Fara í innihald

Sukarno

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sukarno
Forseti Indónesíu
Í embætti
18. ágúst 1945 – 12. mars 1967
Forsætisráðherra
VaraforsetiMohammad Hatta (1945–1956)
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurSuharto
Persónulegar upplýsingar
Fæddur6. júní 1901
Surabaya, Austur-Jövu, hollensku Austur-Indíum
Látinn21. júní 1970 (69 ára) Jakarta, Indónesíu
StjórnmálaflokkurIndónesíski þjóðarflokkurinn
MakiOetari (g. 1921–1922), Inggit Garnasih (g. 1923–1942), Fatmawati (g. 1943–1970), Hartini (g. 1954–1970), Kartini Manoppo (g. 1959–1968), Ratna Sari Dewi (Naoko Nemoto) (g. 1962–1970), Haryati (g. 1963–1966), Yurike Sanger (g. 1964–1967), Heldy Djafar (g. 1966–1970)
Börn12
StarfStjórnmálamaður
Undirskrift

Sukarno (f. 6. júní 1901 – d. 21. júní 1970)[1] var fyrsti forseti Indónesíu og gegndi því embætti á árunum 1945 til 1967.

Sukarno var leiðtogi sjálfstæðisbaráttu Indónesíu frá Hollandi. Hann var einn helsti leiðtogi þjóðernishreyfingar Indónesíumanna á hollensku nýlenduárunum og eyddi meira en áratug í fangelsi Hollendinga þar til hann var leystur úr haldi af innrásarmönnum japanska keisaraveldisins í seinni heimsstyrjöldinni. Sukarno og aðrir þjóðernissinnar unnu með innrásarhernum til þess að afla Japönum stuðning meðal Indónesíumanna í skiptum fyrir hjálp Japana við að breiða út þjóðernishyggju. Þegar Japanir gáfust upp fyrir Bandamönnum lýsti Sukarno ásamt Mohammad Hatta yfir sjálfstæði Indónesíu þann 17. ágúst 1945. Sukarno var útnefndur fyrsti forseti landsins. Hann fór fyrir andspyrnu Indónesíumanna gegn tilraunum Hollendinga til að ná aftur völdum yfir nýlendu sinni þar til Hollendingar viðurkenndu sjálfstæði Indónesíu árið 1949. Rithöfundurinn Pramoedya Ananta Oer skrifaði um Sukarno að hann hefði verið „eini asíski nútímaleiðtoginn sem tókst að sameina fólk með svo margvíslegan þjóðernis-, menningar- og trúarbakgrunn án þess að úthella einum blóðdropa.“[2]

Eftir stormasamt tímabil þingbundins lýðræðis kom Sukarno á fót gerræðislegu stjórnarkerfi sem hann kallaði „leiðbeint lýðræði“ árið 1957 og tókst að binda enda á óstöðugleika og uppreisnaröldu sem ógnaði framtíð ríkisins. Á sjöunda áratugnum leiddi Sukarno Indónesíu talsvert til vinstri með því að veita indónesíska kommúnistaflokknum stuðning og vernd. Með þessu vann hann sér inn óvild bæði hersins og íslamista. Hann tók líka ýmsar róttækar ákvarðanir í utanríkismálum sem áttu að snúast gegn heimsvaldsstefnu með aðstoð Sovétríkjanna og Kína. 30. septemberhreyfingin árið 1965 leiddi til þess að indónesíski kommúnistaflokkurinn var lagður í rúst árið 1967 og Sukarno steypt af stóli. Hann eyddi því sem hann átti eftir ólifað í stofufangelsi.

Dóttir Sukarnos, Megawati Sukarnoputri, var forseti Indónesíu frá 2001 til 2004.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Biografi Presiden Geymt 21 september 2013 í Wayback Machine Perpustakaan Nasional Republik Indonesia
  2. Pramoedya ananta Toer, SOEKARNO, TIME Asia story TIME 100: AUGUST 23-30, 1999 VOL. 154 NO. 7/8, http://edition.cnn.com/ASIANOW/time/asia/magazine/1999/990823/sukarno1.html


Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
Forseti Indónesíu
(18. ágúst 194512. mars 1967)
Eftirmaður:
Suharto