Stefán Jón Hafstein

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Stefán Jón Hafstein (f. 18. febrúar 1955) er starfsmaður Þróunarsamvinnustofnunar og hefur verið frá 2007. Hann var umdæmisstjóri í Malaví 2008-2012, en áður verkefnastjóri í Namibíu. Frá 2015 er hann umdæmisstjóri í Úganda. Hann á feril sem stjórnmálamaður, fjölmiðlamaður og rithöfundur. Kom að stofnun Dægurmálaútvarps Rásar 2 og stjórnaði útvarpsþáttunum Meinhorninu og Þjóðarsálinni, þar sem hlustendum gafst færi á að hringja inn og tjá sig um ýmis málefni.

Stefán var kosinn borgarfulltrúi Reykjavíkurlistans 2002 og Samfylkingarinnar 2005 en hann fékk leyfi frá störfum í borgarstjórn í upphafi árs 2007 til tveggja ára til að starfa sem verkefnisstjóri hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands í Namibíu. Hann var umdæmisstjóri ÞSSÍ í Malaví 2008-2012 og starfar hjá Þróunarsamvinnustofnun í Reykjavík frá 2012. Maki er Guðrún Kristín Sigurðardóttir.

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Foreldrar Stefáns eru Hannes Þórður Hafstein (látinn) og Sigrún Stefánsdóttir (látin). Stefán gekk í Vogaskóla og útskrifaðist 1975 frá Menntaskólanum við Tjörnina. Hann stundaði nám í ensku og bókmenntun við Háskóla Íslands og lauk BA námi í fjölmiðlafræðum frá Polytechnic of Central London 1979.

Að námi loknu sneri Stefán heim til Íslands og starfaði sem fréttamaður og dagskrárgerðarmaður hjá RÚV 1979-1982. Svo settist hann á ný á skólabekk og stundaði framhaldsnám í boðskiptafræðum við University of Pennsylvania 1983-85 og útskrifaðist með MA gráðu frá þeim skóla.

Að framhaldsnáminu loknu starfaði hann um hríð sem sendifulltrúi Rauða krossins í Genf og Eþíópíu og gengdi trúnaðarstörfum sem slíkur víðar. Hann starfaði sem dagskrárstjóri Rásar 2, dagskrárgerðarmaður Sjónvarpsins, Stöðvar 2 og Rásar 1. Stjórnandi spurningakeppninnar Gettu betur á árunum 1991-1994. Hann var ritstjóri dagblaðsins Dags-Tímans (síðar Dags) 1997-1999, með eigin rekstur 2000 og starfaði sem yfirmaður nýmiðlunar og rekstrarstjóri hjá Eddu - miðlun og útgáfu 2001-2002.

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Stefán tók þátt í undirbúningi og stofnun Samfylkingarinnar árin 1999 og 2000. Hann var kjörinn formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar 2001-2005. Var kjörinn borgarfulltrúi í Reykjavík árið 2002 fyrir Reykjavíkurlistann, þar sem hann er fulltrúi Samfylkingarinnar. Hann hlaut fyrsta sæti á lista Samfylkingar í prófkjöri 2003. Hefur starfað sem formaður borgarráðs, forseti borgarstjórnar, formaður menntaráðs, formaður menningar- og ferðamálaráðs og formaður hverfisráðs Grafarvogs. Formaður Víkarinnar sjóminjasafns frá 2004. Í framboði til borgarstjórnar árið 2005 fyrir Samfylkinguna og náði kjöri, sat í menntaráði, menningar- og ferðamálaráði og stjórn Orkuveitunnar um hríð.

Stefán Jón Hafstein fékk leyfi frá störfum í borgarstjórn í upphafi árs 2007 til tveggja ára til að starfa sem verkefnisstjóri hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands í Namibíu og hætti í framhaldi stjórnmálaþátttöku að sinni er hann varð umdæmisstjóri ÞSSÍ í Malaví 2008 og starfaði að þeim málum síðan.

Bækur[breyta | breyta frumkóða]

Sex bækur liggja eftir Stefán:

  • Sagnaþulir samtímans, fjölmiðlar á öld upplýsinga (1987)
  • Guðirnir eru geggjaðir, ferðasaga frá Afríku (1990)
  • New York New York (1992)
  • Fluguveiðisögur (2000) (sjá Flugur.is)
  • Fluguveiðiráð (2013)
  • Afríka - ást við aðra sýn. Bók með ríkulegum myndskreytingum við greinaflokka frá sunanverðri Afríku (2014).

Tengill[breyta | breyta frumkóða]