Stóra-Seyla

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Stóra-Seyla eða Seyla er bær og gamalt höfuðból á Langholti í Skagafirði. Þar var áður þingstaður Seyluhrepps, sem var kenndur við bæinn.

Bærinn hét upphaflega aðeins Seyla en eftir að hjáleigan Litla-Seyla byggðist úr landi jarðarinnar, líklega á 17. öld, var hann kallaður Stóra-Seyla. Nafni Litlu-Seylu var breytt í Brautarholt 1915 og eftir það er bærinn yfirleitt aðeins nefndur Seyla þótt formlegt heiti sé Stóra-Seyla. Nafnið Seyla er talið merkja kelda. Bærinn á víðáttumikið land á Langholti, milli Húseyjarkvíslar að austan og Sæmundarár að vestan.

Seyla var hluti af heimanmundi þeim sem Gottskálk biskup Nikulásson galt með Kristínu dóttur sinni þegar hún giftist Þorvarði Erlendssyni lögmanni 1508. Þorbergur Hrólfsson (1573 - 8. september 1656) eignaðist líklega jörðina snemma á 17. öld og bjuggu ættmenn hans þar lengi síðan, þó ekki óslitið. Launsonur hans var Halldór Þorbergsson annálaritari (1623-1711), sem skrifaði Seyluannál. Árið 1713 bjó Marteinn Arnoddsson prentari við Hólaprentsmiðju á Seylu.

Kirkja var á Seylu á miðöldum eins og kemur fram í Sturlungu, þar sem segir frá því að árið 1255, eftir að Oddur Þórarinsson var veginn í Geldingaholti, var lík hans fært að Seylu, þar sem annars var ekki grafreitur, og grafið þar inn undir kirkjugarðsvegg. Þetta var gert vegna þess að Oddur dó í banni og mátti í raun ekki fá leg í vígðri mold.