Stefán Benediktsson
Stefán Benediktsson | |||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Alþingismaður | |||||||||||||
| |||||||||||||
Persónulegar upplýsingar | |||||||||||||
Fæddur | 20. október 1941 Reykjavík | ||||||||||||
Stjórnmálaflokkur | Alþýðuflokkurinn (til 1983, 1986–2000) Bandalag jafnaðarmanna (1983–1986) Samfylkingin (frá 2000) | ||||||||||||
Börn | 7 | ||||||||||||
Háskóli | Tækniháskólinn í Aachen(de; en) | ||||||||||||
Starf | Arkitekt, alþingismaður, þjóðgarðsvörður og listasögukennari | ||||||||||||
Æviágrip á vef Alþingis |
Stefán Benediktsson (f. 20. október 1941) er íslenskur arkitekt og fyrrverandi alþingismaður. Hann hefur einnig starfað sem þjóðgarðsvörður í Skaftafelli og listasögukennari.
Foreldrar og menntun
[breyta | breyta frumkóða]Stefán fæddist í Reykjavík og foreldrar hans eru Benedikt Stefánsson (1903–1975) fulltrúi í fjármálaráðuneyti og Steinunn Árnadóttir (1911–2006) húsmóðir.
Stefán gekk í Austurbæjarskóla og tók landspróf í Gagnfræðaskóla Austurbæjar (Gaggó Aust). Hann var í Menntaskólanum í Reykjavík en hætti eftir þriðja bekk og fór til sjós. Eftir tæp tvö ár á sjó settist hann aftur í fjórða bekk, féll en tók svo fjórða og fimmta bekk utan skóla á einu ári og lauk stúdentsprófi árið 1962.
Sama ár giftist Stefán Guðrúnu Drífu Kristinsdóttur og fóru þau um haustið saman til Aachen í Þýskalandi. Þar stundaði hann nám í arkitektúr og húsgerðalist við Tækniháskólann í Aachen(de; en). Með styrkjum stundaði hann námið til ársins 1971, þegar hann lauk arkitektsprófi frá skólanum. Sama ár um haustið fluttu þau aftur heim til Íslands.[1]
Starfsferill
[breyta | breyta frumkóða]Stefán starfaði fyrst sem arkitekt hjá Gesti Ólafssyni en síðar rak hann Arkitektastofu með Pálmari Ólasyni á árunum 1975–1985. Samhliða kenndi hann listasögu við Menntaskólann í Reykjavík á árunum 1972–1984.
Eftir að hann hætti þingstörfum árið 1987 starfaði hann sem ráðgjafi í byggingamálum á vegum menntamálaráðuneytisins. Árið 1988 var hann skipaður þjóðgarðsvörður í Skaftafelli. Hann sinnti því til ársins 1999. Frá 2000–2006 starfaði hann hjá Umhverfisstofnun í Reykjavík og frá 2006–2009 við Vatnajökulsþjóðgarð. Síðan hefur hann verið sjálfstæður ráðgjafi í byggingar- og skipulagsmálum.[1]
Stjórnmál og félagsstörf
[breyta | breyta frumkóða]Stefán tók þátt í stofnun Bandalags jafnaðarmanna og var í framboði fyrir það í Reykjavíkurkjördæmi í Alþingiskosningunum 1983. Hann náði ekki kjöri en settist inn á þing eftir andlát Vilmundar Gylfasonar.[2] Hann gekk í Alþýðuflokkinn árið 1986 ásamt tveimur af fjórum þingmönnum bandalagsins. Hann gaf ekki kost á sér til endurkjörs fyrir Alþingiskosningar 1987.
Stefán var 1. varaforseti efri deildar þingsins kjörtímabilið. Á þingi sat hann einnig í Norðurlandaráði frá 1983–1986 og Vestnorræna þingmannaráðinu 1985–1987. Árið 1984 var hann kjörinn í samstarfsnefnd með Færeyingum og Grænlendingum um sameiginleg hagsmunamál.[3]
Hann var viðriðinn borgarmálefni á vegum Alþýðuflokksins á árunum 1974–1982 og síðar Samfylkingarinnar frá 2006. Hann hefur setið í Umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur, Skóla- og frístundaráði, Velferðarráði, Íþrótta- og tómstundaráði, Hverfisráði Hlíða og Menningar- og ferðamálaráði.
Stefán var formaður byggingarnefndar Borgarleikhússins frá 1981–1982. Frá 1982–1990 var hann ritari deildar sjálfstætt starfandi arkitekta, formaður Arkitektafélagsins 1988–1990 og varaformaður fulltrúaráðs Alþýðuflokksins 1987.[1]
Einkalíf
[breyta | breyta frumkóða]Stefán og Drífa skildu síðar. Börn þeirra eru Benedikt (f. 1964), Kristinn (f. 1969), Sigurveig Margrét (f. 1973) og Steinunn María (f. 1981). Seinni kona hans er Birna Björg Berndsen, félagsfræðingur. Þau skildu einnig. Börn þeirra eru Brynjólfur (f. 1991) og Ástráður (f. 1993), auk stjúpdótturinnar Arndísar Bjargar (f. 1984). Stefán býr nú með Hjördísi Gísladóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra Græns kostar.[1]
Tílvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 „Dagfarsprúður krati og náttúrubarn“. Morgunblaðið. 20. október 2016. Sótt 6. júní 2025.
- ↑ „Reykjavík 1983“. Kosningasaga.
- ↑ Alþingi, - Stefán Benediktsson - Æviágrip (skoðað 8. júní 2025)