvirkur tengill] á heimasíðu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
  2. Ásgeir Blöndal Magnússon (3. prentun mars 2008). Íslensk orðsifjabók. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. ISBN 978-9979-654-01-8. á blaðsíðu 446 undir „karamella“.
  3. Orðabók Háskólans - Ritmálsskrá Leitarorð: „karamella“
  • Ásgeir Blöndal Magnússon (3. prentun mars 2008). Íslensk orðsifjabók. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. ISBN 978-9979-654-01-8. á blaðsíðu 446 undir „karamella“.
  • Árni Böðvarsson (1963). Íslensk orðabók handa skólum og almenningi. Menningarsjóður.
  • Gísli Ástþórsson (1945). Hlýjar hjartarætur.
  • Sigfús Blöndal (1920-1924). Íslensk-dönsk orðabók.