Stjörnubíó

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Stjörnubíó var kvikmyndahús við Laugaveg 96 í Reykjavík. Kvikmyndahúsið var upphaflega með einum sýningarsal með sætum á tveimur hæðum sem tók rúmlega 500 manns í sæti. Það tók til starfa föstudaginn 30. september 1949. Fyrsta kvikmyndin sem sýnd var í húsinu var Sagan af Karli Skotaprins (Bonnie Prince Charlie) frá 1948 með David Niven í aðalhlutverki. Bygging hússins hófst 1946 en vegna tafa á leyfum fyrir byggingarefni tafðist byggingin um tvö ár. Hjalti Lýðsson, kjötkaupmaður í Reykjavík, var forstjóri kvikmyndahússins frá opnun fram á efri ár en hann lést 1976. Eftir það rak fjölskylda hans bíóið. Stjörnubíó var með dreifingarsamning við bandaríska kvikmyndaverið Columbia Pictures.

Meðal vinsælla kvikmynda sem sýndar voru í Stjörnubíói voru Rock Around the Clock (1956), Brúin yfir Kwai (1957), Byssurnar í Navarone (1961) og Flåklypa Grand Prix (1975). Flestar af kvikmyndum Óskars Gíslasonar voru frumsýndar í Stjörnubíói en Björgunarafrekið við Látrabjarg var þriðja kvikmyndin sem tekin var til sýninga þar 1949. Aðrar íslenskar kvikmyndir sem voru frumsýndar í Stjörnubíói voru meðal annars Morðsaga eftir Reyni Oddsson 1977, Eins og skepnan deyr eftir Hilmar Oddsson 1986, Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson 1991 og Ingaló eftir Ásdísi Thoroddsen 1992.

Tvisvar kom upp eldur í húsinu. Fyrra skiptið var 18. janúar 1954 en bíóið hóf aftur sýningar eftir nokkurra vikna viðgerðir. Þann 18. desember 1973 gjöreyðilagðist sýningarsalur hússins í eldsvoða. Eftir það var salurinn endurbyggður á einni hæð. Bíóið var enduropnað 8. júní 1974. Árið 1982 voru enn gerðar breytingar á húsinu þegar öðrum sýningarsal, fyrir 115 áhorfendur var bætt við á efri hæð.

Síðustu kvikmyndasýningarnar í húsinu fóru fram 28. febrúar 2002. Það var rifið í október sama ár. Þar stendur nú bílastæðahúsið Stjörnuport.