Stírur
Stírur kallast storknuð tár í augnkrókum. Vanalega myndast stírur ekki í vöku, heldur meðan viðkomandi sefur. Þegar svo er komið er talað um að sá sé með „stírur í augunum“ og nær þeim úr með því að núa stírunum úr augunum. Athugið að sögnin „að stíra“ er eiginlega aðeins notuð í orðasambandinu „einhvern stírir í augun“ sem merkir að einhver verður þreyttur í augunum. Stírur er nefnilega einnig haft um þreytu í augum, sbr. lýsingarorðið stírueygður.
Um orðið
[breyta | breyta frumkóða]Ekki er vitað um að þetta orð sé notað í eignarfalli.[1]
Orðsifjar
[breyta | breyta frumkóða]Orðið „stírur“ er samstofna nýnorska orðinu stira, miðsænska orðinu stira (sem merkir að „stara“), austur-frísneska orðinu stīren (að „stífna“ eða að „stara“), nýháþýska orðinu stieren (að „stara“). Bera má saman við austur-frísneska orðið stīr („stífur“), nýháþýska orðið stier („stífur“, „stafandi“). Sagnorðið að stíra er líklega dregið af lýsingarorðinu *stīra-, *stĭra- (samanber íslenska orðið stira sem merkir að „stara“).[2]
Einnig tengt litháíska orðinu stỹros ãkys („stýrð augu“), stìrsti (að „stífna“), latneska orðinu stīria („dropi sem hefur frosið“, „klaki“, „grýlukerti“), gríska orðinu stílē („dropi“) sem er af rótinni *stā-, *stĭ- (að „vera stífur“, að „þrengjast saman“) með l-viðskeyti. Berist saman við orðið steinn, stía, stím og mögulega stíll.[2]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Beyging orðsins „Stírur"“. á Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls
- ↑ 2,0 2,1 Ásgeir Blöndal Magnússon (3. prentun mars 2008). Íslensk orðsifjabók. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. ISBN 978-9979-654-01-8. á blaðsíðu 962 undir „stírur“.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- „Af hverju koma stírur í augun?“. Vísindavefurinn.
- „Hvað eru stírur sem myndast í augnkrókum og hvaða hlutverki gegna þær?“. Vísindavefurinn.
- Hvað eru stírur í augunum? Geymt 23 nóvember 2006 í Wayback Machine á heimasíðu Lifandi Vísinda