Fara í innihald

Svetlana Allílújeva

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Svetlana Allilujeva)
Svetlana Allílújeva
Светлана Аллилуева
სვეტლანა ალილუევა
Svetlana Allílújeva árið 1970.
Fædd28. febrúar 1926
Dáin22. nóvember 2011 (85 ára)
ÞjóðerniSovésk (1926–1967, 1984–1991)
Ríkisfangslaus (1967–1978)
Bandarísk (með ríkisborgararétt 1978–1984)
Bresk (1992–2011)
MakiGrígoríj Morozov (g. 1944; sk. 1947)
Júríj Zhdanov (g. 1949; sk. 1952)
Ívan Svanídze (g. 1962; sk. 1963)
William Wesley Peters (g. 1970; sk. 1973)
Börn3
ForeldrarJósef Stalín og Nadezhda Allílújeva
Undirskrift

Svetlana Íosífovna Allílújeva (rússneska: Светлана Иосифовна Аллилуева; georgíska: სვეტლანა იოსების ასული ალილუევა; 28. febrúar 1926 – 22. nóvember 2011), fædd undir nafninu Svetlana Íosífovna Stalína og síðar þekkt undir nafninu Lana Peters, var yngsta barn og einkadóttir sovéska leiðtogans Jósefs Stalín og seinni konu hans, Nadezhdu Allílújevu. Árið 1967 vakti hún heimsathygli þegar hún yfirgaf Sovétríkin og flutti til Bandaríkjanna. Hún hlaut bandarískan ríkisborgararétt árið 1978. Frá 1984 til 1986 sneri hún stuttlega aftur til Sovétríkjanna og hlaut aftur ríkisborgararétt þar. Svetlana var síðasta eftirlifandi barn Stalíns.

Svetlana fæddist árið 1926 og var yngsta barn Jósefs Stalín. Móðir hennar, Nadezhda Allílújeva, lést þegar hún var sex ára gömul og er talin hafa fyrirfarið sér. Þegar Svetlana var sautján ára gömul varð hún ástfangin af kvikmyndagerðarmanni af Gyðingaættum, Aleksej Kapler.[1] Stalín var mótfallinn sambandi þeirra og Kapler var fljótt handtekinn og sendur til vinnubúða í Síberíu í tíu ár.[2]

Svetlana í faðmi föður síns árið 1935.

Svetlana giftist árið 1945 samnemanda sínum í Moskvuháskóla, Grígoríj Morozov. Hjónaband þeirra entist aðeins í tvö ár, en á þeim tíma eignuðust þau einn son, Íosíp (Jósef). Tveimur árum eftir skilnaðinn giftist Svetlana öðrum eiginmanni sínum, Júríj Zhdanov, sem var sonur hægri handar Stalíns, Andrej Zhdanov. Annað hjónaband Svetlönu entist heldur ekki lengi, en með Zhdanov eignaðist hún þó eina dóttur, Jekaterínu.[1]

Jósef Stalín lést árið 1953. Á 20. þingi Kommúnistaflokksins árið 1956 lét nýr leiðtogi Sovétríkjanna, Níkíta Khrústsjov, afhjúpa marga glæpi Stalíns og fordæmdi arfleifð hans til þjóðarinnar. Eftir þetta glataði Svetlana mörgum fríðindum sem hún hafði haft sem dóttir leiðtoga ríkisins. Árið 1957 hætti hún að nota föðurnafnið Stalína og tók þess í stað upp ættarnafn móður sinnar, Allílújeva.[2] Hún hóf jafnframt störf sem kennari og túlkur í Moskvu.[1]

Á sjöunda áratugnum átti Svetlana í ástarsambandi við indverskan kommúnista að nafni Brajesh Singh. Hann lést árið 1966 og Svetlana fékk í kjölfarið leyfi sovéskra stjórnvalda til að fara með öskur hans til Indlands. Í Indlandsferðinni tók Svetlana skyndilega ákvörðun um að flýja frá eftirliti sovéskra fylgdarmanna sinna. Hún gaf sig fram í bandaríska sendiráðinu í Nýju-Delí og hlaut pólitískt hæli í Bandaríkjunum.[1] Flótti Svetlönu til Bandaríkjanna vakti mikla athygli í heimspressunni og hún græddi um 1,5 milljón Bandaríkjadala á að gefa út endurminningabókina Tuttugu bréf til vina.[2] Aleksej Kosygín, þáverandi forsætisráðherra Sovétríkjanna, fordæmdi Svetlönu fyrir flóttann og sagði hana sjúka og siðferðilega óstöðuga.[3]

Svetlana var svipt ríkisfangi í Sovétríkjunum árið 1969 vegna flótta hennar til Bandaríkjanna. Árið 1970 giftist Svetlana Bandaríkjamanni, William Peters. Þau eignuðust dótturina Olgu árið 1972 en skildu að borði og sæng stuttu síðar og að lögum árið 1973.[4] Þrátt fyrir skilnaðinn hélt Svetlana nafni eiginmannsins og var kölluð Lana Peters til dauðadags.[1]

Önnur endurminningabók Svetlönu, Tónar í fjarlægð, kom út í Indlandi árið 1984. Í bókinni lýsti hún yfir andúð á sovéska stjórnkerfinu. Síðar sama ár tók Svetlana hins vegar óvænta ákvörðun um að snúa aftur til Sovétríkjanna ásamt Olgu.[2] Eftir heimkomuna sættist Svetlana opinberlega við sovésk stjórnvöld og gagnrýndi Vesturlönd harkalega. Aðeins þremur árum síðar flutti hún hins vegar aftur til Vesturlanda og var þá aftur búin að skipta um skoðun í þessum málum.[1]

Svetlana var lítið í sviðsljósinu á næstu árum. Hún bjó um skeið í Englandi á heimili fyrir fólk með geðraskanir. Hún lést árið 2011 við fátæklegar aðstæður á sjúkraheimili í Wisconsin.[5] Árið fyrir andlát sitt sagðist Svetlana ánægð með að búa í Bandaríkjunum en að faðir hennar hefði eyðilagt líf hennar.[6]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 Skapti Hallgrímsson (4. desember 2011). „Spörfugl Stalíns er sestur“. SunnudagsMogginn. bls. 6.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 Patricia Blake (10. febrúar 1985). „Litli spörfuglinn hans Stalíns“. Morgunblaðið. bls. 52–55.
  3. „Dóttir Stalíns látin“. mbl.is. 28. nóvember 2011. Sótt 15. apríl 2024.
  4. „Ég brenndi allar brýr að baki mér“. Tíminn. 10. júlí 1977. bls. 36–37.
  5. „Dóttir Stalíns látin“. RÚV. 29. nóvember 2011. Sótt 15. apríl 2024.
  6. „Svetlana dóttir Josefs Stalin er látin“. Vísir. 29. nóvember 2011. Sótt 15. apríl 2024.