Fara í innihald

Tímavillti prófessorinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápumynd frönsku útgáfunnar af Tímavillta prófessornum.

Tímavillti prófessorinn (franska: L'Horloger de la comète) er 36. Svals og Vals-bókin og fjórða bók þeirra Tome og Janry. Hún kom út á frönsku árið 1986 og á íslensku síðar sama ár.

Söguþráður

[breyta | breyta frumkóða]

Sveppagreifinn heldur í ferðalag og fær Sval og Val til að gæta heimilis síns. Furðulegt farartæki lendir á garðflötinni og út stígur maður sem er nauðalíkur greifanum, hann kynnir sig þó sem Árelíus, frænda hans úr framtíðinni. Segist hann hafa farið í tímaferðalag fyrir tilstilli halastjörnu á himninum. Í fylgd Árelíusar er fjólubláa furðskepnan Nebbi prumpdýr.

Árelíus, segist ætla að halda til Palombíu til að bjarga ýmsum lífverum sem horfið hafa vegna mengunar eða ágangs manna og flytja þær til framtíðar. Svalur og Valur eru vel kunnugir í Palombíu og bjóðast til að slást í för með honum.

Fyrir slysni sendir Árelíus þá alla til Palombíu, en um leið aftur til miðrar sextándu aldar. Þeir lenda í útistöðum við óvinveitta frumbyggja og eru handsamaðir af portúgalska landstjóranum. franskur njósnari hjálpar þeim að flýja í kapp við tímann, enda virkar tímavélin aðeins á meðan halastjarnan er nærri Jörðu.

Vélin eyðileggst og félagarnir óttast að vera fastir í fortíðinni. Koma þá aðvífandi torkennilegir menn úr enn fjarlægari framtíð, frá stofnun sem hefur það hlutverk að fylgjast með tímaferðalögum. Þeir koma Árelíusi, Sval og Val aftur til síns tíma, en vara þá við að enginn muni leggja trúnað á sögu þeirra. Þegar heim er komið kemur Sveppagreifinn með ungan frænda sinn, Árelíus að nafni. Lýkur sögunni á að augu stráksins opnast fyrir eðli tímans.

Fróðleiksmolar

[breyta | breyta frumkóða]
  • Bókin kom út á íslensku fyrir jólin 1986 en útgáfuár hennar er ranglega skráð 1985.
  • Sagan birtist í teiknimyndablaðinu Sval veturinn 1984-85. Halastjarna Halleys var væntanleg til jarðar árið 1986 og var hún augljós fyrirmynd halastjörnunnar í sögunni, þótt það væri ekki sagt berum orðum. Umferðartími Halleys-stjörnunnar er þó 76 ár, en halastjarna Árelíusar 67 ár.
  • Bókin Upprisa Z er sjálfstætt framhald Tímavillta prófessorsins.

Íslensk útgáfa

[breyta | breyta frumkóða]

Bókin kom út á vegum Bókaútgáfunnar Iðunnar árið 1986 í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar. Hún er númer 21 í íslensku ritröðinni.

  • Splint & Co. 1984-1987. Forlaget Zoom. 2016. ISBN 978-87-93244-15-3.
  • De Blieck Jr., Augie „Spirou and Fantasio v14: “The Clockmaker and the Comet”“, Pipelinecomics, 26. október 2021.