Fara í innihald

Stefán Björnsson reiknimeistari

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Stefán Björnsson var íslenskur stærðfræðingur. Helsta ritverk hans er bókin Introductio in tetragonometriam frá 1780 sem er fyrsta bók eftir íslenskan höfund um æðri stærðfræði. Hann fæddist 15. janúar 1721 (eða 1720) á Ystugrund í Skagafirði og lést 15. október 1798 í Kaupmannahöfn. Foreldrar hans voru Björn Skúlason prestur í Flugumýrarþingum og Halldóra Stefánsdóttir lögréttumanns Rafnssonar. Stefán stundaði nám í Hólaskóla og Hafnarskóla og lauk cand. theol.-prófi árið 1747. Hann tók við starfi rektors á Hólum 1753 en fór þaðan þegar missætti kom upp milli hans og Jóns Magnússonar stiftprófasts, bróður Skúla fógeta. Stefán fluttist þá til Kaupmannahafnar og settist þar aftur á skólabekk.

Sefán lauk prófi (baccalaureus philosophiæ) árið 1757 og varð nokkrum árum síðar reiknimeistari (Kalkulator) hjá landmælingadeild danska Vísindafélagsins og starfaði þar í rúma tvo áratugi. Eftir að hann lét af störfum hjá Vísindafélaginu vann hann fyrir sér við þýðingar á íslenskum fornritum á latínu. Hann var einnig um skeið styrkþegi sjóðs Árna Magnússonar.

Stefán Björnsson var ókvæntur og barnlaus.

Stefán er höfundur fjögurra prentaðra háskólafyrirlestra á latínu um heimspeki og stjörnufræði (frá árunum 1757-­60) og prentaðrar bókar Introductio in tetragonometriam á latínu um stærðfræðilega eiginleika ferhyrninga. Hann sá einnig um fyrstu fræðilegu útgáfuna á Rímbeglu, hinni fornu ritgerð um tímatal og stjarnvísi og ritaði formála og ítarlegar skýringar. Einnig þýddi hann Hervararsögu og Heiðreks á latínu og kom hún út árið 1785. Á árunum 1782-­90 skrifaði hann sex greinar í rit Lærdómslistafélagsins um aflfræði og hagnýtingu hennar. Hann skrifaði einnig um alþýðlegar veðurspár og frumatriði landmælinga.

Árið 1793 hlaut Stefán gullverðlaun Hafnarháskóla í stærðfræði og varð fyrstur Íslendinga til að hljóta þau verðlaun. Aðeins þrír aðrir Íslendingar hafa fengið þau verðlaun en það eru stærðfræðingarnir Björn Gunnlaugsson (1818 og 1820), Ólafur Dan Daníelsson (1901) og Sigurður Helgason(1951).

Stefán flutti fjóra fyrirlestra skömmu eftir að hann lauk stærðfræðinámi og voru þeir gefnir út. Tveir eru um heimspekilegt efni, De essentia consecutiva (Um afleitt eðli), sem út kom 1757, og Dissertatio spectans ad physicam coelestem (Um eðli himintungla) frá árinu 1760 en þar færir Stefán meðal annars rök fyrir vitsmunalífi á öðrum hnöttum og styðst þar mjög við hugmyndir heimspekingsins Leibniz um hinn besta og fullkomnasta heim allra hugsanlegra heima. Hinir fyrirlestrarnir tveir fjalla um efni úr stjörnufræði. Í De effectu cometarum (Um verkan halastjarna) frá 1758 er fjallað um þyngdaráhrif halastjarna á sólina og aðra hnetti sólkerfisins, sjávarfallahrif af völdum halastjarna og önnur skyld efni. Í De usu astronomiae in medicina (Um gagnsemi stjörnufræði í læknislist) frá 1759 fjallar um hvernig sólarljós fellur á jörðina og aðra hnetti sólkerfisins og varmaáhrif sólarinnar á jörðina og hugsanleg segulhrif í sólkerfinu.

Í bók Stefáns frá 1780, Introductio in tetragonometriam (Inngangi að ferhyrningafræði) er stærðfræðileg umfjöllun um rúmfræðilega og hornafræðilega eiginleika ferhyrninga.

Einar H. Guðmundsson: Ferhyrningar, halastjörnur og grunnmaskínur. Grein í menningarblaði Morgunblaðsins 17. október 1998

Ytri tenglar

[breyta | breyta frumkóða]